Reynsla mín af kennsluefni í myndmennt
Þegar ég leitaði efnistaka fyrir þetta verkefni
mundi ég eftir stöðu minni sem myndmenntakennari á
Hellu veturna 1998-2000. Sem leiðbeinandi hafði ég
ekki að baki sama grunn og aðrir myndmenntakennarar. Þó
hafði ég stundað myndlist (útskrifaðist af myndlistarbraut
F.B. 1992) og kom innblásinn til leiks. Skólinn var
lítill og ég eini myndmenntakennarinn, því var
takmarkað hægt að leita faglegra ráða hjá
samkennurum (einangrun myndmenntakennarans í starfi er vel þekkt
fyrirbæri). Hitt var hins vegar verra að stoðefni í
formi hugmyndabanka eða kennslubókar var hlægilega lítið
í faginu. Nánast ekki neitt. Ekki bætti
úr skák að reka augun í háleit markmið
Námskrárinnar sem voru svo víðs fjarri raunveruleikanum
sem ég stóð frammi fyrir. Þar glitti ekki
í eina einustu uppástungu um það hvernig ég
átti að ná markmiðunum. Ég gerði
því hlutina algerlega á eigin forsendum og gerði
mitt besta til að galdra fram eins fjölbreytt verkefni og ég
gat allan veturinn fyrir bekkina þar til ég var um það
bil þurrausinn. Á haustþingi kennara í upphafi
næsta árs hitti ég loks aðra myndmenntakennara
og fannst magnað að heyra þá kvarta undan sama skorti
á kennsluefni. Allir könnuðust við að vinna
einangrað við það að “finna upp hjólið”.
Fyrst þetta var ekki bara ég fór ég að spyrja
sjálfan mig markvissar að því í kjölfarið
hvernig stæði á námsefnisskortinum. Ég hef
hugsað um misræmið milli yfirlýsingar námskrár
og skorti á kennsluefni æ síðan (sérstaklega
í ljósi þess hvað það væri auðvelt
að búa til myndarlegt verkefnasafn) og fæ nú, sem
nemi í KHÍ, tækifæri til að skoða málefnið
sérstaklega.
Lýsing mín á verkefninu (könnuninni)
Ég þurfti fyrst og fremst að redda mér afriti
af Námskránni (sem er aðgengileg á netinu) og
eintökum af því námsefni myndmenntar sem Námsgagnastofnun
hafði gefið út. Það samanstóð af tveimur
þunnum bókum svo það var fljótgert að
redda sér “öllu” því sem ég ætlaði
að fjalla um. Til að nálgunin yrði eitthvað
annað og meira en bara samræður við sjálfan mig
ákvað ég að setja helstu spurningarnar sem brunnu
á mér upp í tölvupósti og senda til annarra
myndmenntakennara á landinu (rúmlega tuttugu manns).
Þar sem tíminn var naumur ákvað ég jafnframt
að gefa mér tíma til að hringja í þá
flesta og vekja athygli á póstinum. Þetta vakti
iðulega jákvæð viðbrögð og ef tími
gafst til spunnust í kringum þetta gjöfular samræður
um fagið. Ekki hafði ég hringt til margra fyrr en
ég komst á snoðir um að í Gerðubergi væri,
af hreinni tilviljun, að fara af stað málþing um umfjöllunarefni
ritgerðarinnar minnar (Málþing um hugmyndafræði
Myndlistarkennslu í Aðalnámskrá). Næstu
tvo daga sat ég því fullur athygli meðal “samkennara”
minna, hlýddi á umræður og lagði í púkkið
sjálfur. Eftirfarandi ritgerð byggist því
á skoðunum ansi margra og ólíkra einstaklinga,
þó stutt sé. Til að einfalda framsetninguna
held ég hins vegar nafnleynd til streitu og kalla alla þá
sem ég talaði við í síma sem heimildina “símtal”.
Þeir sem ég fékk mikilvægar uppýsingar
úr gegnum tölvupóstinn kalla ég “könnun”.
Á málþinginu skiptust að sama skapi margir á
að hafa orðið (og suma þeirra þekki ég vel)
en ganga samt sem áður allir undir nafninu “málþing”.
Eina undantekningin á því eru sjálfir fyrirlesararnir
sem mér þykir tilhlýðilegt að vitna til undir
eigin nafni (sjá Heimildaskrá). Ég reyndi að
hripa niður þau ummæli sem gripu mig á málþinginu
því sem næst orðrétt (og þekkjast þau
gæsalöppunum) en get þó ekki ábyrgst nákvæmnina.
Útgefið námsefni í myndmennt fyrir grunnskóla
Áður en ég fer að ræða Námskrána
þykir mér rétt að skoða bókakostinn
í faginu. Aðeins tvær bækur hafa verið
gefnar út fyrir myndmennt. Þær kallast því
fyrirsjáanlega nafni “Myndmennt 1” og “Myndmennt 2”. Einnig
skilst mér að hægt sé að nálgast kennsluefni
á heimasíðu Námsgagnastofnunar undir titlinum
“Listavefurinn”. Því miður er sá vefur lokaður
í dag og get ég því ekki lýst honum nema
af afspurn. Bækurnar þekki ég hins vegar vel enda
fljótlesnar sökum þess hvað þær eru ódrjúgar.
Samanlagt eru þær innan við 125 síður og afar
efnislitlar á hverri síðu (líklega í kringum
50 orð á hverri síðu að meðaltali).
Tekið er fyrir eitt umfjöllunaratriði í einu (Litur,
rými, ljós, mynstur og svo framvegis) og því
gerð skil í nokkrum málsgreinum og myndum. Textinn
er mjög einfaldur og hæfir ágætlega 6-10 ára
krökkum á að giska og er fyrir vikið langt fyrir neðan
virðingu unglingadeildarinnar eins og hún leggur sig.
Efnistök lesefnisins eru fremur óspennandi í anda orðalagsins
enda fjallar textinn að mestu leyti um sjálfsagða hluti,
eins og það að “skugginn er bæði inni og úti”
(Myndmennt 1, bls. 24), án þess að fara neitt nánar
út í það. Hér er því
rétt aðeins stiklað á stóru og imprað
á nokkrum áhersluatriðum innan hvers efnisflokks án
þess að höfða markvisst til neins hóps sérstaklega
eða taka á umfjöllunarefninu með áhugaverðum
hætti í formi verkefna. “Ekki er tekið mikið
mið af því ferli sem nær frá sex ára
bekk og upp í sextán ára bekk. Það
vantar aldursmiðuð verkefni” sagði einn viðmælandi
minn gegnum símann: “Öllu efninu sem kenna á í
grunnskóla er komið fyrir í eina bók þar
sem eðlilegra væri að dreifa efninu niður á mismunandi
aldursstig” (Símtal). Það má þó
segja bókunum til tekna að þær eru fallegar, myndir
eru vel valdar, þó fáar séu, og efnið er
nokkuð skipulega sett fram (þó það sé
efnisrýrt).
Kennsluverkefni eru engin í sjálfri nemendabókinni
en þau finnast hins vegar í handbók kennara.
Þar er stungið upp á verkefnum öðru hvoru en
einhverra hluta vegna er það gert án skýringarmynda
eða nákvæmra útskýringa. Sú
nálgun að sleppa skýringarmyndum er undarleg í
ljósi þess hvað fagið er sjónrænt í
eðli sínu. Auk þess eru verkefnin of óljóst
orðuð til að vera gagnleg. Til að verkefnislýsing
komi að gagni þarf hún að innihalda mynd af útkomunni
(hvort sem er eftir kennara eða nemanda). Taka þarf fram
hvaða þætti myndlistariðkunar verkefnið reynir
á (er klippifærni í brennidepli eða litablöndun?,
hugmyndarflæði eða fjarvídd? og svo framvegis) og
hvaða efniviðar og áhalda er krafist (málning, klemmur,
pappír, lím). Tenging við önnur verkefni eða
námsgreinar er dýrmæt svo og ábendingar um það
hvers konar umfjöllun/kveikja er til þess fallin að vekja
áhuga á viðfangsefninu. Einnig þarf að
vera skýrt hvers vegna eitt myndefni sé notað sem viðfangsefni
í verkefninu frekar en annað. Í kjölfarið
á því mætti stinga upp á öðrum
lausnum sem verkefnið býður upp á.
Sjálfur hef ég sett upp síðu með nokkrum
verkefnum og þar tek ég fram ofangreind atriði með
þeim hætti sem mér þykir fullnægjandi (www.islandia.is/~berg).
Til samanburðar, svo maður noti eins og eitt dæmi úr
bókinni (um frumlitina) þá gagnast engum að lesa
eftirfarandi verkefnislýsingu:
“Leikur með grunnformin,
misstórir ferningar, þríhyrningar o.fl. Grunnflötur
(hvítur eða grár) búinn til af nemendum.
Grunnformin eru klippt út og límd á flötinn.
Myndirnar þurfa ekki að vera mjög stórar. Ef
þær eru litlar má setja þær upp saman og
þá mynda þær eitt stórt heildarverk”
Kennararnir sem ég ræddi við, bæði á málþinginu og í síma, voru hver einn og einasti sammála um að myndmenntabókin nýttist illa sem stoðefni í faginu og að í raun væri ekki til staðar neitt verulega gagnlegt kennsluefni. Um það þarf ekki að fjölyrða frekar. Mikið misræmi milli hinnar markvissu og aldursmiðuðu Námskrár og þessarar kennslubókar er því hróplegt. Hins vegar má sú staðreynd ekki gleymast að þessar bækur voru skrifaðar áður en Námskráin var gefin út og því ekki hægt að reikna með neitt sérlega miklu sambandi þarna á milli. En hvað þá með hinn kostinn: netið? Þar gilda engar afsakanir af þessu tagi því auðvelt er að uppfæra netefni hratt og ódýrt. Þegar ég fór að kanna málið komst ég að því að vefurinn lá niðri og get því ekki fjallað um hann af neinni nákvæmni. Þó get ég sagt að kennarar virðast almennt hafa tekið nokkuð vel á móti honum. Þeir sem höfðu litið á vefinn töldu margir sig hafa fengið þar nokkrar góðar hugmyndir að verkefnum. Hins vegar er umhugsunarvert að þeir sem almennt höfðu nýtt sér þennan kost virtust nýta aðra samsvarandi erlenda vefi talsvert meira (könnun). Það gefur til kynna að “okkar” gagnasafn sé ekki enn farið að skipa þann heiðursess sem það ætti að gera, enda þegar betur er að gáð kemur í ljós að listavefur Námsgagnastofnunar er norskur að uppruna (hann var bara þýddur yfir á íslensku). Hann var sem sé tekinn úr umferð vegna höfundarréttarflækju. Mig grunar að efnið á vefnum hafi ekki getað verið sérlega miðað við íslenskar aðstæður fyrir vikið. Um vefinn tók einn viðmælandi minn svo til orða að þar væri “of mikið föndur” og að kennsluefnið væri ekki “markviss uppbygging þekkingar” (símtal). Því hlýtur það að vera krafa myndmenntakennara að fá markvissa íslenska síðu sem mótast af uppsöfnuðum verkefnaforða okkar sjálfra, sem tekur mið af aðstæðum hér á landi og er í samræmi við námskrána okkar.
Hvernig á námsefnið að vera og hvar skortir
það helst?
Skorturinn á heildstæðri menntun á sviði
sjónlista er tilfinnanlegur. En hvers eðlis á það
námsefni að vera sem koma skal og á hvaða sviðum
þarf helst að bæta úr? Við fyrri spurningunni
er nokkuð loðið svar, því “skorturinn á
kennslubókum veitir ákveðið frelsi. Kennarinn
fær að spila ansi mikið eftir sínu höfði
og það er nokkurs virði líka“ (Símtal). Námskráin
er jú lögbundin og þar kemur skýrt fram
í markmiðum að börnin skulu hafa lært vissa þætti
fagsins á tilskildum tíma. Er æskilegt að
námsefnið verði jafn markvisst þannig að það
rími við námskrána frá fyrsta til tíunda
bekkjar? Viðmælendur mínir voru nokkuð sammála
um að það væri ”takmarkað hægt að vera
með markvisst námsefni því það er í
eðli starfsins að reyna að höfða til frumkvæðis
einstaklingsins. Þetta verður að vera svolítið
sjálfsprottið. Það er því rosalega
undir kennaranum komið hvernig hann spilar út úr námskránni.
Það má vera til staðar markvisst námsefni svo
lengi sem það þróast ekki út í einhvers
konar vinnubækur” (Símtal). Á ráðstefnunni
létu margir í ljós þá skoðun sína
að námsefnið mætti ekki þróast út
í einhvers konar “uppskriftabækur”. Einn fundargesta
tók undir að vissulega væri gaman að vera skapandi
í sínu fagi, - það mætti ekki tapa frelsi
sínu. Hins vegar yrðum við að “horfa út
frá sjónarhóli nemandans ef kennarar eru að koma
og fara frá ári til árs” (umræður).
Það þyrfti augljóslega að vera hægt að
ganga út frá einhverjum grunni vísum, einhverjum kjarna
sem næsti kennari gæti gengið út frá rétt
eins og í öðrum fögum. Í framhaldi af þessari
athugasemd utan úr sal bar Guðrún Helgadóttir
(sem þá var í pontu) saman kennsluefni í stærðfræði
í grunnskóla (sem er ansi hár stafli af bókum)
við dæmigerðan “poka” myndlistarkennarans sem innihéldi
plaköt, lesefni (etv. bækur), slædsmyndir og fleira í
þeim dúr. Samanburðurinn var til þess gerður
að bera saman hve staðlað námsefnið í öðrum
fögum er samanborið við “heimasmíðað” námsefni
myndlistarkennarans. Ekki þótti henni æskilegt
að segja skilið við “pokann” en taldi engu að síður
nauðsynlegt að “allavega eitt element í þessum poka
væri samnefnari” (Guðrún Helgadóttir). Þegar
Námskráin bar á góma í samhengi námsefnisskortsins
sem “Of mikil viljayfirlýsing og of lítið vinnuplagg”
(Halldór Björn Runólfsson) var bent á að
til hennar bæri ekki að líta sem nákvæmrar
forskriftar fyrir kennara. Hún væri viljandi orðuð
með þeim hætti að hver skóli hefði svigrúm
til að laga hana að sinni eigin skólanámskrá.
Á sama hátt hefur kennarinn alltaf visst frelsi til að
móta efnið á eigin forsendum með tilliti til sérþarfa
nemenda sinna. Námskrána bæri hins vegar að
líta á sem metnaðarfullt viðmið. Á
sama hátt ætti útgefið kennsluefni að hugsa
sem “stoðefni”, svo ég noti nú það orð
sem málþingsgestir héldu mest upp á. Það
á að létta kennaranum störfin en ekki hefta.
“En á hvaða sviðum er skortur námsefnisins tilfinnanlegastur?”
spurði ég áðan. Um það voru menn almennt
sammála, bæði á málþinginu og í
könnuninni, að efni um “íslenska sjónlistasögu”
vantaði sárast og meiri umfjöllun um Íslenska listamenn
almennt. “Samtímasögu ætti kenna sem byrjunarfag
í listasögu fyrir grunnskóla” (Halldór
Björn Runólfsson) og vænlegast væri að byrja
kennslu í nærtækum nútímanum og fara síðar
meir aftur í tímann. Orð Halldórs endurspegla
þörf kennara fyrir að fá námsefni sem tengist
umhverfi krakkanna með meiri umfjöllun um það sem er
að gerast í dag hjá yngri listamönnum. Námsefnið
þarf einnig að fjalla um það sem er umhverfis okkur,
byggingarsöguna í kring. Einn fundargesta vakti athygli
á sveitakirkjum landsins í því sambandi.
Í starfi hans sem leiðsögumanns höfðu þær
vakið mikla hrifningu og fannst ferðamönnum hans þeir
færast nær þjóðinni við að upplifa
þennan “íslenska stíl” svo frábrugðnum dómkirkjum
meginlandsins. Annað kennsluefni sem sárvantar er “góður
gagnabanki með reynslusögum af vel heppnuðum verkefnum” (könnun)
sem að sjálfsögðu “taka mið af Aðalnámskrá”
(könnun).
Ákefðin eftir auknu námsefni var mikil á ráðstefnunni
og ef marka má sköpunarkraftinn innan fagsins mætti ætla
að auðvelt væri að safna saman í haug af verkefnum
á stuttum tíma. Eina sem þarf í rauninni
að gera er að rjúfa einangrun myndmenntakennara og beina
hugmyndum þeirra markvisst í sameiginlegan farveg. Líklega
er frumkvæðið í höndum kennaranna sjálfra.
Hægt er að sníða myndarlegan verkefnabanka með
tiltölulega lítilli fyrirhöfn, sem væri flokkaður
skipulega eftir aldri og þema. Með því er
komin forskrift að námsefni sem Námsgagnastofnum gæti
seinna gefið út formlega í vandaðri umgjörð.
“Málþing um hugmyndafræði myndlistarkennslu í Aðalnámskrá” haldið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi í Reykjavík föstudaginn 15. nóvember og laugardaginn 16. nóvember 2002.
Halldór Björn Runólfsson, listfræðingur: “Um listasögukennslu skv. Aðalnámskrá og námsefni því tengt”. Fyrirlestur á málþinginu föstudaginn 15. nóvember 2002.
Guðrún Helgadóttir, kennslufræðingur við Listaháskóla Íslands: “Skynjun, greining, mat. Pælingar um hugmyndafræði”. Fyrirlestur á málþinginu laugardaginn 16. nóvember 2002.
Myndmennt 1 (ásamt kennarahandbók): Anna Cynthia Leplar, Katrín Briem, Margrét Friðbergsdóttir og Sólveig Helga Jónasdóttir. Námsgagnastofnun. 1995.
Myndmennt 2 (ásamt kennarahandbók): Anna Cynthia Leplar, Katrín Briem, Margrét Friðbergsdóttir og Sólveig Helga Jónasdóttir. Námsgagnastofnun. 1999.
Símtal: Spjall í síma sem ég átti
við ýmsa myndmenntakennara fimmtudagin 14. nóvember áður
en ég sendi út spurningalista til þeirra.
Könnun: Tölfræðilegar niðurstöður
og athugasemdir frá kennurum sem svöruðu spurningalista
sem ég sendi þeim í tölvupósti (sjá
viðauka 1-4).
www.islandia.is/~berg Heimasíða mín á netinu þar sem hægt er að finna umfjöllun um kennsluverkefni sem reyndust mér vel í kennslu.
www.menntamalaraduneyti.is Heimasíða menntamálaráðuneytisins
þar sem er að finna Aðalnámskrá grunnskólanna,
þar með talda Námskrá myndmenntakennslunnar.
Kæri myndmenntakennari,
Þorsteinn heiti ég og er fyrrverandi leiðbeinandi í myndmennt og núverandi nemi í KHÍ. Ég er að vinna að stuttu og einföldu verkefni sem tengist námskrá í myndmennt. Ætlunin er að bera þessa áætlun Menntamálaráðuneytis við þann bókakost sem Námsgagnastofnun hefur náð að gefa út og komast að því hvort að kröfurnar séu í einhverju samræmi við bókakostinn sem kennarar hafa úr að moða. Enn sem komið er hafa verið gefnar út aðeins tvær bækur (myndmennt eitt og tvö) og eitthvað hefur jafnframt verið gefið út af námsefni á netinu undir síðu Námsgagnastofnunar. Það sem mig langar að vita er hvort kennarar séu að vinna almennt í samræmi við áætlun námskrárinnar eða hvort þeir séu að gera hlutina upp á eigin spýtur (og ef svo er - hvaða gögn séu helst nýtt í kennsluna). Niðurstaða þessarar litlu könnunar gæti hugsanlega endað uppi á borði hjá Námsgagnastofnun og öðrum þeim aðilum sem málið varðar. Því þætti mér vænt um ef þú gætir staldrað við og svarað mér í tölvupósti (fyrir helgi ef hægt er) eftirfarandi spurningum. Þær eru ekki margar og ég hef þær eins einfaldar og hægt er (í eins konar krossaspurningaformi, nema þrjár síðustu) svo auðvelt sé að svara hratt og vel. Með von um að þú sjáir þér
fært að sinna þessu litla erindi,
--------------------------------------------------------------------
1. Hversu nákvæmlega telurðu þig hafa fylgt Námskránni
eftir undanfarin kennslumisseri?
2. Hvernig finnst þér áætlun Námsskrárinnar?
3. Hversu mikið hafa bækurnar frá Námsgagnastofnun
(Myndmennt 1 og 2) nýst þér í kennslu?
4) Hefurðu kynnt þér námsefnið (Listavefurinn)
sem Námsgagnastofnun heldur úti á netinu?
5) Notastu við verkefnabanka eða myndmenntasíður
af netinu til að fá hugmynd að verkefnum?
6) Notarðu aðrar myndlistarbækur á íslensku
i kennslu?
7) Ef þú notar aðrar íslenskar bækur,
standa einhverjar tvær til þrjár upp úr? (má
sleppa - en gæti nýst öðrum kennurum)
8*) Hvaðan koma verkefnin sem þú notar í kennslustundum?
Gefðu eftirfarandi liðum prósentutölu:
*ath. í spurningunni hér að ofan þarf samanlögð
prósentutala að vera 100%. Einstakir liðir geta verið
0%. Þetta mat er augljóslega mjög huglægt.
9) Að lokum: Hvers konar námsefni finnst þér helst vanta? |
a) ég ber vinnu mína samviskusamlega saman við hana ***=3 |
b) ég fylgi henni nokkuð vel en þó ekki alltaf...****=4 |
c) veit um helstu áherslur og fer eftir því þegar það hentar ****=4 |
d) fylgi henni aðeins af hendingu eða alls ekki=0 |
a) Raunhæf***=3 |
b) full krefjandi*******=7 |
c) óraunhæf*=1 |
d) hef ekki kynnt mér hana=0 |
a) nota bækurnar stöðugt, bæði fyrir nemendurna og mig=0 |
b) kíki reglulega í bækurnar og nota stundum hugmyndir þaðan*****=5 |
c) glugga stundum í bækurnar og hef notað einstöku hugmynd úr þeim****=4 |
d) hef litið í þær einu sinn eða sjaldnar. Nota aldrei neitt úr þeim.**=2 |
a) Nei**=2 |
b) Já, fannst það gagnast mér lítið eða ekkert*=1 |
c) Já, ég gat notað námsefnið þar svolítið******=6 |
d) Já, ég fékk margar góðar hugmyndir þar*=1 |
e) Já, hún er þarfaþing. Nota síðuna stöðugt.*=1 |
a) Nei***=3 |
b) Já - en sjaldan***=3 |
c) já - stundum**=2 |
d) já - mikið***=3 |
Hér er dreifingin geysilega jöfn og greinilegt að það
er allur gangur á því hvort menn nýti sér
netið í leit að hugmyndum. Hér virðast
þó fleiri leita hugmynda en á Listavefnum.
a) Nei=0 |
b) já - en lítið**=2 |
c) já - stundum******=6 |
d) já - mikið***=3 |
Hver súla táknar ónafngreindan kennara. Átta
kennarar af þeim tíu sem þátt tóku í
könnuninni skiluðu niðurstöðum í þessum
lið. Athugið að í síðustu súlunni
hef ég tekið saman meðaltal hvers liðs með þeim
hætti að ég lít fram hjá jaðargildunum
(hæsta gildi og lægsta gildi) og dreg meðaltalið af
hinum sex sem eftir standa.
Myndmennt 1 og 2 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Listavefurinn |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Erlendar kennslubækur |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Erlendar vefsíður |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Kollegar |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Sjálfsprottið |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Hér eru dregnar ansi skýrar línur. Kennarar eru allir að vinna geysilega mikla frumvinnu. Næst á eftir því koma erlendar kennslubækur og námsefni framleitt erlendis (sem kennarinn eyðir etv. tíma í að þýða og staðfæra). Að sama skapi leita kennarar meira til erlendra vefsíðna um myndmenntakennslu en til þeirrar sem Námsgagnastofnun býður upp á. Aðeins einn talar um að leita mikið til kollega sinna enda lenska hvað mönnum hættir til að einangrast í faginu (fæstir njóta þess munaðar að eiga kollega að innan eigin skóla). Sjálf kennslubókin er að mestu leyti útundan. Hún er yfirleitt til taks (etv. vegna skyldurækni og vegna þess að efnið er þó á íslensku) en hún er sáralítið notuð.
“Bækur sem gefnar hafa verið ut um Kjarval, Ásgrím og frá listasafni Íslands.”
“Myndlist - Máls og menningar. Listaverkabækur Fjölvaútgáfunnar. Bækurnar hans Bjorns Th. Björnssonar og fl.”
“Ég nota mikið Sögu listarinnar eftir Gombrich og Myndirnar tala sem mér finns mjög góð til að vinna með á unglingastigi. Annars bækur um einstaka myndlistarmenn bæði íslenska og erlenda.”
“Myndirnar tala frá 6. bekk og upp úr og Saga listarinnar auk sérbóka úr ýmsum áttum um listamenn. Við förum oft á sýningar og þá er oft gott efni um viðkomandi listamenn í vönduðum sýningarskrám og þá læt ég gjarnan vinna ritgeðir um listamennina og svara spurningarlistum á sýningunum.”
“Ég nota bæði íslenskar og erlendar bækur og þá aðallega þær sem eru í minni eigu, pabba eigu eða eru til á bókasafni staðarins. Íslensku bækurnar sem ég hef notað t.d. til kynningar á listamönnum eru td. bækur um einstaka íslenska listamenn og þá tengt umræðu um tíma eða listastefnur.”
“Íslensk myndlist 1 og 2 (höfundur Björn Th. Björnsson).”
“Aðallega bækur um ísl. listamenn en þá finnst mér vanta bækur um yngri listamenn.”
“Myndirnar tala og Við gerum myndir (mjög gömul lummó bók en ágæt verkefni inn á milli).”
“Það eru meðal annars bækurnar Einfarar í Íslenskri myndlist eftir Aðalstein Ingólfsson, Nína í krafti og birtu,(um Nínu Tryggvadóttur) og Se dig selv i öjnene sem reyndar er ekki á íslensku eingöngu, en er samnorrænt verkefni.”
“Aldateikn og aðra bók eftir Björn Th. Björnsson”
“Vantar tilfinnanlega námsefni í listasögu fyrir alla aldursflokka”
“Myndbönd sbr. Listaskóli Evrópu og um einstaka listamenn og kennsluefni sbr. Listavef Námsgagnastofnunar, kennsluefni í listasögu sem hentar börnum frá 6 til 16 ára.“
“Fjölbreyttara námsefni sem er annars vegar tilbúið, inniheldur hugmyndir að tilbúnu námsefni og reynslusögur annarra kennara v. verkefni og hvernig þau hafa reynst. Sambland af skemmtilegum verkefnum og reynslubanka með þeim.”
“Það sem vantar er auðvitað góður gagnabanki og reynslusögur af vel heppnuðum verkefnum og samvinnu milli skóla og kennara. Fólk er greinilega víða að gera mjög athyglisverða hluti víða um land og ekki síst í litlum skólum.”...”Um þetta vantar allar upplýsingar sem vel gætu verið til staðar á vefslóð á netinu og þar væri líka svigrúm fyrir skoðanaskipti og aðrar gagnlegar upplýsingar. Aukin samvinna milli skóla ætti að vera auðveld núna með netinu og þeim möguleikum sem þar bjóðast”...”gleymdu ekki þætti safna og sýninga í myndlistarkennslu. Það er mjög mikilvægt listuppeldi sem næst í gegnum það.”
“T.d. mundi ég gjarnan vilja fá veggmyndir, plaggöt og fleira með íslenskum listaverkum til að hengja upp til að festa verkin í huga barnanna og þá bæði þessara gömlu og samtímalistamanna. Stutta góða leskafla um helstu listastefnur og listamenn. Reyndar bara vantar alveg helling það mætti til að mynda þýða alveg helling af góðum erlendum bókum fyrir börn um listir, erlendis eru til ógrynni af spilum ýmiskonar og þrautum þar sem listin er í brennidepli, memo kort og svo miklu, miklu fleira. Mikill tími hjá mér fer í að þýða efni og aðlaga að krökkunum.”
“Íslenska listasögu á góðu skýru máli fyrir grunnskólann. mætti hugsanlega hafa verkefni í lok hvers kafla þar sem nemendur spreyttu sig á að gera myndverk í tengslum við það sem búið er að kynna.”
“Ég gæti hugsað mér að fá kennarabók sem væri með hugmyndir að verkefnum sem væri miðuð út frá Aðalnámskrá. Norðmenn gáfu út nýja Aðalnámskrá og um leið var gefið út efni fyrir kennara til að mæta þeim kröfum sem gerðar voru til kennarans. Aðalnámskrá í myndmennt er víst unnin út frá hugmyndafræði sem kemur fram í Discipline-Based Art Education. Þá vildi ég sjá að sú mappa væri þýdd og staðfærð yfir á íslensku og unnin þannig að það væru glærur og myndbönd og vefir og bara öll samantektin í myndmennt í sömu möppu. Takk fyrir”
“Allt námsefni!!!!!”...”Mér finnst vanta bækur með verkefnahugmyndum, kennslubækur sem samræmast námskránni, listasögubækur fyrir grunnskóla o.s.frv. o.s.frv, sem sagt allt. Myndmenntakennarar hafa ekkert í höndunum nema heimatilbúin verkefni. Það eru engar bækur til sem ég get nýtt mér í einhverjum mæli. Mér finnst myndmennt 1 og 2 ekki nógu góðar, það er hægt að grípa í Myndirnar tala og Við gerum myndir er mjög gömul bók en með ágætum verkefnum inn á milli. Ég var á málþingi myndlistakennara um helgina og þeir sem þar voru saman komnir voru sammála um það að það bráðvantar allt kennsluefni.”
“Aðgengilegt námsefni í listasögu, hugmyndabanka, litskyggnubanka, En alls ekki námsefni sem er niðurnjörfað eða of stýrt.”
“Námsefni til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru í aðalnámskrá. T.d. náms og kennsluefni fyrir börn og ungmenni í listsögu þar sem á einfaldan hátt er gerð grein fyrir mismunandi stílum og stefnum í myndlist (sem okkur ber að fræða um.s.b. aðalnámsskrá) Einnig vel úthugsað efni í litafræði, fjarvídd og formfræði sem gengur upp í gengum árganga þannig að við kennslu í myndmennt sé stöðugt verið að byggja ,frá einum árgangi til næsta, ofaná fyrri þekkingu eins og í öðrum námsgreinum.”
“Mér finnst aðalega vanti tíma, nemendur fá
80 mín á viku hálfan veturinn!!”