Neptúnus er systkinapláneta Úranusar í daglegu tali. Þær eru mjög líkar. Svo til sami litur og álíka stórar (Neptúnus er ögn smærri en Úranus). Báðar eru þær gashnettir á fjarlægri braut um sólu. Neptúnus er hins vegar mun lengra í burtu og það tekur hana tæplega 165 ár að ferðast kringum sólina. Hvernig stóð á því að svo fjarlægur hnöttur, enn minni en Úranus (sjá Úranus) og enn fjarlægari, fannst?
Það gerðist fyrir tíma geimaldar með hjálp hreinna stærðfræðiútreikninga. Menn byrjuðu á því að undrast yfir sporbraut Úranusar. Hún var svo óregluleg. Það virtist vera eitthvað enn lengra í burt sem truflaði sporbrautina, eitthvað sem togaði í Úranus og truflaði hana þannig. Mönnum datt þá í hug að það gæti verið enn ein plánetan sem togaði með togkrafti þyngdarafls síns. Það þurfti beinlínis að reikna út hvar slíkur hnöttur skyldi vera, og með því að vita nákvæmlega hvert átti að horfa, með hjálp nákvæmustu mælitækjum þess tíma, mátti grilla í afar daufan punkt sem ekki fannst á stjörnukortum. Þetta gerðist 1846. Langt fram á tuttugustu öldina var Neptúnus ysta þekkta reikistjarnan.
Stuttu eftir uppgötvun Neptúnusar, sama ár, kom í
ljós óvenjustór fylgihnöttur, ögn stærri
en tunglið okkar. Hann var kallaður Tríton,
og bættist í safn stórra fylgihnatta í sólkerfinu.
Þeir voru nú orðnir sjö talsins (sjá Satúrnus).
Tríton er nálægt Neptúnusi, en hegðar sér
afar undarlega, því hann snýst öfugan
hring. Til eru fjölmörg fylgitungl í sólkerfinu
sem gera þetta, en þau eiga það sameiginlegt að
vera óralangt í burt frá plánetunni (og þess
vegna tiltölulega frjáls undan áhrifum hennar).
En Tríton er dularfullur fylgihnöttur, því hann
er mjög nálægt Neptúnusi. Hann fer reyndar
fyrir vikið mjög hratt kringum hann (á aðeins tæpum
sex dögum!!), en hvers vegna skyldi hann fara öfugan hring? Aðrir
fylgihnettir hafa komið í ljós síðar, en allir
eru þeir mun smærri minna spennandi en Tríton.
Neptúnus er einstaklega vindasöm
pláneta. Fárviðri geysa um hana alla
með tvö þúsund kílómetra
hraða á klukkustund. Þetta þótti skrítið
vegna þess að plánetan er mjög fjarri sólinni
og því erfitt að gera sér í hugarlund hvað
það er sem knýr þessa vinda áfram.
Frekar var búist við að plánetan væri kyrrlát
og orkulaus í öllum þessum kulda (yfir 200 stiga frost).
En í staðinn blasir við mesta fárviðrabelti í
sólkerfinu. Þetta þykir sterklega benda til þess
að plánetan fái orku frá einhverju öðru
en sólinni. Í ljós kemur að Neptúnus
er álíka heit á yfirborðinu og Úranus,
þrátt fyrir að vera mun lengra í burtu frá
sólinni. Það þýðir einfaldlega
að plánetan er (eins og Júpíter og Satúrnus)
minniháttar "sól" því hún hefur eigið
hitaútstreymi. Hitamismunurinn á yfirborði
Neptúnusar (þar er ískalt) og inni í kjarna
hennar (líkleg mjög heitt) skapar ógurlegt hitaójafnvægi,
og það knýr þessa ógurlega sterku vinda sem
geysa um alla plánetuna.