![]() ALHEIMSMÓT Á FERÐ - JOTT 1998 ![]() Frá sumardeginum fyrsta til laugardagsins 25. apríl er meiningin að fá sem flesta skáta til að fara út að ganga eða gera eitthvað saman. Þetta er dagskrárliður með þátttöku margra þjóða sem á að sýna samstöðu skáta um allan heim. Það er Smiðjuhópur skáta sem stendur að þessu hér á landi fyrir hönd Starfsráðs BÍS. Þema þessa dags er að gera eitthvað saman og er fyrir alla aldurshópa. Allir skátar, sama hvaða embætti þeira gegna (ljósálfar, ylfingar, skátar, foringjar, eldri skátar og stuðningsmenn) geta tekið þátt í þessu. Búið er að skrá yfir 20.000 þátttakendur nú þegar og er búist við fleiri þátttakendum, því t.d. voru um 4000 hópar þegar búnir að skrá sig í Bretlandi í byrjun apríl. Hvert og eitt skátafélag getur verið með sína eigin dagskrá og tengt hana t.d. sumardeginum fyrsta eða notað laugardaginn. Ekkert ákveðið verkefni er í gangi en bent á möguleika sem gönguferð gefur og svo má fara í heimsókn á elliheimili, sjúkrahús eða bara drekka kakó fyrir utan bæinn, eftir að skátarnir hafa týnt rusl í fjörunni eða almenningsgarðinum. Við skulum samt hafa í huga, að hvenær sem við erum á ferð, tökum við allt það rusl sem við sjáum og skiljum ekkert eftir okkur - nema fótsporin okkar og minninguna. Félögum er í sjálfsvald sett hvaða verkefni þau gera og hvað langaan tíma það á að taka því taka verður mið af þeim hópi sem í skátunum eru á hverjum stað fyrir sig. Enska heitið á þessu móti er "Jamboaree on the Trail" sem við höfum ákveðið að nefna "Alheimsmót á ferð". Undirbúningur hófst í Kanada og í Bretlandi, en fljótlega eftir að spurðist um þetta vildu aðrar þjóðir vera með - og auðvitað verða allir íslenskir skátar með! Mótsdagurinn er á laugardag, en þar sem sumardagurinn fyrsti hefur alltaf verið sértakur skátadagur á Íslandi, þótti okkur við hæfi að framlengja mótið hérlendis um tvo daga og hefja mótið fyrr. Allir þátttakendur geta fengið merki þessarar smiðju (sjá merki í fyrirsögn) fyrir vægt verði og verða þau komin til landsins fljótlega eftir mótið. Félögin þurfa að panta þau til Smiðjuhópsins eða Starfsráðs BÍS um leið og þau gefa okkur upp þátttökufjölda og stutta lýsingu á hvað gert var. Merkið má svo bera á búning eins og venjulegt mótsmerki. Gaman væri t.d. að fá sendar ljósmyndir til skátavefsins af þessu framtaki með stuttri lýsingu til birtingar hér á vefnum. Nánari upplýsingar veitir Sturla í síma 555-1767, með netpósti til sturlab@fss.is og á skrifstofu BÍS. Munið að félagsforingjar þurfa ekki að tilkynna þátttöku fyrirfram.
|