Til: Skipulagsstofnunar

Laugavegi 166,

150 Reykjavík

               Reykjavík, 14. júní 2001

 

Athugasemd Landssamtaka reiðhjólamanna við hönnun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð.

Landsamtök reiðhjólamanna gera þá athugasemd við hönnun Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð að þar er ekki gert ráð fyrir umferð reiðhjóla meðfram veginum. Öll sú hönnun sem gerir ráð fyrir reiðhjólum miðast við göngu- og reiðhjólabrýr eða undirgöng þvert á Reykjanesbrautina en ekki er gert ráð fyrir því að reiðhjólamenn eigi leið um Reykjanesbrautina sjálfa í gegn um Hafnarfjörð. Það virðist því aðeins gert ráð fyrir því að menn fari á reiðhjólum á milli hverfa í Hafnarfirði.

Landssamtök reiðhjólamanna telja umferð á Reykjanesbrautinni í gegnum Hafnarfjörð vera það mikla að hættulegt geti talist fyrir reiðhjólamenn að hjóla á götunni sjálfri, sérstaklega eftir að búið er að breyta ljósastýrðum gatnamótum í mislæg. Það kemur til með að valda því að umferðarhraði mun aukast mikið á þessum stað, burtséð frá því hvort löglegur hámarkshraði verður aukinn eða ekki. Því er nauðsynlegt að aðskilja reiðhjólaumferð og bílaumferð á þessum vegi með lagningu stofnbrautar fyrir reiðhjólamenn meðfram Reykjanesbrautinni. Það er engan veginn ásættanlegt að krókóttir innanhverfis göngustígar í Hafnarfirði verði látnir þjóna hlutverki stofnbrautar fyrir reiðhjólamenn sem ekkert erindi eiga inn í Hafnarfjörð, heldur eiga aðeins leið þar í gegn.

Samkvæmt umferðalögum eiga reiðhjólamenn að vera á akbrautum. Heimild til að hjóla á göngustígum er undanþáguákvæði í umferðarlögum. Það er því ljóst að ábyrgðin á reiðhjólavegum er á hendi þeirra sem bera ábyrgð á akbrautum en ekki þeirra sem bera ábyrgð á göngustígum. Því er ábyrðin á hjólastígum meðfram Reykjanesbrautinni á hendi Vegagerðarinnar. Reiðhjól eru ökutæki en ekki leiktæki.

Landsamtök reiðhjólamanna telja það því eðlilega kröfu að hönnun þeirra umferðarmannvirkja sem hér um ræðir verði breytt á þann veg að reiðhjólavegi sé bætt þar inn þannig að hægt sé með öruggu móti að komast á reiðhjóli í gegnum Hafnarfjörð án þess að þurfa að leggja lykkju á leið sína inn í íbúðarhverfi í Hafnarfirði.

Virðingarfyllst,

 

Sigurður M. Grétarsson

Formaður Landssamtaka reiðhjólamanna

  Til baka á yfirlit bréfa   /   Vefsíða LHM