Nefndarsvið Alþingis                                                           Reykjavík, 8. maí 2001

Austurstræti 8-10

150 Reykjavík

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa móttekið bréf frá samgöngunefnd Alþingis, dags. 26. apríl 2001, þar sem óskað er umsagnar landssamtakanna á tillögu til þingsályktunar um merkingar hjólreiðabrauta, 485 mál.

LHM fagna eindregið framkominni tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni eru hjólreiðar holl hreyfing, áhugaverð keppnisíþrótt, og góð útivist. Þar að auki eru þær rökréttur samgöngumáti, sem er bæði hagkvæmur og hljóðlátur og hvorki mengar né krefst mikils rýmis.

Brýn nauðsyn er á að tekið verði tillit til hjólreiðamanna við hönnun nýrra umferðarmannvirkja þannig að hjólreiðar verði raunhæfur kostur í samgöngumálum á Íslandi. Eins og fram kemur í tillögunni eru tengingar milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í miklum ólestri. Það skapast ekki síst af því að ákvæði hefur vantað í vegalög um hver skuli bera ábyrgð á hönnun hjólreiðabrauta. Almennt má segja að vöntun sé á heildstæðri markmiðssetningu fyrir óvélknúna umferð að því marki sem nágrannaþjóðir okkar hafa útbúið og bundið í stöðlum. Er það von LHM að árangur af starfi þessarar nefndar verði meðal annars endurbætur á stjórnskipulegum ramma fyrir hönnun hjólreiðabrauta.

Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta kemur fram að æskilegt væri að í nefndinni sem skipuð yrði væru fulltrúar félaga hjólreiðamanna. LHM tekur sterklega undir þetta sjónarmið og lýsir sig reiðubúið til að tilnefna fulltrúa í nefndina um leið og ósk berst þar að lútandi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. Landssamtaka hjólreiðamanna,

 

____________________________

Sigurður M. Grétarsson Formaður

Til baka á yfirlit