Satúrnus
þúsund hringja plánetan
Fyrir tíma stjörnukíkisins (1609) var Satúrnus ysta plánetan sem menn þekktu.  En hún er geysistór gashnöttur og sést því býsna vel frá Jörðinni þrátt fyrir fjarlægðina.  Þegar hún er sem björtust sést hún betur en nokkur önnur stjarna á himninum (að Sírius undanskilinni).  Árið á Satúrnusi er geysilangt, tæp 30 ár (samanborið við Jörðina), og það sýnir hvað Satúrnus er miklu lengra í burtu en til dæmis Júpíter sem fer í kringum sólina á tæpum tólf árum.

Satúrnus er litli risinn í sólkerfinu.  Hún er töluvert stærri og þyngri en aðrar plánetur, nær þó ekki að skáka Júpíter að þessu leyti.  Massi Satúrnusar er satt að segja ótrúlega lítill miðað við stærð.  Hún nær því að vera 60% af stærð Júpíters, en massinn er aðeins 30% af massa Júpíters.  Satúrnus er nefnilega með lægsta eðlismassa allra plánetna sólkerfisins (0,7 miðað við eðlismassa vatns).  Ef hægt væri að pakka Satúrnusi inn og skilja hann eftir á nógu stóru stöðuvatni, þá myndi hann fljóta.

Satúrnus er ekki alveg kringlótt.  Reyndar er það alþekkt fyrirbæri að plánetur eru breiðari um sig við miðbaug en annars staðar vegna snúningsins (þannig er Jörðin líka).  En í þessu tilviki er það meira áberandi, því Satúrnus snýst nokkuð hratt um sjálfa sig (sólarhringurinn er tæpir 11 jarðarsólarhringar) og maður getur rétt ímyndað sér hraðann á miðbaugnum sem þarf að fara þennan stóra hring á skömmum tíma. Plánetan er líka svo loftkennd (fyrst og fremst gerð úr vetni) og eftirgefanleg.  En svona er Júpíter líka, loftkennd, geysistór (stærri en Satúrnus) og snýst hratt (hraðar en Satúrnus). En það sem gerir gæfumuninn er þyngdaraflið, sem er miklu sterkara á Júpíter (vegna þess hve hún er þung en Satúrnus létt) og hún heldur því betur í allt þetta loftkennda efni sem ferðast með miðbaugnum.  Satúrnus er hins vegar tiltölulega létt, og bungast því óvenju mikið út um "mittið" og sléttist á skautunum.


Hringirnir
Hringirnir eru hins vegar helsta einkenni Satúrnusar.  Úr stjörnukíki Galileos (1609) sáu menn illa hvað þetta var. Það sást bara torkennilegur bjarmi til hliðanna.  Galíleo hélt að um tvö nálæg fylgitungl gæti verið að ræða.  En svo minnkaði bjarminn og hvarf með öllu næstu árin honum til mikillar skapraunar.  Hvernig stóð eiginlega á því?  Það tók vísindamenn næstu hálfa öldina að komast að hinu sanna.  Það vill nefnilega svo til að Satúrnusi hallar í átt til sólar eins og Jörðinni og Mars (sjá myndina hér að ofan).  Við sjáum plánetuna frá mismunandi hlið eftir því hvaða sjónarhól við höfum.  Stundum sést í Norðurskautið (og ofan á hringina).  Tæplega fimmtán árum síðar sjáum við undir plánetuna (og undir hringina).  En þarna mitt á milli sjáum við plánetuna frá hlið, og þá hverfa hringirnir með öllu í frumstæðum sjónaukum vegna þess hvað þeir eru þunnir.  Uppgötvun hringjanna tók svona langan tíma því það er ekki hægt að fylgjast með þessu ferli hraðar en á þrjátíu árum, og til að sannreyna uppgötvunina þarf að bíða önnur þrjátíu ár.  Stjarnfræðirannsóknir eru mikið þolinmæðisverk.
 

Hringir Satúrnusar eru sannarlega með því glæsilegasta sem fyrirfinnst í sólkerfinu.  Þeir eru fjölmargir, marglitir og samsíða.  Þeir teygja sig langt út fyrir yfirborð Satúrnusar með svo mikið ummál að Júpíter kæmist næstum því tvisvar sinnum fyrir inni í hringjunum, og Jörðin rúmlega tuttugu sinnum.   Hins vegar eru hringirnir svo næfurþunnir að ef þeim væri pakkað saman í eina myndarlega kúlu þá myndi hún líklega ekki vera mikið stærri en Tunglið okkar.   Frá Jörðinni séð eru hringirnir samfelldir og reglulegir, en í nærmynd eru þeir gerðir úr örsmáum ísklumpum,varla meira en íbúðarhús að stærð og margir miklu minni en það.


Fylgitunglin
Satúrnus er mikil um sig, og það kemur engum á óvart að finna fjöldann allan af fylgitunglum á braut um plánetuna.  Þau eru í kringum tuttugu talsins, misjöfn að gerð og stærð.  Sum þeirra eru mjög nálægt Satúrnusi (og snúast með honum hringinn, á sama hraða, vegna þess að áhrifin af Satúrnusi eru svo sterk) og önnur geysilangt í burtu (og snúast jafnvel í öfuga átt miðað við Satúrnus).  Flest eru tunglin örsmá, en eitt þeirra er áberandi stærst, á stærð við tunglið okkar.  Það heitir Títan.  Menn uppgötvuðu Títan fyrst allra fylgitungla Satúrnusar (1656).  Þá þekktust ekki nema sex fylgitungl í sólkerfinu:  Tunglið okkar, fjögur stærstu fylgitungl Júpíters (Europa, Ganymede, Io og Callisto) og Títan.  Þau eru öll svipuð að stærð.  Síðan hafa verið uppgötvuð ótalmörg fylgitungl sem eru einfaldlega svo smá að þau sáust ekki á þessum tíma.

Títan er mjög merkilegt tungl.  Það er eina þekkta tunglið í sólkerfinu sem hefur lofthjúp!  Þegar Voyager fór fram hjá Satúrnusi (1979 og 1981) kom í ljós að lofthjúpur Títans var hreint ótrúlega þéttur.  Hann var þéttari en á Jörðinni!!  Skýjaþykknið er svo mikið að ekki sést í yfirborðið, og í dag eru hreinar getgátur uppi um það hvað leynist þar niðri, rétt eins og með Venus á sínum tíma (sjá Venus).

Önnur fylgitungl Satúrnusar komu geimkönnuðum lítið á óvart.  Þau eru nakin og alsett gígum.  Þó voru menn sérstaklega spenntir fyrir að fá myndir af einu af litlu tunglunum sem heitir Iapetus.  Það hafði lengi vakið mikla athygli fyrir að vera misjafnlega bjart eftir því hvoru megin við Satúrnus það sást.  Það var fimm sinnum bjartara vestan megin við Satúrnus en austan megin.  Með myndum Voyagers kom í ljós að Iapetus snýr alltaf sömu hliðinni að Satúrnusi (alveg eins og tunglið okkar) og það snýr því sitt hvorri hliðinni að okkur eftir því hvar það er statt á leiðinni kringum Satúrnus.  Þetta hafði menn grunað, og kenningin um að Iapetus væri gerður úr ljósara efni öðru megin fékkst staðfest.  Hvernig stendur hins vegar á því  að önnur hliðin er þakin "ís" en hin "dökkum sandi"?  Það er enn ráðgáta.  Eins og svo margt annað sem svífur kringum Satúrnus.
 


1. Hvert er einkennistákn Satúrnusar?
2. Hvað er sérstakt við fylgitunglið Títan (tvö atriði)?
3. Hvað er leyndardómsfullt við tunglið Iapetus?
4. Úr hverju eru hringir Satúrnusar gerðir?
5. Hvað er árið langt á Satúrnusi?
6. Hvers vegna hverfa hringir Satúrnusar tímabundið  í venjulegum stjörnukíkjum?
7. Hvað er sérkennilegt við þyngd Satúrnusar?
8. Hvað er óvenjulegt við lögun Satúrnusar?


 Til baka á aðalsíðu