Hjólreiðabraut meðfram Reykjanesbraut...að hluta til

Þann 13. október 2005 opnuðu Rannveig Rist og Lúðvík Geirsson hjólreiðabraut milli Hafnarfjarðar og álversins í Straumsvík. Var hann lagður svo að starfsmenn álversins gætu komist til og frá vinnu með vistvænum, sparsömum og heilbrigðum hætti. Þó hjólabrautin geti talist bein og greið þá hlykkjast hún með einkennilegum hætti meðfram Reykjanesbraut. Halda mætti að hún hafi verið lögð af dópuðum verkamönnum eða bilaðri malbikunarvél. Þó þetta geti varla talist faglegt þá eru þessir hlykkir á þessum beina kafla ekki meiri en svo að þeir tefja ekki för hjólreiðafólks. Þetta "stílbrot" getur jafnvel þvert á móti gert ferðina þægilegri þar sem vegalengdin virðist styttri fyrir vikið.

Sjá frétt í Morgunblaðinu.

 

Mishæðir á leið brautarinnar hafa verið jafnaðar út að miklu leyti þó án þess að valda miklu jarðraski. Það er því hægt að fá það á tilfinninguna að farið sé um gamlan veg. Þessu fylgir þó sá galli að víða geta hlaðist upp snjóskaflar ef fannfergi næstu ára verður með sama móti og algengast var á síðustu öld.  Hjólreiðabrautin er hæfilega langt frá akbrautinni. Skítur og krap frá bílum og snjóplógum úðast því lítið sem ekkert yfir hjólreiðafólk.

Lægðir eru fylltar með grjóti. Reyndar svo grófu að ef hjólreiðamaður fyki eða rynni út af á þessum stað þá er öruggt að sá hin sami fengi subbuleg beinbrot. Svona frágangur myndi ekki líðast meðfram akbrautum. Ætli einhverjum þyki rispa á bíl alvarlegra mál en beinbrotinn hjólreiðamaður? Mishæðir á brautinni eru ekki meiri en svo að jafnvel ferðamaður á fulllestuðu hjóli ætti að ráða vel við "brekkurnar".

 Milli urðar og malbiks er fín grús, auk þess að vera lögð í hrauni. Hjólreiðabrautin á því eftir að endast í mörg ár án þess að verða fyrir frostskemmdum eins og algengt er með útivistar- og göngustíga á höfuðborgarsvæðinu.

Því miður endar hjólreiðabrautin við starfsmannahlið álversins. Vonandi mun hún halda áfram alla leið til Reykjanesbæjar. Sú framkvæmd verður væntanlega í verkahring Vegagerðarinnar ef Samgönguráðuneytið fer að taka faglega á sínum málum og í samræmi við það sem finna má í nágrannalöndum okkar.