TVEIR SJÓNARHÓLAR ER MÆTASTÞegar við tölum um samstillingaráhrif Jarðar og goðsöguna um Móður Jörð erum við í sömu andránni að notast við tvo sjónarhóla. Samstillingaráhrifin eru greinileg þeim sem stendur fyrir utan, því sá sjónarhóll er nauðsynlegur þeim sem ætlar sér að sjá alla heildina og sjá fyrir sér samvirkni allra þátta. Samband hans við Jörðina er hlutlaust (objective). Goðsagan um Móður jörð er hins vegar sprottin innan frá af persónulegri og hlutdrægri reynslu af virkni Jarðar. Þegar mannfræðingur rannsakar fjarlæg samfélög á hann um að velja þessa tvo sjónarhóla, utan frá eða að innan. Ef hann skýrir út félagshegðun í samfélaginu út frá skilningi þátttakenda notast hann við innri skýringu. Ef hann hunsar skýringar þátttakenda verður hann að grípa til eigin heimsmyndar (ytri skýringar). Þetta gerði Marvin Harris mjög meðvitað er hann skýrði út viðhorf Indverja til kýrinnar (Plattner, 1989, bls. 390-391). Hann taldi meginorsök þess að hún væri heilög skepna liggja í vistfræðilegum staðreyndum, en ekki í trúarlegum hugmyndum Indverja sjálfra. Eins má fara með hugmyndir manna um Móður Jörð. Það má reyna að sjá heiminn með augum þeirra samfélaga er halda í móðurgyðjuhugmyndina og skynja umhverfið sem krafta þrungna persónulegum vilja. Hins vegar er hægt að nota sér sjónarhól okkar að utan og skýra heimsmynd þeirra út frá vistfræðilegum forsendum þar sem lífið sveiflast milli gnægða og háska eftir því hversu langt er haldið út fyrir afmarkaða vist mannsins. Hrokafull afstaða okkar birtist í tröllatrú okkar á réttmæti eigin kenninga. Við teljum okkar skýringarmódel hafa að geyma hina raunverulegu skýringu, á meðan "innri" skýring samfélaganna sem við glímum við er takmörkuð og jafnvel röng. Þegar við metum þeirra viðleitni til að gera heiminum skil erum við með öðrum orðum að meta þeirra heimsmynd út frá okkar heimsmynd, og því líkari sem hún er okkar heimsmynd því "réttari" teljum við hana vera. Ef við reynum að losa okkur við allan þjóðhverfan
hugsunarhátt þá verðum við að viðurkenna
að við vitum aldrei fyrir víst hvort heimsmynd okkar er
rétt. Sama hversu heildsteyptur skilningur okkar virðist vera
þá virðist alltaf vera hægt að kollvarpa og
endurmeta ríkjandi gildi aftur og aftur. Enn einu sinni mætti
því beita póstmódernískri nálgun
á þetta og líta svo á að við sjáum
umhverfið eins og við erum, en ekki hlutlægt, og þess
vegna sé engin heimsmynd alröng eða alrétt. Það
mætti því allt eins snúa hlutverkum rannsakenda
og viðfangs við. Í stað þess að meta gildi
heimsmyndarinnar um Móður Jörð eftir því
hvernig hún stenst samanburð við okkar "réttu" útgáfu,
er hægt að líta á hana sjálfa sem viðmiðun
fyrir okkar heimsmynd. Með því að rannsaka og tala
um Móður Jörð erum við því að
reyna að nálgast heimsmynd þeirra með okkar eigin
tungutaki. Hugarheimur vísindanna hins vegar er það "módernískur"
að hann staðnæmist við yfirborð orðanna og er
því ófær til skilnings á svo persónulegri
og heildrænni heimsmynd sem "Móðir Jörð" er.
Myndhverfingin sem fólgin er í móðurhugtakinu
(og lítur þannig fram hjá lífverumerkingunni)
er okkur hulin augum, sem og hin ólíka merking að baki
Jarðarhugtaksins. Við ályktum því af grunnfærni
og tornæmi að hér sé um sama hugmyndaheim að
ræða og í Gaiahugmyndinni, blind á það
að merkingin að baki hugmyndunum er gjörólík.
Goðumlík heimsmynd er jafn ófær um að gera
okkar heimsmynd skil eins og við erum vanfær með tungutaki
vísindanna um að átta okkur á merkingu Móður
Jarðar. Hin heildræna sýn og hin sundurgreinda eru tvær
andstæðar en um leið innbyrðis styrkjandi leiðir
til skilnings á sama fyrirbærinu.
|