Innlent | Morgunblaðið | 06.09.2001 | 05:55


Lenti undir vörubifreið


Hjólreiðamaður var fluttur alvarlega slasaður á slysadeild Landspítalans í Fossvogi eftir að vörubifreið ók yfir hann á gatnamótum Urðarbrautar og Borgarholtsbrautar í Kópavogi rétt fyrir kl. 8 í gærmorgun. 

Tildrög slyssins voru þau að hjólreiðamaðurinn kom vestur eftir Borgarholtsbraut og lenti undir vörubifreiðinni, þegar henni var ekið af
Borgaholtsbraut inn á Urðarbraut. 

Tvö hægri afturhjól vörubifreiðarinnar, sem er á sjöunda tonn að eigin þyngd, fóru yfir manninn miðjan og hlaut hann mjaðmagrindarbrot, en var með meðvitund þegar hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var lagður inn. 

Lögreglan í Kópavogi lokaði slysavettvangi á meðan hún athafnaði sig á staðnum og hlutust af nokkrar umferðartafir á meðan. Nokkur vitni urðu að slysinu og var þeim bent á úrræði í áfallahjálp.