MBL  Innlent | 14.06.2001 | 05:55


Grábjörn gerði sig heimakominn


Sigursteinn Baldursson hjólreiðakappi slapp naumlega með skrekkinn þegar grábjörn, sem hafði þefað uppi tjald hans þar sem hann er staddur í Alaska, lét sér nægja að þefa og hélt svo áfram
leið sinni. Sigursteinn er nýlega lagður af stað í tveggja ára ferðalag þar sem ætlunin er að hjóla frá Norður-Alaska til Suður-Argentínu. 

"Ég var staddur við bæinn Coldfoot, um 240 mílur suður af bænum Deadhorse, þaðan sem ég lagði af stað í síðustu viku," sagði Sigursteinn í samtali við
Morgunblaðið. "Ég vaknaði við að björninn var að hnusa af tjaldinu mínu og áttaði mig á því að það eina sem skildi okkur að var tjalddúkurinn." 

Hann sagði að vörubílstjórar sem hann hefði hitt, teldu að þetta hefði verið eitt af stærstu karldýrunum þarna um slóðir. Þeir hefðu séð björninn í grennd við
tjaldstað hans, án þess þó að hafa hugmynd um að þar væri maður sofandi. 

Hann sagði að vörubílstjórarnir hefðu margir boðist til að lána honum byssurnar sínar, en þeir séu flestallir með skotvopn í bílunum. 

"Sagan hefur spurst hratt um veginn hérna og þegar ég mæti fólki segir það: "Já, þú ert maðurinn sem slappst við björninn!" Aðspurður segist ég bara hafa gert
það eina sem ég gat, það er að segjalegið grafkyrr og farið með Faðirvorið þrjú til fjögur hundruð sinnum," sagði Sigursteinn.

Til baka á yfirlit  /  vefsíða Náttúru