Óbærilegur léttleiki tilverunnar
Milan Kundera


(bls.7)

Afturkoman eilífa er dularfull hugmynd, og með henni kom Nietzche ýmsum heimspekingum í bobba:  að láta sér detta í hug að dag einn mun allt endurtaka sig eins og við upplifðum það, og að sú endurtekning muni alla tíð endurtaka sig!  Hvað merkir þessi stórskrýtna goðsögn?
       Neikvætt séð þýðir goðsögnin um afturkomuna eilífu að lífið, sem hverfur í eitt skipti fyrir öll og ekki kemur aftur, sé líkast skugga, vegi ekkert, sé fyrirfram dautt, og að það skipti engu máli hversu hörmulegt, fagurt eða glæsilegt það hafi verið, því hvorki hörmung þess, fegurð né glæsileiki hafa neina merkingu.  Það tekur því ekki að minnast á það, ekki frekar en stríð milli tveggja afrískra konungsríkja á fjórtándu öld, sem engin áhrif hafði á gang heimsins, jafnvel þó þrjú hundruð þúsund svertingjar hafi látið þar lífið á ósegjanlega kvalarfullan hátt.
       En breytir það einhverju um stríðið milli afrísku konungsríkjanna á fjórtándu öld, ef það endurtekur sig ótal sinnum í afturkomunni eilífu?  
       Já, vissulega:  það breytist í vegg sem rís til að standa um alla eilífð, og heimska þess verður ekki aftur tekin. 
       Ef franska byltingin endurtæki sig í sífellu, yrðu franskir sagnfræðingar líklegast ekki eins hróðugir af Robespierre og þeir eru nú.  En þar sem þeir fást við eitthvað sem ekki kemur aftur, verður þetta blóðuga tímabil aðeins að orðum, kenningum, umræðum, það verður léttara en dúnn, vekur engan ótta.  Reginmunur er á þeim Robespierre sem aðeins birtist einu sinni í sögunni og þeim Robespierre sem eilíflega kæmi aftur til að hálshöggva Frakka.

(Íslenski kiljuklúbburinn, 1990)