Ársþing Landssamtaka hjólreiðamanna verður haldið laugardaginn 1. mars kl 14:00 í Klúbbhúsinu að Brekkustíg 2. Verður það haldið í beinu framhaldi af opnu húsi ÍFHK frá kl. 12-14. Eru félagsmenn Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Hjólreiðafélags Reykjavíkur hvattir til að fjölmenna þar sem mikil þörf er á endurnýjun stjórnar auk þess sem manna þarf aðgerðarhópa. Landssamtökin óska líka eftir faglegri aðstoð verkfræðings, lögfræðings og löggilts þýðanda.

 

Tillögur sem einstök félög/félagar hyggjast bera upp á ársþingi sem og tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn samtakanna eigi síðar en 2 vikum fyrir ársþing.

Stjórnin sendir síðan aðildarfélögum LHM tillögurnar fyrir ársþingið.

Rétt til setu á ársþingi hafa allir fullgildir skuldlausir félagar LHM (félagar HFR og ÍFHK). Munið eftir félagsskírteinum.

Ársþingin eru lögleg án tillits til fjölda þeirra sem á ársþingið mæta ef löglega er til þeirra boðað. Enginn þingfulltrúi fer með meira en 1 atkvæði á ársþingi og ekki er heimilt að fara með umboð annars við atkvæðagreiðslu eða kosningar.

 

Dagskrá ársþings skal vera sem hér segir:

1.      Kosnir þingforsetar og þingritarar.

2.      Ársskýrsla stjórnar.

3.      Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.

4.      Fræðsluerindi – umræður.

5.      Fjallað um framkomnar tillögur.

6.      Samþykkt fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

7.      Önnur mál.

8.      Kosningar.

a)      Formaður skal kosinn árlega.

b)      4 meðstjórnendur eru kosnir til 2ja ára, 2 annað hvert ár. Stjórnin skiptir með sér verkum varaformanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. 2 varastjórnarmenn skulu kosnir, 1 annað hvert ár.

c)      Kosnir 2 endurskoðendur.

d)      Kosnar starfsnefndir.

e)      Lagabreytingar.

f)       Kosnir stjórnarmenn sitji eigi lengur en 4 ár í embætti samfellt.

g)      Allar kosningar skulu fara fram skriflega. Verði 2 jafnir ræður hlutkesti.

h)      Eigi síðar en 4 vikum fyrir ársþing skal stjórnin skipa 3ja manna kjörnefnd sem gerir tillögu til ársþings um menn í stjórn, varastjórn og sem endurskoðendur.

i)        Kjörnefnd skilar stjórninni tillögum sínum eigi síðar en viku fyrir ársþing.

j)       Hver sá sem vill gera tillögu um menn til kjörs í stjórn, varstjórn eða sem endurskoðendur skal á sama hátt hafa skilað stjórn LHM tillögu þess efnis fyrir áðurgreindan tíma með fullgildu samþykki viðkomandi. Aðeins skal kosið um þá menn sem tillaga hefur verið gerð um til stjórnarinnar skv. því sem að ofan greinir.

k)      Í öllum málefnum skal meirihluti atkvæða ráða nema hvað 2/3 hluta greiddra atkvæða þarf til að lagabreytingar nái fram að ganga.

 

Að lokinni dagskrá verður nýju fólki fagnað með skemmtilegri uppákomu.

 

Stjórn LHM