Hægribeygja á rauðu ljósi.

Nú stendur enn einu sinni til að leggja fram lagafrumvarp á Alþingi sem heimilar ökumönnum að taka hægribeygju á móti rauðu ljósi. Ef þetta verður að lögum mun það verða til að auka mjög slysahættu gangandi og hjólandi vegfarenda sem fyrir er mjög mikil.

Hugmyndin á bakvið þetta lagafrumvarp er annaðhvort byggð á misskilningi eða miklu virðingarleysi flutningsmanna gagnvart óvörðum vegfarendum (gangandi og hjólandi).

Virðingarleysi

Hver eru rökin fyrir því að heimila hægri beygju á móti rauðu ljósi en ekki t.d. beint yfir gatnamótin? Skýringin hlýtur að vera sú að flutningsmenn tillögunnar álíti að bifreið sem tekur hægribeygju fari ekki yfir neina akrein sem er með logandi grænt ljós en það geri bifreiðin hins vegar í hinum tilfellunum. Þetta er hins vegar rangt vegna þess að bifreiðin fer eftir sem áður yfir gangbraut sem er með logandi grænt ljós. Þessi gangbraut er akrein alveg til jafns við þær akreinar sem eru ætlaðar bílum. Að telja það í lagi að fara yfir gangbraut gegn rauðu ljósi en ekki yfir akrein ætlaða bílum lýsir virðingarleysi gangvart óvörðum vegfarendum og þeirra samgöngumáta.

Reynsla frá öðrum gatnamótum

Hægri beygja á móti rauðu ljósi er sambærileg við hægri beygju frá hliðargötu inn á aðalbraut. Reynsla, okkar hjólreiðamanna, af þessum gatnamótum er vægast sagt mjög slæm. Í fyrsta lagi þá heyrir það til algerra undantekninga að ökumenn horfi til hægri þegar þeir taka slíka hægri beygju. Þeir virðast nær undantekningalaust aðeins vera að líta eftir umferð bíla frá vinstri og því aka þeir flestir beint í veg umferð gangandi og hjólandi. Ekkert bendir til þess að þessu verði öðru vísi háttað á ljósastýrðum gatnamótum þar sem ökumönnum ber skylda til að víkja fyrir umferð gangandi og hjólandi. Þetta háttarlag ökumanna hefur kostað marga árekstra.

Er hægt að treysta ökumönnum?

Flutningsmenn þessarar tillögu hafa sagt að það beri að treysta ökumönnum. Það hefur hins vegar sýnt sig að það er betra að hafa skýrar reglur og hafa matsatriði ökumanna sem fæst. Fyrir rúmum áratug var gerð tilraun í Reykjavík með að láta umferðaljós blikka gulu ljósi á nóttunni til þess að ökumenn þyrftu ekki að bíða við umferðaljós þegar umferð væri nánast engin. Skemmst er fá því að segja að þessi tilraun reyndist ekki vel og var henni hætt og horfið var til fyrra skipulags. Látum þessa reynslu okkur að kenningu verða og höfum áfram þá skýru reglu að þegar rautt ljós logar á umferðaljósum gagnvart fyrirhugaðri akstursstefnu beri undantekningalaust að stöðva ökutæki og bíða eftir grænu ljósi. Þannig forðumst við best umferðaslys.

Áskorun

Að lokum vil ég fyrir hönd Landsamtaka hjólreiðamanna skora á flutningsmenn þessarar lagabreytingartillögu að sjá að sér og draga hana til baka. Þessi tillaga lýsir virðingarleysi gagnvart gangandi og hjólandi vegfarendum sem nota gangstéttir og gangbrautir til að komast leiðar sinnar. Þessir vegfarendur eiga skilið sömu virðingu og aðrir vegfarendur og rétt til eins mikils öryggis í umferðinni og kostur er á, líkt og aðrir.

Ef tillögunni verður hins vegar haldið til streitu þá vil ég skora á aðra þingmenn að sýna umferð óvarinna vegfarenda þá virðingu að fella hana. Það einfaldlega má ekki gerast að þessi tillaga verði að lögum.

Sigurður M. Grétarsson formaður Landssamtaka hjólreiðamanna

Til baka á yfirlit bréfa