Hvað er vefsíðan NÁTTÚRA ? |
Það er aðeins vefsíðan sem heitir NÁTTÚRA og ICEBIKE á ensku. Þó ekki sé vanþörf á, þá er ekki í bígerð að stofna nein samtök eða félagsskap um málefni hennar. Heimasíðan mun smátt og smátt verða full af fróðleik um móður náttúru og hvernig mannskepnan níðist á henni. Það er fyrir löngu komin tími til að sem flestir átti sig á því að við eigum aðeins eina jörð og það eru fleiri sem lifa og eiga eftir að lifa á henni. Á vefsíðu Náttúru verður barist gegn öllu sem á einhvern hátt samræmist ekki sjálfbærum lifnaðarháttum mannsins gagnvart móður náttúru. Allt efni síðunar mun því að fremsta megni miða að því að fólk breyti lifnaðarháttum sínum til batnaðar. Mikið verður fjallað um reiðhjólið og hjólreiðar almennt, einfaldlega vegna þess að það er besta farartækið sem mannshöndin hefur skapað. Mengar litið bæði í framleiðslu og í notkun. Vonast er til að vefsíðan geti orðið mjög þægileg fyrir þá sem ætla að leita upplýsinga um hjólreiðar á Íslandi, jafnt fyrir innlenda sem erlenda. Hér verður sérstök áhersla lögð á að upplýsa almenning um skaðsemi einkabílsins því hann er það tæki sem mengar mest, í lofti, láði og legi, samfélagi, umhverfi og náttúru. Að sama skapi er afskaplega auðvelt að breyta því ef almenningur er tilbúinn til að bæta sína lifnaðarhætti. Íslenskur almenningur hefur aldrei á einum stað verið upplýstur um skaðsemi bílsins. Vefsíða Náttúru mun vonandi bæta þar um. Almenningur verður fræddur um aðrar leiðir til betra lifs og þar á meðal hvaða farartæki henta best í heimi þar sem fólki fer sífellt fjölgandi og taumlaust arðrán náttúru virðist engan enda ætla að taka. Allir geta haft áhrif á þróun þessarar síðu með því að senda efni, myndir eða greinar. Á heimasíðunni má finna myndasöfn, greinasöfn, tenglasöfn, áróður, tilkynningar, skemmtiefni, barnaefni og hrylling. Eitthvað fyrir alla. 17. januar 2000 / Magnús Bergsson |