LANDSSAMTÖK HJÓLREIÐAMANNA

Lög samtakanna fram til ársþings 2003. Gildandi lög má finna hér

   

1. grein

Nafn samtakanna

Samtökin heita LANDSSAMTÖK HJÓLREIÐAMANNA, skammstafað LHM.    Kt: 640399-2289

2. grein

Félagsleg uppbygging

LHM eru sjálfstæð landssamtök. Samtökin eiga aðild að ÍFA og eru æðsti aðili hvað varðar reiðhjólaíþróttina innan vébanda ÍSÍ.

LHM hefur rétt á að tilnefna fulltrúa á ársþing ÍFA með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt.

Aðilar að LHM geta verið félög innan eða utan ÍSÍ, hópar og einstaklingar.

Í reglugerð verði sett nánari ákvæði um fyrirkomulag varðandi mótahald, keppnisreglur og samstarf við sérsambönd og aðra sambandsaðila ÍSÍ.

3. grein

Markmið félagsins og verkefni

Að efla hjólreiðar á Íslandi.

Samtökin skulu útbreiða og efla hjólreiðar sem keppnisíþrótt, fjölskylduvænlega almenningsíþrótt, heilsusamlegan lífsmáta og einnig sem samgöngumáta.

Samtökin beita sér af því tilefni fyrir margvíslegu íþróttastarfi meðal einstaklinga, hópa og á vinnustöðum og standa fyrir hvers konar fræðslu- og kynningarstarfsemi í samstarfi við félög og áhugafólk á öllum aldri.

4. grein

Ársþing LHM

Ársþing LHM skulu haldin í febrúar ár hvert. Boðað skal til ársþingsins með auglýsingu sem birtist með mánaðar fyrirvara.

Tillögur sem einstök félög/félagar hyggjast bera upp á ársþingi sem og tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn samtakanna eigi síðar en 2 vikum fyrir ársþing.

Stjórnin sendir síðan aðildarfélögum LHM tillögurnar fyrir ársþingið.

Rétt til setu á ársþingi hafa allir fullgildir skuldlausir félagar LHM.

Ársþingin eru lögleg án tillits til fjölda þeirra sem á ársþingið mæta ef löglega er til þeirra boðað. Enginn þingfulltrúi fer með meira en 1 atkvæði á ársþingi og ekki er heimilt að fara með umboð annars við atkvæðagreiðslu eða kosningar.

 

Dagskrá ársþings skal vera sem hér segir:

1.      Kosnir þingforsetar og þingritarar.

2.      Ársskýrsla stjórnar.

3.      Lagðir fram endurskoðaðir reikningar.

4.      Fræðsluerindi – umræður.

5.      Fjallað um framkomnar tillögur.

6.      Samþykkt fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

7.      Önnur mál.

8.      Kosningar.

a)      Formaður skal kosinn árlega.

b)      4 meðstjórnendur eru kosnir til 2ja ára, 2 annað hvert ár. Stjórnin skiptir með sér verkum varaformanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. 2 varastjórnarmenn skulu kosnir, 1 annað hvert ár.

c)      Kosnir 2 endurskoðendur.

d)      Kosnar starfsnefndir.

e)      Lagabreytingar.

f)        Kosnir stjórnarmenn sitji eigi lengur en 4 ár í embætti samfellt.

g)      Allar kosningar skulu fara fram skriflega. Verði 2 jafnir ræður hlutkesti.

h)      Eigi síðar en 4 vikum fyrir ársþing skal stjórnin skipa 3ja manna kjörnefnd sem gerir tillögu til ársþings um menn í stjórn, varastjórn og sem endurskoðendur.

i)        Kjörnefnd skilar stjórninni tillögum sínum eigi síðar en viku fyrir ársþing.

j)        Hver sá sem vill gera tillögu um menn til kjörs í stjórn, varstjórn eða sem endurskoðendur skal á sama hátt hafa skilað stjórn LHM tillögu þess efnis fyrir áðurgreindan tíma með fullgildu samþykki viðkomandi. Aðeins skal kosið um þá menn sem tillaga hefur verið gerð um til stjórnarinnar skv. því sem að ofan greinir.

k)      Í öllum málefnum skal meirihluti atkvæða ráða nema hvað 2/3 hluta greiddra atkvæða þarf til að lagabreytingar nái fram að ganga.

5. grein

Aukaársþing

Stjórnin getur ákveðið að efna til aukaársþings ef hún telur til þess ástæður. Þá skal henni skylt að boða til aukaársþings sé sett fram um það skrifleg krafa 1/3 hluta félaga/félagsmanna.

Aukaársþing skal auglýst á venjulegan hátt með 14 daga fyrirvara. Engar lagabreytingar er leyfilegt að gera á aukaársþingi og ekki að kjósa í stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti stjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum ástæðum.

6. grein

Störf stjórnar

Stjórnin leiði störf félagsins.

Starfsnefndir sem ársþingið kann að kjósa skulu lúta fyrirmælum stjórnar um vinnutilhögun nema ársþingið hafi lagt fyrir annað.

Ritari annast um að færð sé fundargerðarbók yfir alla stjórnar- og félagsfundi.

Fjármunir félagsins skulu settir inn á bankareikning þess eða varðveitast á annan tryggan hátt.

Stjórnin ákveður hverju sinni hversu háa fjárhæð gjaldkera er heimilt að hafa í kassa.

Endurskoðendur skulu yfirfara reikninga félagsins eftir hvert einstakt verkefni og minnst einu sinni á hverjum ársfjórðungi skulu þeir stemma af kassa og gæta þess a.m.k. tvisvar á ári að verðbréf og aðrar eignir séu til staðar.

Reikningsár LHM er almanaksárið.

Sérhver endurskoðun og kassaeftirlit færist inn í gerðarbók með nauðsynlegum áritunum þar um.

7. grein

Lagabreytingar

Breytingar á lögum félagsins geta aðeins orðið á ársþingum enda hafi verið gerð grein fyrir framkomnum tillögum um lagabreytingar í auglýstri dagskrá og þær hlotið samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á ársþinginu.

 


Markmið Landssamtaka hjólreiðamanna