Fréttatilkynning
6. febrúar 2002
Umferðaröryggisáætlun 2002 - 2012
Skýrsla starfshóps dómsmálaráðherra
Dómsmálaráðherra skipaði í nóvember síðastliðnum starfshóp sem falið
var að ljúka gerð umferðaröryggisáætlunar til ársins 2012. Í starfshópnum eru þeir Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í
Reykjavík, Rögnvaldur Jónsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar og Óli H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Umferðarráðs,
sem er formaður starfshópsins.
Meginmarkmiðið sem starfshópurinn setur fram er að Ísland verði fyrirmyndarland í umferðaröryggismálum fyrir árið 2012. Stefnt verði að
því að banaslysum og öðrum alvarlegum slysum fækki um a.m.k. 40%
fyrir lok tímabilsins 2012. Það þýðir að ekki fleiri en 120 slasist alvarlega
eða látist í umferðarslysum á ári. Langtímamarkmið til ársins 2025 er svo
að ekki fleiri en einn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysi í viku
hverri árið 2025, eða 52 á ári.
Helstu áhersluatriði til að ná þessum markmiðum eru m.a. að komið verði
á markvissari skipan umferðaröryggisstarfsins og að hlutverk allra aðila verði vel skilgreint og fylgst verði reglulega með framgangi mála.
Starfshópurinn leggur til að markviss framkvæmdaáætlun verði gerð til næstu 11 ára og henni fylgi áætlun um aukið fjármagn til þessa
málaflokks. Öruggari hraði er eitt af grundvallaratriðum til að ná settum markmiðum, ásamt notkun bílbelta og annars öryggisbúnaðar. Einnig
verði stefnt að því að bæta enn frekar menntun nýliða í akstri og koma á
markvissri endurmenntun fyrir þá sem þegar hafa öðlast ökuréttindi. Áfengi, lyf og þreyta eru þættir sem miklu máli skipta. Þar er m.a. lagt til
að refsimörk vegna ölvunaraksturs verði lækkuð úr 0,5 prómillum í 0,2. Mikilvægir þættir í umferðaröryggi eru öruggari vegir, götur og umhverfi
vega. Þá þarf að skoða með hverjum hætti hægt er að auka forvarnir, styrkja löggæslu
og gera hana markvissari og gera fullnustu umferðarlagabrota skilvirkari.
Möguleikar á að ná þessum markmiðum byggjast algjörlega á því hvort hægt verði að auka vitund allra um mikilvægi umferðaröryggis og þess
að vinna samkvæmt þeim aðferðum sem um er rætt í skýrslu starfshópsins. Til viðbótar við þá meginþætti sem fyrr eru nefndir gerir
hópurinn tillögu um ýmsa aðra þætti. Má þar nefna eflingu almenningssamgangna, að bónuskerfi tryggingafélaga verði í auknum
mæli nýtt í forvarnaskyni, að málefni breyttra bifreiða verði skoðuð með
tilliti til umferðaröryggis og að allar vinnuvélar sem ekið er í almennri umferð séu skráðar og ábyrgðartryggðar.
Heildarkostnaður íslensks þjóðfélags vegna umferðarslysa er um 17 til 20 milljarðar á ári, eða um 60-70 þúsund á hvern Íslending, 240-280
þúsund á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ljóst er því að til mikils er að
vinna því að með eins prósents fækkun slysa lækkar kostnaður um 170 til 200 milljónir króna á ári.
Umferðaröryggisáætluninn (pdf 1.369 KB)