RUV
Fyrst birt: 05.09.2007 18:23
Síðast uppfært: 05.09.2007 19:47
Reiðhjólabremsur eyðilagðar
Klippt var á hand- og fótbremsur fjölmargra reiðhjóla
við Melaskólann í Reykjavík í gær. Ekki er vitað hver
var að verki. Nokkrir foreldrar barna í skólanum sem
skólastjórnendur hafi rætt við fullyrða að minnstu hafi
munað að börn þeirra hafi lent alvarlegu slysi vegna
þessa. Í orðsendingu sem foreldrum hefur verið send er
þeim ráðlagt að láta börnin ekki koma á hjólum í
skólann.
|
Meira á
LHM bloginu
Íslenski fjallahjólaklúbburinn sendir tvö erindi til
skólastjórnar, foreldraráðs, og foreldrafélags Melaskóla ásamt
fulltrúa þjónustumiðstöða Vesturbæjar, Fella- og Hlíðahverfa,
Lýðheilsustöðvar, Höfuðborgarstofu og hverfisfulltrúa lögreglu.
Hið fyrra:
Vegna þessa atviks við Melaskóla ætlar Íslenski
fjallahjólaklúbburinn að hafa opið hús að Brekkustíg 2, sunnudaginn
9. september og bjóða þeim skólabörnum/forráðamönnum sem lentu í
þessu skemmdarverki að skipta um barka með aðstoð fagmanna.
Ásamt nýjum bremsu- og gírvírum verður kakó, kaffi, kleinur og góða
skapið í boði í klúbbhúsinu. Húsið opnar klukkan 12:00
Hið síðara:
Í ljósi fréttaflutnings miðvikudags 5. september síðastliðinn um að
reiðhjólabremsur hafi verið eyðilagðar vill Íslenski
fjallahjólaklúbburinn benda á að það að eyðileggja bremsur á hjólum
er nokkuð alvarlegra heldur en að vinna skemmdir á bremsum bíla!
Bílar eru hannaðir til að verja ökumenn þeirra og farþega ef
árekstur verður en á reiðhjólum er því ekki við komið, ... nema að
hafa góðar bremsur sem á reynir þegar virkilega á þarf að halda!
Sorglegt þykir okkur að aðal áhersla fjölmiðla um tilvikin hafi
verið að hamra á orðsendingu þeirri er send var foreldrum um að
ráðleggja þeim að hleypa ekki börnum sínum á hjólum í skólann frekar
en að benda á alvarleika málsins að af ásetningi hafi verið
eyðilagðar bremsur á fararækjum. Enn frekar þykir okkur
eftirtektarvert í ljósi hve alvarlegt atvik þetta er að þegar þessi
texti er skrifaður hefur atvikið ekki talist nægilega markvert af
hálfu lögreglunnar til að eyða einu orði á á fréttavef sínum.
Jafnframt hefur íslenska fjallahjólaklúbbnum borist erindi frá
verslunarstjóra Fjallahjólabúðarinnar GÁP en þeir hafi að undanförnu
fengið hjól inn til viðgerða þar sem losað hefur verið um
"quick-release" öxla sem heldur hjólunum á reiðhjólunum. Burt séð
frá því hvort hjólin séu nánast ónýt eftir þess háttar skemmdarverk,
að þá er það hrein mildi að eigendur hafi sloppið án teljandi
meiðsla. Nýjasta dæmið kom inn til þeirra í morgun. Því er hægt að
draga þá ályktun að þetta er ekki bundið við Melaskóla heldur er um
farald að ræða sem mun fyrr en síðar enda með alvarlegu slysi/slysum
ef ekki er reynt að hafa vakandi augu og eyru og hafa hendur í hári
þess(ara) aðila sem er greinilega alveg sama um líf og limi barna og
fullorðinna!
Stjórn Íslenska fjallahjólaklúbbsins harmar viðbrögð skólastjórnar
Melaskóla um að hvetja foreldra til að banna börnum sínum að fara á
reiðhjóli í skólann eftir að klippt hafi verið á bremsur reiðhjóla.
Ráð hefði verið að kenna krökkum að athuga vel hjólin sín áður en
þau hjóla af stað, (á líka og þegar kennt er til bílprófs að athuga
dekk, sæti, spegla og setja á öryggisbelti áður en ekið er af stað).
Vandamálið er ekki að börnin skuli koma á reiðhjólum í skólann
heldur aðstöðuleysi við geymslu á reiðhjólum við skólann.
Skólastjórn hefði þess í stað átt að fara fram á að byggð verði
hjólageymsla við skólann með eftirlitsmyndavélum fremur en að bæta
gráu ofan á svart með því að verða við áætluðum vilja
skemmdarvargs(a) með því að draga úr notkun reiðhjóla. Best hefði
verið að fullvissa foreldra um að markvisst yrði komið upp öruggari
hjólreiðastæðum og verja þar með eignir og heilsu nemenda.
Sú hreyfing sem skólabörn fá af göngu og hjólreiðum er þeim afar
mikilvæg. Ennfremur að skólabörn verði hvött til þess að fara á
reiðhjólum í skólann og þeim kenndar viðeigandi umferðareglur. Það
er heldur hart í ári þegar stuðlað er að því að letja börn til
hreyfinga og auka þar með bílaumferð og hættu við skóla sem ekki er
við bætandi.
Biðjum að lokum alla vel að lifa með ósk um að halda krökkunum
hraustum og ánægðum á sínum einkahjólum með athyglisgáfuna í lagi.
Sjáumst sem flest hress á sunnudaginn 9. september.
Stjórn Íslenska fjallahjólaklúbbsins
Brekkustíg 2
101 Reykjavík
www.mmedia.is/ifhk