Dökk mynd lýst upp
 
 
Dökk mynd fengin úr stafrænni vél

Hér sjáum við mynd sem tekin var um miðja nótt.  Að vísu var þetta um sumar svo að nóttin var ekki átakanlega dimm en engu að síður of dimm fyrir ódýru stafrænu myndavélina mína.  Hvað er nú til ráða?  Ég hefði getað notað flass en það er víst ekki hægt eftir á. 
 

Myndin lýst upp 

Þá verður að bjarga hlutunum fyrir horn.  Með Photoshop (og öðrum sambærilegum myndvinnsluforritum) er einföld stilling sem býður upp á að lýsa upp hverja myndeiningu (pixel): Image/ adjust/ brightness and contrast.  Myndin er lýst upp eftir smekk.  En þess ber að gæta að allir skuggar í myndinni lýsast upp einnig og myndinn hættir til að verða flöt.  Hægt er að stilla contrast-inn til að viðhalda skuggunum en persónulega þykir mér þægilegra að auka dýpt skugganna í höndunum. 

 
 
Skuggar dregnir fram 

Hér hef ég farið yfir valin svæði með svokölluðu "burn"-áhaldi.  Það dekkir þær myndeiningar sem bendillinn fer yfir.  Hægt er að stilla stærð verkfærisins með "brushes" valmyndinni (Window/ Show Brushes).  Skugginn verður kannski örlítið loðinn ef maður vandar sig ekki en það er ótvíræður kostur að geta lagt nákvæmlega þá áherslu sem maður vill.  Hér er til að mynda sérstök áherslulína lögð við lampafótinn.  Stuðningur hans við borðið fær því meira vægi. Einnig lét ég þungan skugga falla undan hillunni til að leggja áherslu á þyngd bókanna sem voru um það bil að falla um koll. En myndin er ekki enn nógu góð.  Hún er allt of upplituð með gulri slykju.  Þetta þarf að laga. 
 

 
Litajafnvægi fundið 

Við förum í Image/ adjust/ color balance til að draga úr gula litnum.  Við rennum skífunni frá gula litnum - örlítið - og vegum síðan upp á móti þessari færslu með því að draga hinar tvær skífurnar örlítið í hina áttina.  Ef myndin verður of blá (þetta er mjög fínt jafnvægi þar á milli) er ef til vill vissara að byrja á því að velja þau svæði sem upplitast helst (hér: lampinn og veggurinn) og draga aðeins úr litstyrknum (Image/ adjust/ hue&saturation).  Þá verða áhrif bláa litarins ekki eins mikil - og hvíti liturinn verður að sjálfsögðu hvítari þegar litirnir dofna.  Síðan er farið út í litajafnvægið eins og áður sagði.  Þetta er því myndin í endanlegri útgáfu. Ekki fullkomin en furðu góð miðað við það sem hún var. 
 

 
 Næsta mynd