Morgunblaðið
Miðvikudaginn 14. apríl 2004.
Torfæran dregur
úr áhuga almennings á hjólreiðum
Ástandi stíga fyrir
hjólreiðamenn er verulega ábótavant við mislæg gatnamót við Stekkjarbakka
í Reykjavík, en að sögn verktaka verður lokið við stígana í kringum næstu
helgi
Elvar
Arnar Reynisson hjólar reglulega um Stekkjarbakkann, og segir hann að
hjólreiðafólki hafi ekki verið boðið upp á annan valkost en þann að hjóla
í möl og drullu í heilt ár, eftir að göngustígnum meðfram Reykjanesbraut
var mokað í burtu í apríl á síðasta ári vegna vinnu við mislæg gatnamót.
Elvar segir ástandið eins og það hefur verið algerlega óviðunandi, enda
hafi stígagerð átt að vera lokið 18. október sl. samkvæmt útboðsgögnum,
með bundnu slitlagi, undirgöngum undir Stekkjarbakkann og göngubrú yfir
Reykjanesbraut. Elvar segir það ekki nógu gott ef stígurinn komist ekki í
lag fyrir sumarið, enda sé tímabilið frá maí fram í ágúst það tímabil sem
flestir nota reiðhjólið. "Og þegar svo mikilvæg samgönguæð er lokuð eða
torfær, þá augljóslega minnkar áhugi hjólreiðamanna á því að nota hjólið,"
segir Elvar.
Stígurinn kláraður á næstu dögum
Hilmir Freyr Sigurðsson, staðarstjóri Jarðvéla við Stekkjarbakka, segir að
samkvæmt útboðsgögnum hafi framkvæmdum við stígana átt að vera lokið 1.
nóvember, en fyrir þann tíma hafi verkkaupi ákveðið að breyta stígnum og
lækka hann, og hafi þá verklokum við þann þátt framkvæmdarinnar verið
frestað. Hann segir að samkvæmt samningum eigi stígurinn að vera tilbúinn
1. maí, en vinna við hann sé vel á undan áætlun og reiknað sé með því að
hann verði malbikaður öðru hvorum megin við næstu helgi.
"Við höfum reynt eins og kostur er að takmarka vinnusvæðið út frá stígnum
og hreinsa hann eins og kostur er. Í vetur var þetta bara frosin möl og
við vorum ekkert að vinna á þessu, en undanfarnar þrjár vikur höfum við
verið að vinna í því að lækka stíginn. Því er lokið í dag og bara eftir að
malbika, og þá verður málið úr sögunni," segir Hilmir.
Hætta fyrir hjólreiðamenn
Sigurður M. Grétarsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, segir það
oft brenna við að hjólreiðamenn fái aðra meðferð en ökumenn bifreiða þegar
framkvæmdir standa yfir. Þess vegna þurfi hjólreiðamenn og gangandi
vegfarendur annað hvort að taka á sig stóran krók, eða fara inn á
umferðarmannvirki sem sé ekki hannað með þá í huga, með tilheyrandi hættu.
"Það sem vantar er að menn horfi á gangstéttir sem samgöngumannvirki, menn
eru ekki að gera það. Í svona verkum eru iðulega tvær dagsetningar sem
verktaki þarf að standast, önnur er þegar umferð er hleypt á, og hin þegar
frágangsvinnu á að vera lokið. Þannig að menn líta á það að klára stíga
sem frágangsvinnu en ekki sem part af því að hleypa umferð á
samgöngumannvirkið," segir Sigurður.
Segja of fáa nota stígana
Elvar segir framkvæmdina við Stekkjabakka ekkert einsdæmi, og segir
yfirvöld oft hafa haldið því fram að stígagerð fyrir hjól standi ekki
undir sér, þar sem svo fáir noti hjólið til samgangna.
"Ég skora því nú á yfirvöld að standa þannig að næstu framkvæmdum, til
dæmis við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, að hjólandi og
gangandi vegfarendur fái algjöran forgang, hjáleiðir verði malbikaðar, vel
merktar og eins stuttar og hægt er, en aftur á móti yrðu hjáleiðir fyrir
akandi vegfarendur þröngar, hættulegar, óupplýstar, ómerktar og ómalbikað
drullusvað sem myndi tefja fyrir akandi umferð um tvö hundruð og fimmtíu
prósent, eins og er gert varðandi hjólandi og gangandi umferð nú um
Stekkjarbakka. Þá skulum við sjá hvort fólk fari ekki að nota hjólið til
samgangna. Það er nefnilega þannig að ef engin væri sundlaugin, þá er
enginn sundmaðurinn, og það sama gildir um hjólreiðafólk," segir Elvar að
lokum.
|