Eimskip og Kiwanis gefa öllum 7 ára börnum reiðhjólahjálma

Á næstu vikum mun Kiwanishreyfingin gefa öllum börnum í 1. bekk í grunnskólum landsins reiðhjólahjálma. Um er að ræða sérstakt átak í samvinnu Kiwanishreyfingarinnar og Eimskips en auki nýtur verkefnið aðstoðar Lýðheilsustöðvar. Alls verður 4.500 reiðhjólahjálmum dreift í ár og er heildarverðmæti verkefnisins um 23 milljónir kr.

“Eimskip leggur mikla áherslu á öryggismál í allri sinni starfsemi og vill með þessum hætti leitast við að miðla þeirri áherslu út í samfélagið,” sagði Hanna Katrín Friðriksson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Eimskips. “Börn þurfa sem fyrst að verða meðvituð um mikilvægi öryggis í umferðinni og við hjá Eimskip erum stolt af því að vera þátttakendur í þessu nauðsynlega verkefni”

Verkefnið nýtur einnig ráðgjafar og stuðnings Herdísar Storgaard, verkefnisstjóra Árvekni-barnaslysavarna hjá Lýðheilsustöð. “Þetta er frábært tækifæri til að vekja athygli á mikilvægi þess að börn noti reiðhjólahjálma rétt, en foreldrar verða að taka þátt í þessu með okkur og fylgja því eftir”.

Kiwanisfélagar fara í alla grunnskóla á landinu og afhenda börnunum hjálma og ræða við þau um umferðaröryggi og notkun hjálmanna. Að auki fá börnin fræðsluefni um rétta stillingu og notkun hjálma til að taka með sér heim.

Nemendur í 1. bekk í Engjaskóla, Borgarskóla og Víkurskóla voru fyrstu börnin til að fá afhenta reiðhjólahjálma í ár en það var Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem afhenti hjálmana. “Það er skemmtilegt og hollt að hjóla. Allir verða að vera með hjálma, líka fullorðnir. Það er töff að vera með hjálm”.

Athygli á alþjóðavettvangi
Þetta árið verða þúsundir íslenskra skólabarna öruggari í umferðinni með hjálma merkta Eimskip og Kiwanis. “Það er Kiwanishreyfingunni mjög mikilvægt að fyrirtæki í landinu sýni verkefni sem þessu áhuga og stuðning,” sagði Ástbjörn Egilsson, fulltrúi Kiwanishreyfingarinnar. “Þetta verkefni hefur vakið mikla athygli víðsvegar um heim og eru dæmi þess að erlendir aðilar hafi tekið það upp, meðal annars í Bandaríkjunum.”

Forsagan
Mörg undanfarin ár, eða allt frá árinu 1990, þegar Kiwanisklúbburinn Kaldbakur á Akureyri hóf að gefa skólabörnum hjálma, hafa klúbbar víðsvegar um landið gert slíkt hið sama, hver á sínu svæði. Verkefnið hefur þá verið fjármagnað með framlagi úr styrktarsjóði eða með aðstoð ýmissa fyrirtækja. Víða um land var kominn skemmtilegur bragur á verkefnið, eins og t.d. á Akureyri þar sem efnt var til „Hjálmadags“ þar sem mikið fjör og ánægja ríkti þegar börnin mættu til að taka við sínum hjálmi.

Fyrir tveimur árum tók Kiwanishreyfingin höndum saman við Eimskip um reiðhjálmaverkefni á landsvísu og tókst það svo vel að það er nú í gangi þriðja árið í röð.

Mikilvægi þessa verkefnis sýndi sig greinilega sumarið 2005 þegar ungur drengur á Ísafirði var við leik á línuskautum og skall með höfuðið í jörðina. Drengurinn var með hjálm. Höggið var það mikið að hjálmurinn brotnaði en þó hlaut drengurinn engan skaða af. Hjálminum sem um ræðir var dreift á vegum Kiwanis og Eimskips árið 2004.

Frétt fengin af vef Eimskips