Ferðafélag Íslands afhendir göngufólki eftirfarandi lista: Landmannalaugar-Þórsmörk-gönguferð Þegar ferð hefst á föstudegi (kl.20:00) er gist eins nótt Í Landmannalaugum en aðra daga (brottför kl. 08:00) er stuttur stans í Landmannalaugum og gengið samdægurs að Hrafntinnuskeri (4-5 klst), á öðrum degi er gengið að Álftavatni (4-5 klst), þriðja degi að Emstrum (6 klst.) og á fjórða degi til Þórsmerkur (um 6 klst) þar sem í öllum ferðum er gist eina nótt en þar er frjálst að dvelja lengur ef hentar. Matur: 1. Haframjöl með rúsínum og púðursykri eða musli. 2. Brauð td. flatkökur 3. smjör7smjörlíki og álegg (td. kæfa, ostur, mysingur, hangikjöt eða annað). 4. Súkkulaði, þurrkaðir ávextir, hnetur, rúsínur ofl. 5. Frostþurrkaður matur (Útilíf, Skátabúðin) eða pasta. 6. Te, kaffi, kakó, ávaxtaduft (við skálana er vatn). 7. Kex. Ekki taka með: Nýja ávexti, öl í dós eða flösku eða annað óþarflega þungt. Best er að áætla matarþörf fyrir hvern dag. Fatnaður: Gönguskór-ekki nýir. Heftiplástur á að setja á fætur áður en gangan hefst. Göngustakkur (vatnsheldur). Göngubuxur ekki gallabuxur. Peysur (frekar fleiri þunnar en eina þykka). Hlý nærföt helst úr ull eða gerviefnum (Thermo). Ullarsokka, vettlinga, hárband (húfu), boli (bómullarbolir eru óæskilegir). Legghlífar. Létta skó til þess að vaða ár og læki (gamlir strigaskór). Regnföt (ekki vindgalla). 2 aukasokka (ekki bómullarsokka). Auka buxur. Annað Rúmgóður bakpoki með góðri mittisól, hafa mestu þyngdina ofarlega næst bakinu. Svefnpoka. Hitabrúsa, hnífapör, drykkjarmál. Hælsærisplástur/heftiplástur, salernispappír. Eldspýtur í vatnsheldum umbúðum. Pakka hverjum degi fyrir sig. Geyma neðst það sem nota þarf á seinni dagleiðum. Láta þurrmatinn mæta afgangi, borða fyrst þyngri mat. Ákjósanlegt er að vigta allt sem fer í pokann (á eldhúsvigt.) Í upphafi ferðar er hæfileg þyngd bakpokans 10-15 kg. og er þá reiknað með allt sem þarf í gönguferðinni sé með. Staðreynd sem æskilegt er að hafa í huga! Svartan ruslapoka er gott að nota yfir bakpokann til að hann drekki ekki í sig vætu ef rignir. Seinni tvo dagana eru ár á leiðinni sem þarf að vaða (ekki djúpar). Annað sem gæti verið gott að muna eftir: Myndavél (í vatnsheldum umbúðum), sólgleraugu, sólaráburður, spil, vasaljós (lítið), sjónauki, magnyltöflur, varasalvi, teygjubindi, tannbursti og lítið handklæði. Skálar: Í gönguskálunum eru dýnur. Í Þórsmörk er sturta, sjoppa (gos, sælgæti, niðursuðumatur ofl.) ATH: Farþegar í Laugavegsferðum geta sent pakka til Þórsmerkur með rútu Ferðafélagsins (sunnudag, miðvikudag eða föstudag) frá Umferðamiðstöðinni, austanmegin. Áríðandi er að merkja sendinguna: Gönguhópur FÍ + nafn á sendanda. Muna eftir: Mat, fötum, svefnpoka, aukafötum, áhöldum. Er þetta allt komið í bakpokann? Góða ferð! |
|