Reykjavík 12 águst 2001

Ahugasemd  við matsáætlun vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi að Álftanesvegi

Í matsáætlun vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi að Álftanesvegi er kafli sem fjallar um göngustíga. Þar er talað um skiptingu í; fjarstíga, aðalstíga, útivistarstíga og reiðstíga. Þarna er hvergi minnst á hjólreiðastíga þó svo þarna sé um stofnbraut milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðunu að ræða. Það leikur því grunur á að  hjólreiðafólki sé aðeins boðið upp á göngustíg eða akbrautina sjálfa til að fara þarna um.

Fyrir hönd Landssamtala reiðhjólamanna vil ég gera athugasemd við þessa útfærslu og árétta þá áherslu Landsamtaka hjólreiðamanna í samgöngumálum að stofnbrautir hjólreiðamanna séu aðskildar frá annari umferð s.s gangandi og akandi. Þetta teljum við nauðsynlegt vegna þess að hraðaviðmið slíkra stofnbrauta þarf að vera að minnsta kosti 35 km/klst. til að reiðhjól sé raunhæft samgöngutæki á lengri leiðum. Slíkan hraða er ekki hægt að bjóða gangandi vegfarendum upp á.

Krafan um hjólastíga, sem ekki eru ætlaðir gangandi vegfarendum, er ekki krafa um sérstaka stíga fyrir reiðhjólamenn eina, því við gerum ráð fyrir því að einnig verði heimilt að nota minnstu gerðir bifhjóla á þeim stígum. Einnig skal bent á að mikil aukning hefur orðið í fjölbreytni samgöngutækja, sem eru mun umhverfisvænni en einkabílar auk þess sem þau taka mun minna pláss en þeir. Þar er hægt að nefna s.s. rafmagnsreiðhjól og vélknúin hlaupahjól. Þessi tæki teljast til bifhjóla og er því óheimilt að nota þau á göngustígum, á sama tíma og þau eru talin óæskileg á annasömun umferðagötum eins og Reykjanesbraut. Þessi umhverfisvænu samgöngutæki verða því hornrekur og þar af leiðandi óraunhæf sem samgöngutæki ef ekki eru fyrir hendi hjólastígar þar sem heimilt er að nota þessi farartæki. Krafan um að fá öruggar samgöngur fyrir vistvæn farartæki á eftir að aukast mikið á næstu árum og áratugum vegna aukinnar fjölbreytni í framboði slíkra tækja og eins vegna aukins áhuga á umhverfisvernd.

Af þessum sökum telja Landssamtök reiðhjólamanna það vera mikla skammsýni að ætla sér ekki að taka slíkt samgöngunet með í reikningin þegar götur eru tvöfaldaðar og byggðar við þær mislæg gatnamót.  Kostnaðurinn við það verður mun meiri ef það þarf  að bæta slíkum stíg við eftirá við samgöngumannvirkin.  

Fyrir hönd Landsamtaka reiðhjólamanna  

 Sigurður M. Grétarsson      Formaður

Til baka á yfirlit bréfa