Tölvupóstur sendur til stjórnar eftir samgönguþing á Hótel Selfossi 5. apríl 2006

 

Sælt veri fólkið.


Það er nokkur léttir að samgönguþingið er yfirstaðið. Ég og Heimir mættum. Morten komst ekki vegna anna. Heimir var sá eini sem skráður var á þátttökulistann þó við hefðum allir skráð okkur. Á borðum var hægt að fá 7 blaðsíðna úttekt af samgönguáætlun. Eingöngu ræðumenn höfðu fengið fulla útgáfu upp á 60 bls. Mér tókst því ekki að kynna mér samgönguáætlunina fyrir fundinn eins og ég hefði helst viljað gera.
Þetta var nú meiri samkoman. Þarna var samankominn stór hópur miðaldra karlmanna með bíladellu og skoðun þeirra á samgöngum líklega mjög sjálfhverf. Það má því segja að fremur þungt loft hafi verið á staðnum.
Af öllum ræðumönnum sem þarna voru, voru það líklega aðeins tveir eða þrír sem stóðu upp úr með áheyrilegar ræður. Hartmut H. Topp kom nokkuð víða við. Sagði að leggja ætti meira upp úr fjölbreyttum samgöngum og fjallaði þar nokkuð um Car shearing (CarS). Hann benti líka á nýja gjaldtökuleið með GPS búnaði. Hartmut var því nokkuð á skjön við Sturlu Bö og Ingimund formann Samgönguráðs sem vildu lofa lægri gjöldum, greiðari og öruggari vegum fyrir vélvædda umferð.
Svo verður að minnast á hagfræðinginn Axel Hall sem líklega fær kaup frá Samgönguráðuneytinu. Hann fjallaði um samgöngur í samhengi við kostnaðaráhættugreiningu, kostnað og ábatagreiningu, multi cretenia analys og félagshagfræðilega greiningu samgangna. ......Hmmm? Allt mjög heimskulegt á meðan útkoman í samgönguáaætlun er ekki betri en þetta.
Birna Lárusdóttir frá Ísafirði sem var næstsíðust á mælendaskrá, sagðist hafa fengið 60 bls. drög að samgönguáætlun. Hún var svo sem ekki yfir sig hrifin af framsetningu hennar, mikið um endurtekningar. En hún var sú fyrsta og eina sem sagði að í samgönguáætlun mætti finna MJÖG GÓÐA NÝBREYTNI. Það er “að samgönguáætlun legði til að göngu- og hjólastígar yrðu kostaðir af ríkinu eins og reiðvegir”. Íhaldið er sem sagt búið að setja inn svo til orðrétta ályktun af landsfundi sínum s.l. haust um hjólreiðar.
Þetta sló gersamlega vopnin úr hendi mér því ég var búinn að semja ræðu út frá því að ekkert væri fjallað um hjólreiðar í samgönguáætlun. Það var fremur erfitt að hallmæla einhverju sem ég hafði ekki kynnt mér að fullu. Það var fremur dæmigert af hálfu Samgönguráðuneytisins að hjólreiðar voru ekki meira metnar en það að ekki þótti nauðsynlegt að nefna þær í sjö blaðsíðna úttekt sem lá til kynningar fyrir almenning.
Árni Þór kom síðastur og fjallaði vitaskuld mikið um Faxaflóahafnir og allnokkuð um hjólreiðar án þess þó að krefja Samgönguráðuneytið um skýrari aðkomu ríkisins við gerð hjólreiðabrauta. Hann var heldur ekki skárri en þeir hjá Samgönguráðuneytinu að tala um göngu- og hjólastíga sem einn og sama hlutinn.

Undir lokin komu bara tvær fyrirspurnir úr sal. Önnur var um arðsemi vegaframvæmda og hin kom frá mér. Þar spurði ég Ingimund í því ljósi að það eina sem ég vissi um hjólreiðar í samgönguáætlun hefði verið það sem Birna Lárusdóttir hefði nefnt í sinni ræðu. Mér þótti það fremur þunnt og spurði hvort ekki þyrfti að skilgreina betur hjólreiðabraut frá gangstéttum.

Ingimundur svaraði því að það væri ekki skilgreint sérstaklega en benti á að þarna væri um að ræða sambærilegan stuðning og við reiðvegi. Ég hitti svo Ingimund frammi á gangi og þá sagði hann að þetta væri bara tillaga. Ef af hjólreiðabrautum ætti að verða þá þyrfti að koma til lagabreyting (engin nýmæli). Ég benti svo honum á að það væri ákaflega mikilvægt að skýra verklagsreglur milli ríkis og sveitafélaga í þessu máli og því væri nauðsynlegt að taka á því með skýrari framsetningu í samgönguáætlun.
Það er líklegt að við séum komin upp um eina tröppu í okkar baráttu. Nú ættum við að hjálpa þeim í samgönguráði og semja kaflann um hjólreiðabrautir. Það myndi gera samgönguáætlun mun ferskari. Ég óttast hins vegar að ekki verði tekið á móti neinum ráðleggingum ef ekki hefur verið um það fjallað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ég sé svo að við þurfum að fá einhvern til að mæta með vel orðaða ályktun á næsta landsfund sjálfstæðismanna. Þeir stjórna þessu öllu eins og þeir hafa gert alla sína tíð eins og best sést á útkomunni.

Allar glærur ræðumanna má nálgast á vef Samgönguráðuneytisins.

Kveðja,
Mberg