Þessi
mynd er öllu skárri en sú sem við skoðuðum
áðan. Skuggar myndarinnar eru ekki eins djúpir og eru
satt að segja aðeins öðru megin. Hægri hluti
myndarinnar er bara býsna fallegur með góða dýpt
og breitt ljóssvið. Það er því
vinstri hluti þessarar tvískiptu myndar sem við þurfum
að glíma við. Við veljum (með "Polygon lasso"-áhaldinu)
vinstri helming myndarinnar og vinnum eingöngu með hann. Þetta
er því mun meira fínstillingarspursmál en áður
því ef við förum of gróft í hlutina
verður of mikið misræmi milli myndhelminganna og útkoman
eitthvað á þessa leið:
Myndin er gervileg, skuggar flatir - og til að bæta
gráu ofan á svart reyndi ég að bjarga henni með
því að taka hana alla aðeins úr fókus.
En ástandið batnaði ekkert við það. Við
þurfum að fara aðra leið. Ef við kíkjum
einu sinni enn á myndina er rauði liturinn kannski hennar helsta
vandamál.
Roðinn deyfður
Þessu
er reddað á einfaldan hátt. Við drögum
úr litamagni þessa helmings myndarinnar (Hue and Saturation).
Pössum að ganga ekki of langt. Við það er
myndin þó nokkuð mikið betri og í raun nokkurn
veginn í lagi. En ég vil sjá betur þessa
hillusamstæðu sem virðist vera að falla á hliðina.
Hillan lýst upp
Fyrst
reyndi ég að lýsa upp vinstri helming myndarinnar en
í ljós komu leiðilegir grænir flekkir í
skugganum vinstra megin við hana (ekkert ósvipað misheppnuðu
tilrauninni uppi). Ég tók því til þess
ráðs að velja eingöngu svæðið fram að
vinstri enda hillusamstæðunnar og lýsa það.
Svæðið vinstra megin heldur því áfram
að vera í skugga. Ef vel er horft má sjá
að skugginn er dýpri vinstra megin við samstæðuna.
Það gefur myndinni ákveðið vægi og hillusamstæðan
stígur þar með eitt skref fram í átt til
okkar. En nú vil ég leggja áherslu á
það hvernig hún hallar (í samanburði við
vegginn). Myndin var tekin eftir jarðskjálftann 17.júni
og tilgangurinn var fyrst og fremst sá að sýna áhrif
skjálftans á hillusamstæðuna og hvernig hann hnikaði
henni til.
Hillusamstæðan teiknuð fram
Ég dreg því fram verkfæri sem kallast "Dodge"
og lýsir upp þær myndeiningar sem bendillinn fer yfir
(rétt eins og verið væri að pússa myndin).
Ég vel mér hæfilega stóran "skrúbb" (sjá:
Windows/ Show Brushes) og fer varlega yfir útlínur hillusamstæðunnar.
Einnig lýsi ég upp bækurnar í hillunni og skúffurnar
niðri. Þyngd bókanna verður því meira
áberandi sem áhrifaþáttur í pendúlsveiflu
hillusamstæðunnar. Nú sitja bækurnar þyngra
í hillunni sem hallar verulega samanborið við línu
veggjarins.
Litajafnvægið fundið
Að
lokum ákvað ég að skoða litajafnvægi hillusamstæðunnar
og veggjarins hægra megin við hana (Color Balance) og dró
örlítið úr rauða litnum. Ég gerði
það með semingi því rauði liturinn var bara
býsna fallegur þegar hann var orðinn nokkuð daufur.
En hér er engu að síður um að ræða
raunsærri birtu. Veggurinn er í raun mosagrænn
á lit svo að þessi útkoma telst nákvæmust
- hver svo sem smekkur manna er.