Hægt er að sækja Word Perfect útgáfu af skjalinu, sjá upplýsingar um uppsetningu á Netscape fyrir Word Perfect skjöl.
126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 771  —  485. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta.

Flm.: Ísólfur Gylfi Pálmason, Katrín Fjeldsted, Jóhann Ársælsson,

Kolbrún Halldórsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Ásta Möller,

Þórunn Sveinbjarnardóttir,     Kristján Pálsson, Einar Már Sigurðarson,

Gunnar Birgisson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að marka stefnu um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta í þéttbýli og dreifbýli. Tekið verði tillit til hjólreiðamanna við hönnun nýrra mannvirkja og stefnt að því að hjólreiðar verði raunhæfur kostur í samgöngu málum á Íslandi.
    Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. janúar 2002.

Greinargerð.

    Markmiðið með tillögunni er að vekja athygli á hjólreiðamönnum í umferðinni, en einnig að fækka slysum og auka öryggi þeirra.
    Hjólreiðar eru vinsæl afþreying á Íslandi, sem og annars staðar, og hefur hjólreiðafólki fjölgað mjög á Íslandi á síðustu áratugum. Hjólreiðar eru ódýr, skemmtilegur og heilsusam legur ferðamáti og vinsæl fjölskylduíþrótt. Fjölmörg dæmi eru um að fólk í þéttbýli noti reið hjól til þess að ferðast milli áfangastaða.
    Hjólreiðar eru holl og góð íþróttagrein og er hluti af daglegri líkamsrækt hjá mörgum. Þær eru einnig afar vinsæll ferðamáti barna og unglinga og er tími til kominn að mótuð verði opinber stefna í þessum málum. Einnig hefur það mjög færst í vöxt að bæði Íslendingar og útlendir ferðamenn ferðist um landið á reiðhjólum. Þannig er á sumrum mikil umferð erlendra ferðamanna frá Leifsstöð og einnig frá Seyðisfirði. Aðstaða hjólreiðafólks á Íslandi er afar slæm og í mörgum tilfellum er hættulegt að ferðast um á reiðhjólum þar sem lítið tillit er tekið til hjólreiðafólks.
    Hin fjölfarna þjóðleið frá Hafnarfirði um Garðabæ, Kópavog, Reykjavík og Mosfellsbæ er stórhættuleg hjólreiðafólki, sem og gangandi vegfarendum. Talið er að um 16.000 reiðhjól hafi verið flutt inn til landsins árlega á síðustu 11 árum sem þýðir um 176.000 reiðhjól auk þeirra sem til voru áður. Því er talið að um 66% þjóðarinnar eða tveir af hverjum þremur landsmönnum eigi reiðhjól.
    Of sjaldgæft er að fyrirtæki og stofnanir hafi sérstakar reiðhjólagrindur við fyrirtæki sín þó að það hafi batnað nokkuð á síðustu árum en betur má ef duga skal.
    Nauðsynlegt er að gera ráð fyrir þessum ferðamáta við hönnum nýrra mannvirkja, enda eru hjólreiðar hluti af nútímaafþreyingu og sumarleyfisferðum.
    Æskilegt væri að í nefndinni sem skipuð yrði væru t.d. fulltrúar Vegagerðarinnar, Sam bands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands hjólreiðamanna, Fjallahjólaklúbbs Íslands og Hjólreiðafélags Reykjavíkur.
    Í Reykjavík var starfrækt sérstök hjólreiðanefnd sem skilaði ítarlegum tillögum til borgar ráðs árið 1994, auk þess sem gengið var í samtökin „Car Free Cities”.
    Athyglisverðar eru tilraunir bæjarstjórnar Árborgar í þessum efnum þar sem boðið er upp á leigureiðhjól til þess að auka notkun reiðhjóla í umferðinni á Árborgarsvæðinu. Fleiri bæj arfélög eru að huga að þessum athyglisverða og skemmtilega ferðamáta. Þetta er líkt og er gert í Kaupmannahöfn en aðstaða hjólreiðafólks í Danmörku er til algerrar fyrirmyndar. Þar hafa verið markaðssettar hjólreiðaparadísir, t.d. á Borgundarhólmi, en þar byggist ferða mennska að stærstum hluta á hjólreiðum.
    Það er deginum ljósara að eftir því sem aðstaða hjólreiðamanna batnar hvetur það Íslend inga til að nýta sér þann skemmtilega og holla ferðamáta sem hjólreiðar eru.

TIL BAKA