Mars
rauða plánetan
Af innri plánetunum fjórum eru Venus, Mars og Jörðin svipaðar að stærð.  Þær eru á áþekkum stað í  sólkerfinu.  Venus myndi vera heitari en Jörðin, og Mars kaldari, en munurinn væri ef til vill ekk svo mikill.  Það var því ekki fráleitt að leita eftir lífi á Venusi og Mars.  Venus reyndist hins vegar fjarri þeirri paradís sem menn gerðu sér í hugarlund (sjá Venus), en hvað með hina systkinaplánetu Jarðar?  Mars.


Að mörgu leyti er Mars mun líkari Jörðinni en Venus.  Hún er reyndar tæplega helmingi minni en þær (Jörðin og Venus eru mjög svipaðar að stærð), en þegar betur er að gáð kemur í ljós að Jarðarbúum myndi þykja heimilislegra og eðlilegra að búa á Mars en á Venus.
 
Mars fer töluvert lengri leið kringum sól en Venus og Jörðin (687 dagar), en það vill svo ótrúlega til að plánetan snýst í kringum sjálfa sig á rétt rúmum 24 tímum!!  Skipti dags og nætur myndu vera jafn regluleg og á Jörðinni.  En ekki nóg með það, heldur hallar snúningsmöndli Mars lítillega (25 gráður) þannig að hvelin tvö (suður og norður) skiptast á að vísa í átt til sólarinnar eftir því hvar Mars er staðsett á braut sinni um sólina.  Það eru með öðrum orðum árstíðir á Mars!!  Hitastig plánetunnar er því ögn breytilegt eftir sumri og vetri, en alltaf er þó fremur kalt jafnvel að sumri til.  Hámarks hiti er um það bil 30 gráður og mesta frost er um 130 gráður.  Menn þyrftu því að klæða kuldann rækilega af sér á Mars!
Lofthjúpur Mars er einnig líkari lofthjúp Jarðar en hinum geysiþykka lofthjúpi Venusar.  Það sést  vel til himins af Mars, a.m.k. þegar ekki geysa ógurlegir eyðimerkurstormar.  Einnig er til vatn á Mars.  Sést hafa uppþornaðir árfarvegir sem einhvern tímann hafa runnið þegar plánetan var heitari.  En í dag er allt vatn bundið í klaka.  Á pólarsvæðunum eru stór og mikil íssvæði, sem reyndar er fyrst og fremst frosinn koltvísýringur.

 
 

Það er því ekki út í hött að semja skáldsögur um innrás frá Mars eins og gert hefur verið svo ótal oft.  Plánetan er nálægt Jörðinni, hún líkist henni á ótrúlega margan hátt, og rauði liturinn (litur blóðsins eins og menn vita) þykir minna á stríð (enda er nafn plánetunnar komið úr grísku goðsögunum um Mars stríðsguð).  Rauði liturinn er hins vegar allt annað en fjandsamlegur.  Ástæðan er sú að plánetan er "ryðguð".  Mars er mjög járnrík og rauði liturinn kemur frá járni sem ryðgar um alla plánetuna í annars eyðimerkurkenndum jarðveginum. Þetta kom skýrt í ljós þegar rannsóknarfarið Mariner lenti á Mars á áttunda áratugnum og sendi okkur ótal upplýsingar um yfirborð plánetunnar, auk ljósmynda, þar sem sjá má kunnuglegt eyðimerkurlandslag.

 
 
En hugmyndin um Marsbúa og vitsmunalíf á Mars er lífseig.  Það byrjaði fyrir alvöru rétt fyrir aldamótin að stjörnufræðingur að nafni Lowell skoðaði Mars í bak og fyrir og teiknaði yfirborð hennar, gaf síðan út bók sem sýndi fram á að allt yfirborð plánetunnar væri sundurskorið með beinum línum (sjá efstu myndina).  Það ályktaði hann að væru áveituskurðir.  Fyrir vikið (þrátt fyrir gagnrýni kollega hans) þá tókst hugmyndin um líf á Mars á flug, sem lýsti sér í skáldsögu H.G.Wells (1897) og hinu sögufræga útvarpsleikriti Orson Welles (1938) sem hræddi líftóruna úr Bandaríkjamönnum. Enn í dag eru menn að renna stoðir undir þessa hugmynd með sérkennilegum ljósmyndum af ýmsum fyrirbærum á Mars.  Frægasta ljósmyndin telst víst myndin af "andlitinu á Mars".  Henni er aðeins hægt að vísa á bug sem tilviljunarkenndu samspili ljóss og skugga en það er samt vitnisburður um það hvað þrá okkar eftir nágrönnum í himingeimnum er mikil.  Er líf á Mars?  Menn halda áfam að leita, með háþróuðum mælitækjum, og vonast ef til vill eftir að finna eitthvað undir yfirborðinu, og kannski enn meira vatn undir niðri. En vitsmunalif er þar varla að finna.
(andlitið á Mars)
 
1. Hvað er líkt og ólíkt með Mars og Jörðinni?
2. Hvernig veður er á Mars?
3. Hvernig landslag er á Mars?
4. Hvers vegna hafa menn lengi trúað á líf á Mars?
5. Af hverju kallast Mars "rauða plánetan"?
6. Hvaðan kemur nafn plánetunnar?

Til baka á aðalsíðu