Þann 27. nóvember 2006 var öllum frambjóðendum í forvali Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmum  og Kraganum sendur tölvupóstur með tveimur spurningum. Hljóðaði hún svona:
 

Kæri frambjóðandi.

Munt þú koma til með að beita þér fyrir því að hjólreiðabrautir komist í vegalög, svo hjólreiðar verði raunhæfur samgöngukostur í þéttbýli?

Kær kveðja
Heimir Viðarsson
 


Sæll Heimir

Takk fyrir fyrirspurnina, sem ég var að taka eftir á síðunni minni núna.
Ég mun svo sannarlega beita mér fyrir því að hjólreiðar geti orðið raunhæfur kostur í þéttbýli. Það fellur algerlega inn í stefnu okkar VG að stuðla að því að fólk geti hjólað meira frekar en að keyra alltaf. Það er líka mikilvægt að búa svo um að hjólreiðar verði raunhæfur kostur í framtíðinni þar sem við sjáum fram á að við íslendingar þurfum að taka þátt í því með alþjóðasamfélaginu að draga úr útblæstri CO2.
Það má vel vera að VG muni einnig beita sér fyrir því að afnema tolla af rafmagns og metangas- bílum til að það verði líka kostur sem fólk mun velja fram yfir annað í framtíðinni. Við munum nota allar þær leiðir sem við sjáum færar til að draga úr útblæstri CO2 hér á landi.

Það er gaman að geta þess að ég sjálf bjó í Danmörku um tíma, í um 6 ár, og þar fór ég flestra minna ferða á hjóli, en notaði einnig stundum strætó og lestar. Þar er menningin þannig að ótrúlegur fjöldi fólks hjólar til vinnu eða skóla eða hvað það nú er, þótt það taki jafnvel 20-30 mínútur eða lengur. Þar sá maður fólk í jakkafötum og drögtum á hjólum á leið til vinnu og mér fannst þetta alveg dásamleg menning og full af skynsemi. Þar er því reyndar þannig háttað að hjólreiðastígar eru út um allt, meðfram götum og alls staðar og inn í miðborginni kemst maður líka hraðar áfram á hjóli en á bíl. Það tæki auðvitað tíma að búa svo um að hér gæti slíkt verið raunveruleiki sem víðast um borgina og nágrenni hennar, en ég tel mikilvægt að vinna að því.

Ég vil líka geta þess að ég sé fyrir mér að koma fyrirraflest eftir stærstu umferðaræðunum, eins og frá Keflavík og inn til Kringlu og svo frá Mosfellsbæ og niður að Háskóla eða jafnvel niðrí miðbæ. Slíkt gæti líka komið sér vel fyrir hjólreiðafólk sem á langt að sækja í skóla eða vinnu, ef það væri á þessum æðum, þá gæti það tekið hjólin með sér í lestina og hjólað svo restina af leiðinni. Þetta gerði maður einmitt oft í Danmörku þegar maður þurfti að fara mjög langt.

En samgöngumálin eru eitt af því sem ég hef hugsað mér að beita mér fyrir, og þá alltaf í ljósi þess að draga úr útblæstri og vera með framsýnar lausnir. Ég tel XD vera á kolrangri braut með því að hugsa einungis um það að búa alls staðar til mislæg gatnamót og þar fram eftir götunum til þess að einkabílanotkun haldi áfram... réttara er að byggja upp kerfi sem fólk er tilbúið að nota þannig að ekki séu allir á einkabílum. Ég geri mér þó grein fyrir að það munu aldrei allir hætta að nota einkabílinn, en ég tel að vel sé hægt að draga úr umferð með því að bjóða upp á mun ódýrari en góða kosti í samgöngum. Kíktu endilega á forsíðuna hjá mér og sjáðu svör mín við spurningum kjósenda þar sem ég fjalla um samgöngumálin.

Andrea Ólafs.

www.andreaolafs.blog.is
 



Sæll Heimir

Ég er fullkomlega fylgjandi því að hjólreiðar verði raunhæfur samgöngukostur í þéttbýli og er til í að skoða alla möguleika svo að það megi verða að  raunveruleika, þar á meðal að setja hjólreiðabrautir í vegalög.

Ég ætlaði einmitt að vera mjög hagkvæm og umhverfisvæn í haust og hjóla  alltaf í vinnuna en endaði fljótlega með að leggja hjólinu þar sem mér  fannst ég nánast vera í lífshættu í götunum hérna í miðbænum. Á svipuðum  tíma var keyrt á mömmu mína upp á GANGSTÉTT en það sannfærði mig enn frekar að það þurfi að fara allrækilega í saumana á aðstæðum hjólreiðafólks.


Baráttukveðjur

Auður Lilja Erlingsdóttir

http://www.audurlilja.is/
 



Sæll vertu Heimir og takk fyrir að senda mér línu.

Já,- ég legg mikla áherslu á að ríkið og sveitarfélögin styðji við sjálfbærar samgöngur einkum hjólreiðar og almenningssamgöngur bæði til þess að draga úr umferð einkabíla og mengun af þeirra völdum en einnig til að þeir sem velja hjólreiðar sem samgöngumáta, geti verið öruggir á sinni vegferð.

Hjólreiðar eru umhverfisvænn og heilsusamlegur ferðamáti og til þess að þær geti orðið alvöru valkostur í samgöngum þarf að koma stofnbrautum fyrir hjólreiðar inn á vegaáætlun og tryggja að í skipulagsáætlunum sé gert ráð fyrir hjólreiðum.
Í þéttbýli þarf að rýma til fyrir hjólreiðabrautum og veita þeim forgang þannig  að þeir sem ferðast hjólandi þurfi ekki að vera úti í miðri bílaumferðinni eins og nú er. Á sama hátt þarf að tengja þéttbýlisstaði saman með neti hjólastíga þannig að hjólreiðamenn þurfi ekki að fara um þjóðvegina.

Við Vinstri-græn leggjum áherslu á að hjólreiðar verði viðurkenndur samgöngumáti og teknar inn í samgönguáætlun og á vegalög og höfum ályktað um það. Ég vil benda þér á þingsályktunartillögu frá í fyrra http://www.althingi.is/altext/132/s/0056.html en Kolbrún Halldórsdóttir var fyrsti flutningsmaður hennar. Ég á von á því að tillagan verði endurflutt á þessum vetri en meðflutningsmenn komu úr öllum þingflokkum.

Hvað varðar almenningssamgöngurnar þá lagði ég á dögunum fram frumvarp um endurg reiðslu á virðisaukaskatti af nýjum strætisvögnum, en ríkið hefur tekið 250-260  milljónir króna í virðisaukaskatt af 65-70 nýjum almenningsvögnum sem keyptir ha fa verið til landsins frá árinu 2001. Ef almenningssamgöngur sætu við sama borð  og hópferðafyrirtæki, þá hefðu 170 milljónir króna fengist endurgreitt af þessu  fé. Um það fjallaði frumvarpið mitt http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=133&mnr=338  Þessar 250 milljónir koma ekki fram sem tekjur í vegaáætlun, heldur runnu beint í ríkissjóð. Sama er væntanlega uppi á teningnum hvað varðar gjöld af reiðhjólum, en reiðhjól bera sýnist mér 10% toll og 24,5% virðisaukaskatt. Þessir fjármunir ættu að skila sér beint í úrbætur í  þessum efnum: Framkvæmdir við hjólreiðabrautir og bætt öryggi hjólreiðamanna.

Mig langar til aðs etja spurninguna og svarið inn á heimasíðuna mína,- hefurðu eitthvað á móti því??

Bestu kveðjur, Álfheiður.

Sjá www.alfheidur.hexia.net
 



„Það mun ég gera, enda fer ég sjálfur allra minna ferða á reiðhjóli og hef ekki haft bílpróf síðan það rann út þegar ég var 18 ára, árið 1981.

Elías Halldór Ágústsson
http://eliashalldor.blogspot.com/



Sæll Heimir og takk fyrir spurninguna

Já, það mun ég gera. Einkabílanotkun er gífurlega mikil á Íslandi, og eykst frá degi til dags. Hjólreiðar eru bæði umhverfisvænar og heilbrigðar. Því styð ég og mun beita mér fyrir málefnum um hjólreiðar.

Kveðja,
Emil Hjörvar Petersen
http://www.emilhp.blogspot.com/
 



Athugasemdir á síðunni hans
Svarið (skrifað sem færsla á síðunni)

Svona hljóðar athugasemd við seinustu færslu á þessari síðu. Ég verð að játa að mér finnst mun farsælla og gjöfulla að ræða við fólk beint, fremur en svona á síðu. Það er vegna ýmissa ástæðna.

Ég get samt svarað þessu, t.d. svona: Það skiptir gríðarlegu máli að fjölga samgöngukostum í þéttbýli, bæði að styrkja frekar almenningssamgöngur og einnig með hjólreiðabrautum. Ef það hjálpar til við að ná þeim markimiðum, já þá vil ég setja hjólreiðabrautir inn í vegalög. Það eitt og sér dugir nú samt varla til - en skref til framfara eru góð skref.

Gestur Svavarsson
http://www.gammur.blogspot.com/



Ágæti Heimir.
Ég er ennþá að læra á bloggsíðuna mína (kann ekki nærri alla fítusana s.s. svör við gestabók - læri það vonandi sem fyrsta á næstu dögum!), svo ég vil til að byrja með amk svara spurningu þinni í tölvupósti.

Ég er sjálf mikil hjólreiðamanneskja og sambýliskona mín fer nær alla sinna ferða hjólandi hér í bænum. Ég mun svo sannarlega beita mér fyrir því að gera hjólreiðasamgöngum eins hátt undir höfði og hægt er, enda finnst mér óþolandi hvernig allt miðast hér við bílaumferð - og meiri bílaumferð. Við eigum að setja almenningssamgöngur og hjólreiðar í forgang sem hluta af grundvallarvegakerfi höfuðborgarsvæðisins. Það er óþolandi hvernig ekkert tillit er tekið til hjólreiðamanna við vegaframkvæmdir - eða í umferðinni almennt. Góðar fyrirmyndir er t.d. að finna í Danmörku og Hollandi.

Stutt svar er sem sagt stutt og laggott: Já!

Vona að þú sért á sama máli!

Bestu kveðjur,
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
http://www.vglilja.blog.is/blog/vglilja/
 



Sæll Heimir og kærar þakkir fyrir spurninguna.
Í mínum huga er það engin spurning að auka þarf veg hjólreiðabrauta hér á landi  umtalsvert, bæði innanbæjar eins og við sem höfum komið að borgarmálum hjá VG hö fum haldið fram og svo ekki síst á milli þéttbýlisstaða. Ég get nefnt eitt dæmi  þar sem verulega skortir á hjólreiðabraut og það er við Reykjanesbrautina. Sjálfur á ég ættingja í Keflavík og hef margoft langað til þess að hjóla þangað en mér finnst það erfitt í ljósi þess mikla hraða og umferðarþunga sem þar fer um. Sama má segja um aðrar leiðir eins og t.d. Suðurlandsveg en hluta af þeim vegi hjóla ég stundum og mér finnst það ekki vænn kostur að vera á sama vegi og almenn bílaumferð. Það ætti í raun að vera hjjólreiðabraut meðfram velflestum ef ekki öllum vegum. Það hefur verið skoðun mín síðna ég bjó í Belgíu fyrir um 10 árum síðan en þar var hægt að ferðast um allt land á sérstökum hjólreiðabrautum.

Ég mun því hiklaust beyta mér í málinu fái ég tækifæri til.
Bestu kveðjur

Jóhann Björnsson
http://blog.central.is/johannbj



Sæll!

Svo er það spurningin: Ég hef unnið með Kolbrúnu Halldórs og fleiri góðum eins og Magnúsi Bergssyni í umhverfishópi Vg þar sem við höfum rætt mikið um hjólreiðar sem samgöngumáta og styð því tillögu Kollu eindregið um að hjólabrautir falli undir vegalög en hún hefur lagt fram tillögu um þetta á þingi. Ég tel líka mikilvægt að sveitarfélögin móti sér samgöngustefnu út frá ólíkum samgöngumátum og það gerðum við í Reykjavík þegar ég var þar í forsvari fyrir umhverfisnefndina, hluti af því er t.d. að hjólareinar liggi meðfram akbrautum og þær séu lagðar út frá stystu leið milli staða (en ekki bara sem frístundastígar). Þannig að: Já, það mun ég gera.

Og aukaspurningin... nú máttu velja þrjá í fyrsta sæti, þrjá í annað sæti o.s.frv. Þannig að er ekki tilvalið að velja okkur öll þrjú í fyrsta sæti? ;o)

Kær kveðja,

Katrín Jakobsdóttir
http://www.katrinjakobsdottir.is/wordpress/

 



Það hlýtur að vera í samræmi við umhverfisáherlsur flokksins að hjólreiðasamgöngur verði raunhæfur ferðamáti svo ég mun að sjálfsögðu vilja stuðla að því. Bílatraffík í borginni er líka allt of mikil með tilheyrandi mengun og slysatíðni, því ætti flest skynsamt fólk að geta verið sammála.

Kári Páll Óskarsson,
http://kommunan.is/kari/



Þú þekkir greinilega málið sem ég hef flutt nokkuð oft undanfarin ár.....
Svarið er því  "Já, ég mun að sjálfsögðu beita mér áfram fyir því að það nái í gegn og nú er raunar kominn liðslauki, því samgönguráðherra ætlar að setja áherslur af svipuðu tagi inn í næastu samgönguáætlun. Sjá umræðu um fyrirspurn frá vara þingmanni Sjálfstæðisflokksins frá því sl. miðvikudag: http://www.althingi.is/altext/133/11/l22140022.sgml

Kolbrún Halldórsdóttir
http://www.althingi.is/kolbrunh/



Takk kærlega fyrir góða spurningu:

Munt þú koma til með að beita þér fyrir því að hjólreiðabrautir komist í vegalög, svo hjólreiðar verði raunhæfur samgöngukostur í þéttbýli?

Svarið mitt:

Hjólreiðar eru afar umhverfisvænn og heilbrigður samgöngumáti. Ég hef og mun alltaf tala fyrir því að þættir í amstri hversdagsleika okkar verði ekki jafn umhverfisspillandi og þeir eru í dag. Þá á ég við mengun af völdum aksturs, rusl sem ekki er endurunnið, efnanotkun sem er óþörf osfrv. Ef hjólreiðabrautir yrðu að veruleika í vegalögum er ég sannfærð um að það væri mikil hvattning fyrir borgarbúa að nota frekar hjólið en bílinn. Ég efast þó um að lagabreytingin ein myndi gera hjólreiðar að raunhæfum samgöngukosti í þéttbýli, enda þarf að fylgja breytingunni eftir, vekja athygli á henni og kynna hana vel fyrir borgarbúum. Að því leiti er ég afar hlynnt þessari tillögu. Ég hef reyndar ekki áður hugsað út í það hvort ég myndi gera þetta að umtalsefni á Alþingi. Aftur á móti lofa ég þér, kjósandi góður, að leggja fram þetta mál ef ég verð þingkona fyrir Vinstri Græn á næsta kjörtímabili. Um leið þakka ég þér fyrir ábendinguna. Ég myndi aðsjálfsögðu skoða málið betur ef til þess kæmi og þá hef ég jafnvel samband við þig aftur.

Ef þú hefur fleiri spurningar, ekki hika við að hafa samband.

Kær kveðja
Kristín Tómasdóttir

http://www.kristintomasdottir.blogspot.com/



Sæll
Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hjólreiðabrautir komist í vegalög, svo hjólreiðar verði raunhæfur samgöngukostur í þéttbýli.

Kveðja,
Kristján Hreinsson
http://kristjanh.blog.is/blog/kristjanh/
 



Sæll Heimir,
ég get sedm stendur eingöngu svarað þér persónulega!

Þetta er eitt af þeim atriðum sem mér finnst algerlega ábótavant hér á landi... hef sjálf búið í Þýskalandi þar sem unaður er að hjóla  eftir þar til gerðum götum! Svo ég segi já ef ég fæ einhverju ráðið !


Mireya Samper

www.mireya.is/wp/

 



„Ég sendi þér svarið sem ég svara á blogginu.
Ég tel að hjóreiðar séu mjög sniðugur kostur í samgögnum og ég tel einnig að hjólreiðar eigi ekki við um bíla þannig að ég er mjög hlyntur því að efla hjólreiðastíga, auk annara aðferða sem minnka bílanotkun íslendinga.

Ólafur Arason

http://www.olafura.com/

 



Sæll Heimir

Takk fyrir þessi spurning. Svarið mitt er já, auðvitað. Sem blaðamaður gert  ég rannsókn um skipulagsmál Reykjavíkur og það sem kom mér mest á óvart er  hversu mikið bílaborg Reykjavík er. 50% svæðinum er notað í þjónusta  bílsins, á meðan strætokerfi er að tapa fé og hjólreiðabrautir eru ekki til.

Sem alþingismaður myndi ég krefst þess að fleiri hjólreiðabrautir komist í  vegalög, sérstakalega í miðbæinn. Líka ætli ég að leggja fram áherslu á að  skapa fleiri gönguleiðir, og að bílanotendar borga sérstök gjáld til að  keyra bílinn sinn niður í bæinn um morgnanna og kvöldum, till þess að minnka  umferðinum, hreinsa loftinum, og borga fyrir skemmning á veginum sem er  nattúralega hluti af bílaumferðinum.

Takk fyrir,

Paul F. Nikolov
http://www.paulfnikolov.blogspot.com/
 



Steinar Harðarson

„Ég hef fengið fyrirspurn um það hvort ég muni beita mér fyrir því að hjólreiðabrautir komist á vegalög og hvort ég líti á hjólreiðar sem raunhæfan samgöngukost í þéttbýli. Ég skal með ánægju svara því:

Ég er mjög fylgjandi því að hjólreiðabrautir komist á vegalög og tel að hjólreiðar séu sannarlega raunhæfur samgöngukostur í þéttbýli. Það væri gott skref í þá átta að draga úr ókostum einkabílastefnunnar. Hjólreiðar eru umhverfisvænn samgöngumáti, laus við mengun og laus við þá orkusóun sem er fylgifiskur einkabílastefnunnar.

Steinar Harðarson
http://steinarh.blog.is/blog/steinarh/
 



Sæll Heimir,

Jú ég er frambjóðandinn Steinunn og já það er búið að vera bölvað vesen með kaninkuna. Mér er þó tjáð að hún eigi að fara að komast aftur upp. Ég vona svo sannarlega að svo verði.

Varðandi spurningu þína þá tel ég mjög þarft að menn beiti sér fyrir því að koma hjólreiðum á kortið sem raunhæfum samgöngukosti í þéttbýli. Þetta er tiltölulega ódýr, umhverfisvænn og heilsusamlegur samgöngumáti og því mikilvægt að honum sé haldið á lofti og að gert sé ráð fyrir honum í vegaáætlunum.

Ég viðurkenni að ég hef ekki gert hjólreiðar og umhverfi þeirra að einu af helstu baráttumálum mínum - svona er ég sjálfhverf en ég hef ekki sest upp á reiðhjól í um 10 ár vegna jafnvægisleysis sem fylgir taugasjúkdómi sem ég er með. Það er hinsvegar léleg afsökun fyrir manneskju sem vill að mark sé tekið á henni sem stjórnmálamanni að hún beiti sér ekki í málum sem snerta hana ekki persónulega.

Ég mun því í framtíðinni taka mig á og auka þekkingu mína á málefnum hjólreiðamanna og leggja mitt af mörkum til þess að hjólreiðabrautir komist í vegalög.

Ég myndi vilja sjá að hjólreiðastígar væru lagðir samhliða öllum nýjum vegum og að búið verði til pláss fyrir hjólreiðamenn við eldri vegi. Betri aðbúnaður til hjólreiða myndi vonandi draga úr einkabílisma og draga þannig úr þeirri mengun sem honum fylgir.

Kveðja,
Steinunn Þóra Árnadóttir
http://kaninka.net/steinunnthora/
 


„Já!"
Með bestu kveðju,

Þórir Steingrímsson

http://www.thorir.is
 



Ögmundur Jónasson

Sæll. Erindi þínu svara ég játandi. Til þess að fá hjólreiðastíga inn í samræmda samgönguáætlun verða stígarnir að vera inni í vegalögum sem hluti samgöngukerfisins, þar með yrðu þeir eyrnamerktir inn í fjárlög. Þessu til viðbótar þarf að gera ráð fyrir hjólreiðastígum inní skipulagslög sem eðlilegum þætti í samgöngumálum hvers sveitarfélags.

Kveðja,
Ögmundur Jónasson

http://www.ogmundur.is/
 


Árni Þór Sigurðsson,

Spurning sett fram í gestabók á bloggi:

http://arnith.blog.is/blog/arnith/guestbook/

 



Benedikt Kristjánsson

Spurning sett fram í gestabók á bloggi:

http://www.blog.central.is/benedikt_?page=guestbook

 



Sveinbjörn Markús Njálsson

Spurning sett fram í gestabók á bloggi:

http://smn.blog.is/blog/smn/
 



Friðrik Atlason

Spurning sett fram í gestabók á bloggi:

http://fred.blog.is/blog/fred/