Skipulagsdagur um útivist
Hestar, hjól og menn samferða í sátt
Laugardaginn 9. mars 2002 sóttu Landssamtök hjólreiðamanna mjög vel heppnaðan fund með hestamönnum, ráðgjafaþjónustu Alta, Skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar auk annarra sem vinna í útivistarmálum í austurhluta Reykjavíkur. Fundir af þessu tægi eru nýlunda hér á landi og eiga að uppfylla skilmála Staðardagskrá 21 (SD21) þar sem íbúar eiga að koma að frumdrögum skipulagsmála. Var fundurinn haldinn í félagsheimili Fáks í Víðidal. Hófst hann kl. 10 um morguninn og stóð til klukkan rúmlega 17:00 Af hálfu hjólreiðamanna sóttu Magnús Bergsson, Björn Finnsson og Morten Lange fundinn. Upphaf fundarinns má rekja til árekstra milli hestamanna og annars útivistarfólks á nýlögðum stígum frá Víðidal og upp í Heiðmörk. Á fundinum átti að finna leiðir til að laga þessi mál í nútíð og framtíð.
Fundurinn var mjög vel skipulagður og vel sóttur þá sérstaklega af hestamönnum. Hófst hann með því að allir skrifuðu á miða þau vandamál sem menn höfðu staðið frammi fyrir. Sama fyrirkomulag var haft um draumana, þ.e. hvers menn óskuðu sér. Því næst töldu menn upp lausnir á vandamálunum. Svo hófst hópavinnan þar sem menn reyndu að setja raunhæfar lausnir á kort sem hóparnir síðan kynntu.
Hjólreiðamenn voru sammála hestamönnum að ekki gengi
að hræra saman umferð hesta og annarra vegfarenda. Niðurstaða þessa
fundar var því sú að fækka mátti þverunum útivistarstíga við hestastíga
úr u.þ.b. átta í tvær. Gera þurfti ný göng fyrir útivistarstíginn
undir Breiðholtsbraut og útbúa gil fyrir hestamenn frá hesthúsabyggðinni að
undirgöngunm. Þannig mátt leggja útivistarstíginn yfir reiðstíginn með
brú. Frá undirgöngunum myndu stígarir svo liggja samhliða með hæfilegu
millibili austur í Heiðmörk. Við Rauðavatn væri útivistarstígurinn færður
suður fyrir Suðurlandsveg og tengdist undirgöngum niður undir Næfurási.
Ekki virtust hestamenn hrifnir af tillögu hjólamanna að venja hesta sína
reiðhjólum (temja og rækta hjólhesta). Hins vegar komu hjólreiðamenn þeirri
skoðun nokkuð skýrt til skila að ef hannaðar hefðu verið hjólreiðabrautir
samhliða akbrautum hefði líklega ekki komið til þessara árekstra. Hanna þyrfti
hjólreiðabraut sem tengdi Víðidalinn við núverandi akveg austur að Nesjavöllum.
Þar sem umferð bíla færi yfir vissan fjölda út á landi þyrfti að
malbika, breikka og merkja vegaxlir t.d. austur um Hellisheiði og vestur að
Hvalfjarðagöngum. Alls staðar þar sem nýir vegir væru hannaðir væri gert
ráð fyrir hjólreiðabrautum strax í upphafi. Þær þyrftu að vera beinar
og greiðar og reynt væri að leita allra leiða til að jafna út hæðamismun
í landslagi, sem best væri að gera með því að hafa hjólreiðabrautir
samhliða akbrautum. Þannig gætu hjólreiðar fyrst orðið valmöguleiki í
samgöngum á sama tíma og þær nýttust til útivistar.
Það er von okkar sem sóttu þennan fund að eitthvað af okkar hugmyndum verði að veruleika og að svona fundir verði ávallt haldnir í framtíðini með hagsmunaaðilum svo ekki komi til samskonar klúðurs og með útivistarstígana í Víðidalnum.
Ekki verður stígunum breytt næsta sumar heldur verðum við að varast hætturnar sem á þeim eru. Útbúin verða skilti sem vara aðallega hjólandi og gangandi við umferð hesta á svæðinu. Þarna eru hættulegar slysagildrur eins og blindhorn og þurfum við sem geysumst á hjólum frá Víðidal upp í Heiðmörk að sýna mikla aðgæslu. Við skulum svo vona að slysin verði ekki alvarleg þangað til stígarnir verða lagðir á réttan hátt.
MB
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
|
![]() |