Laugavegurinn Í Bókinni “Gönguleiðir að fjallabaki³ eftir Guðjón Ó. Magnússon segir meðal annars: “Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur, eða “Laugavegurinn³ einsog leiðin er oft kölluð, er nú ein vinsælasta gönguleið á landinu...Á leiðinni eru fimm sæluhús Ferðafélags Íslands og skipta þau göngunni í fjórar þægilegar dagleiðir. Venjulega er gengið úr Landmannalaugum og suður í Þórsmörk...³ Fyrsta dagleiðin er frá Landmannalaugum í Hrafntinnusker en hún er styst í kílómetrum en oft erfið, áætlaður göngutími 4-6 klst. Bæði má eiga von á snjó á leiðinni því snjóa leysir ekki fyrr en langt er liðið á sumar auk þess sem byrðar göngugarpa eru þyngstar fyrsta spölinn. Næsta dagleið frá Hrafntinnuskeri í Álftavatn er mun léttari, 4-5 klst. Dagleið nr. 3 frá Álftavatni í Emstrur er nokkuð löng og þarf að vaða nokkrar ár á leiðinni. Þar er gengið að mestu eftir Syðri fjallabaksleiðinni og Emstruleiðinni. Göngutími er áætlaður 5-6 klst. Fjórða og síðasta dagleiðin er svo frá Emstrum ofaní Þórsmörk. Hún er lengst dagleiðanna áætluð um 5-6klst. Þar er gengið ofan af auðnum hálendisins ofaní hina gróðursælu Þórsmörk. |
1. Dagur Landmannalaugar-Hrafntinnusker. Í Íslandshandbókinni segir meðal annars um Landmannalaugar: Jarðhitasvæði í dalkvos milli brattra fjalla á Landmannaafrétti. Laugarnar eru undir hárri brún Laugahrauns. Eru þar margar uppsprettur heitar og kaldar sem safnast í lygnan læk. Er hægt að synda og baða sig í honum. Fjöllin umhverfis Landmannalaugar eru úr líparíti og svo litskrúðug að nær einsdæmi mun vera hér á landi. Má þar nefna Barm og önnur fjöll með Jökulgili, Brennisteinsöldu og Bláhnúk. Ár falla báðum megin við Landmannalaugar. Jökulgilskvísl kemur innan úr Jökulgili en Námskvísl fellur norður með Laugahrauni og í Jökulgilskvísl. Laugahraun er úr líparíti. Upptök þess eru utan í Brennisteinsöldu. Það er mjög þykkt og sprungið og úfið á yfirborði. Ysta lag þess er kolsvört hrafntinna en undir hrafntinnuskáninni er gráleitt líparít. Talið er líklegt að Laugahraun hafi runnið um 1480 og sé það á suðurenda gossprungunnar sem myndaði Veiðivötn. Um Hrafntinnusker segir í sömu bók: Fjall (1128) við Austur-Reykjadali austan við Heklu. Umhverfis fjallið einkum að vestan er mikið hverasvæði. Þar eru gufuhverir, marglitir leirhverir og vatnshverir sem sumir eru sígjósandi og sumstaðar undir jökli. Myndast þar íshellar stórir og smáir. Litafegurð á þessu svæði er fjölbreytileg. Um gönguleiðina er fjallað í kverinu Gönguleiðir að fjallabaki og þar segir meðal annars: Fyrst er gengið yfir Laugahraun upp að hvernum við Brennisteinsöldu. Þaðan er gengið upp fyrir Brennisteinsöldu, meðfram efstu upptökum Laugahrauns sem hefur spýst út úr hlíð öldunnar einsog tannkrem(!). Þá er gengið upp með efstu drögum kvíslarinnar í Grænagili. Landið umhverfis er mjög sundurskorið enda árnar fljótar að éta sig niður í mjúkt bergið. Þegar komið er að Stórahver er rétt að stansa og fá sér smáhressingu. Stórihver er krasftmikill gufu- og goshver en rétt austan við hann er stór og djúpur hylur sem vert er að skoða. Ef haldið er til vesturs niður með efstu drögum Markarfljóts eru margir bullandi vatnspyttir. Víða eru grænar mosaþembur og síðari hluta sumars er sauðfé þar á beit. Andstæður í landslagi eru miklar: Þykkar fannir, gulllituð líparítfjöll skreytt svartgljáandi hrafntinnu, háhitahverirnir umluktir ummynduðu bergi og viðkvæmum mosagróðri. Leiðin liggur svo upp á melhrygg norðan við Söðul (1132) rétt norðaustan við Hrafntinnusker. Nú er stefnt í skarðið á milli skersins og hnúksins en þá er farið til suðurs niður af hryggnum. Úr skarðinu er stutt niður til skálans. Bókin mælir svo með styttri kvöld eða morgungöngum við Hrafntinnusker til dæmis fyrir ofan skálann eru skemmtilegir gufu- og vatnshverir inn á milli snjóanna. Auk þess ganga á Söðul en þar upp er fjallasýn til 11 jökla. Áætlaður göngutími er 1 klst. Enginn ætti að gista Hrafntinnusker öðruvísi en að skoða íshellana. Þeir eru beint í vestur frá skálanum og best er að ganga beint yfir Skerið en það er fyrirferðamikil bunga um 1128 m há og útsýnið svipað og af Söðli. Áætlaður göngutími í íshellana er 2-3 klst. |
2. Dagur Hrafntinnusker-Álftavatn Íslandshandbókin segir um Álftavatn: Stöðuvatn á Laufaleitum milli Brattháls að austan og Torfatinds að vestan. Álftavatn er 1,2 ferkílómetrar og dýpst 22 metrar. Við suðurenda vatnsins er lítið vatn sem heitir Torfavatn. Um gönguleiðina segir kverið góða að leiðin liggi meðfram hlíðum Reykjafjalla. Hún er nokkuð slétt fyrst en þegar nær dregur brúnunum eru nokkur smágil. Þegar komið er að Kaldaklofsfjöllum er sjálfsagt að ganga á Háskerðing (1281) hæsta tind Torfajökulseldstöðvarinnar, ef skyggni er gott. Þaðan er geysivíðsýnt yfir syðri hluta Fjallabaks og einnig fæst gott yfirlit yfir næstu dagleið að Emstruskálanum. Uppi í jökulröndinni eru nokkrir íshellar. Þar geta verið sprungur og rétt er að fara um jökulinn með gát. Þessi krókur ætti að bæta klukkutíma við gönguna. Síðan er haldið niður á stikuðu leiðina og niður á brún. Þar er gott útsýni yfir Álftavatn og nærliggjandi svæði. Svo er farið upp brekkuna sem er nokkuð bröttog þá er skilið við eldstöðina Torfajökul. Umhverfið breytist snögglega, fjöllin eru nú aðallega úr móbergi og hér er meiri gróður. Leiðin niður að Álftavatni er tiltölulega slétt og fljótlega er komið niður á Syðri fjallabaksveg sem liggur úr byggð frá Keldum á Rangárvöllum. Nú er gengið til suðurs eftir veginum og eftir stutta stund koma skálarnir við Álftavatn í ljós. Kverið mælir með kvöld- og /eða morgungöngu í Álftaskarð meðfram vatninu. Í vatninu lifir einkennilegt krabbadýr sem heitir skötuormur en fiskur í því er frekar rýr í roðinu. Í Álftaskarði er byrgi í móklöppunum um 30-40m frá götunni. Þar höfðu fjallmenn í seinni leitum gististað í skúta sem hlaðið var fyrir og hurð höfð í dyrum. Einnig má ganga á Brattháls um eins klukkutíma ganga. Hálsinn er snarbrattur og úfinn efst. Fallegt útsýni er yfir nágrennið. Fyrst er farið yfir kvíslina sem kemur úr Álftavatni og stefnt upp á háhrygg hálsins. Síðan er hálsinum fylgt til suðurs. Fjallið er úr tveimur goseiningum. Sú eldri og eystri er súr eða ísúr móbergshryggur en vestar á hálsinum er svo basaltmóberg. Setlög frá Emstrulóni sjást vel ofan af tindinum. Um 5 km ganga er niður að sérkennilegu og þröngu gljúfri í Markarfljóti. Gangan er auðveld og tekur 3 klst. Gengið er meðfram suðausturhlíðum Torfatinds og stefnt á Stóra Grænafjall. Þegar komið er suður fyrir Torfatind verður fyrir allhá alda, jökulruðningur. Héðan er örstutt niður að Torfahlaupi. Þar sem gljúfrið er þrengst er það aðeins nokkrir metrar enda ganga sögur um að yfir það hafi verið stokkið. Sagan segir af pilti sem hét Torfi og stúlku af Rangárvöllum sem urðu ástfangin í óþökk foreldra sinna og ákváðu að flýja ti fjalla. Faðir stúlkunnar veitti þeim eftirför en þegar þau komu að gljúfrinu þá stökk Torfi yfir með stúlkuna í fanginu. Pabbinn stökk á eftir en náði ekki alla leið og hékk á hríslu hinum megin. Torfi spurði stúlkuna hvað þau ættu að gera og hennar ráð var það að höggva hrísluna. Önnur saga greinir frá því aðð Torfi hafi ekki hoggið og sæst við kallinn. |
3. Dagur Álftavatn-Emstrur Um Emstrur segir Íslandshandbókin: Gróðurlítið afréttarland Hvolhreppinga, norðvestan Mýrdalsjökuls. Nokkur einstök fell brött og sérkennileg rísa upp af sandinum, þar á meðal Stóra-Súla (908), Hattfell (909), Stórkonufell og Stóra- og Litla-Mófell sem eru lægri. Tvær jökulár falla um Emstrur, Syðri (fremri) og Nyrðri (innri) Emstruá og voru þær fyrrum nokkur farartálmi en þær hafa verið brúaðar með göngubrúm. Kverið góða segir um gönguleiðina: Gengið er til austurs eftir veginum norðan við Brattháls. Í skarðinu er farið yfir smálæk sem er nafnlaus einsog dalurinn og þaðan austur að vegahlíð en svo nefnist norðvefsturhlíð næsta móbergshryggjar. Við Vegahlíð er farið yfir Bratthálskvísl sem venjulega er enginn farartálmi. Leiðin liggur nú til suðurs um Vegahlíðina en móbergið þar er nokkuð rofið, ryðgað sumt og talið vera allfornt. Eftir stutta göngu er komið að Hvanngili en þar er gangnamannakofi. Þar er ágætt að stansa og njóta náttúrunnar áður en haldið er áfram. Frá kofanum er stefnt í suður yfir Hvanngilshraun en það er líklega komið úr eldstöð sem er undir Mýrdalsjökli. Fljótlega er komið að Kaldaklofskvísl en hún var brúuð 1985. Innan við kílómetra þarf að vaða Bláfjallakvísl. Hún er grunn og grýtt en að jafnaði enginn farartálmi. Veginum er fylgt áfram og eftir um það bil 4 km göngu er komið að Innri-Emstruá. Áður en komið er niður að ánni sést áberandi hlaupfarvegur. Talið er að þar sé 2500 ára gamalt jökulhlaup. Það hefur farið úr Entujökli og hlaupið milli Stórkonufells og Smáfjalla, klofnað í tvennt og myndað Hattfellsgil og Fauskheiðargil og brotist fram í Markarfljótsgljúfur. Frá ánni er haldið til suðurs yfir Hattfellshraun og er ættað undan Mýrdalsjökli. Gljúfrið fyrir neðan Emstruárbrúna er hrikalegt en tæpum kílómetra neðar verður það enn dýpra og stórkostlegra. Í stað þess að ganga eftir veginum er hægt að ganga niður með gljúfrinu að Útigönguhöfðum norðaustan við Hattfell. Þá er aftur komið á veginn. Þegar komið er að Útigönguhöfðum beygir gönguleiðin af veginum en göngustikurnar taka aftur við. Gengið er austan undir hlíðum móbergsfjallsins Hattfells. Sunnan við Hattfell er Tuddahraun og er það líklega elsta hraun svæðisins eftir ísöld. Upptök hraunsins er gígaröðin upp af Botnunum sem eru hólarnir upp af skálanum. Síðan er gengið niður í skálann við Emstrur en hann sést ekki fyrr en komið er að honum. Kverið stingur uppá viðbótargöngutúr í Markarfljótsgljúfur. Þá er gengið í 1 km til vesturs en þar er gljúfrið langdýpst og hrikalegast eða um 160-180 metrar. Enginn verður vonsvikinn af þessari göngu en hún tekur um 1-2 tíma. |
4. Dagur Emstrur-Þórsmörk. Enn segir Íslandshandbókin: Hálendistunga úr móbergi vestur frá Mýrdalsjökli sundurskorin af smádölum giljum og hvömmum. Krossá markar Þórsmörk bás að sunnan en Þröngá og Markarfljót að norðan. Birkiskógur er mikill í dölum og á hæðum og breiðist ört út. Uppblástur hefur verið allmikill einkum að vestanverðu. Á Þórsmerkursvæðinu hafa fundist um 170 tegundir háplantna auk fjölmargra tegunda af mosum, fléttum og skófum. Fjallasýn af Þórsmörk er mikil og fögur til Mýrdalsjökuls, Eyjafjallajökuls og Fljótshlíðar. Vandfundin er öllu fjölbreytilegri fegurð á Íslandi og minnir á ýmsu á Alpadali. Gönguleiðin frá Emstrum niður til Þórsmerkur er síðasti áfangi Laugavegsins. Kverið áætlar göngutímann um 5-6 klst. og segir auk þess um leiðina: Stikunum er fylgt að Fremri (Neðri, Syðri) Emstruá. Brattur krákustígur er niður að göngubrúnni og ber mönnum að ganga varlega niður skriðurnar. Fremri Emstruáin kemur undan Entujökli. Jökullinn hefur hopað mjög síðustu árin og með sama áframhaldi er hugsanlegt að þjökulþak taki af útilegumannadalnum sem sagnir hrma að hafi verið upp á milli Entukolla. Þá er sagt að einu sinni hafi komið allaufguð trjáhrísla með ánni undan ísbrúninni. Þegar komið er yfir göngubrúna taka Almenningar við, afréttur Vestur Eyfellinga. Greinilegt er að þarna hefur einhverntíma verið meiri gróður, jafnvel skógur. Frá Emstrufitjum er farið meðfram Langhálsi. Leiðin liggur ofan í Slyppugil og Bjórgil. Þar er yfirleitt skjólsælt , gott drykkjarvatn og fagurt útsýni til Tindfjalla. Áfram er haldið um Almenninga og er Illhöfuð á vinstri hönd. Þaðan er haldið vestan í Eldgíg sem Fauski heitir að Ljósá. Upp af Ljósárbotnum er annar eldgígur er Laki nefnist. Þar eru Lakaflatir vestur með ánni. Síðan er farið í Úthólma og þaðan í Ljósártanga en þar er gróðurlendi afmarkað á þrjá vegu með gljúfrum sem víða eru vaxin birki og blómum. Næst er gengið suður eftir Gráfelli og niður að Þröngá. Venjulega er Þröngá vatnslítil en í hlýindum eða bleytutíð er hún fljót að vaxa. Yfirleitt má vaða hana skammt frá rústum Steinfinnsstaða en sýna þarf aðgát í ánni því hún er að jafnaði dýpsta áin sem þarf að vaða á leiðinni, stundum í mið læri en oftast hnédjúp. Botninn er nokkuð grýttur og stundum sést hann ekki sökum jökulgorms. Að jafnaði er minnst í henni snemma dags. Þá er komið í Hamraskóga. Síðasti spölurinn er skemmtilegur enda hlýleg tilbreyting að ganga í skóglendi frá gróðursnauðu hálendinu sem nú er að baki. Leiðin liggur um vel troðnar slóðir um Húsadal og þaðan í Langadal í Þórsmörk. Auk þess segir kverið um Þórsmörk og umhverfið þar: Þórsmörk hefur allt annað yfirbragð en Landmannalaugar þar sem ferðin hófst. Náttúrufar svæðisins er allt öðruvísi.Mörkin er umkringd 3 jöklum: Tindfjallajökli, Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli. Mikil veðursæld er í Þórsmörk og oft er þar gott veður þótt leiðindaveður sé allt um kring enda draga jöklarnir í sig úrkomu þegar rakir vindar blása af hafi. Að lokum getur kverið þess að það megi halda göngunni áfram og ganga Fimmvörðuháls til Skóga undir Eyjafjöllum en það er nú allt önnur ganga. |
|