Landsfundur Vinstri grænna dagana 21. til 23. nóvember 2005

 

Formáli.

Þar sem það er ekki alveg ljóst hvað landsfundur VG hefur að gera í fundargerð LHM þá verður að upplýsa að þetta er í fyrsta skiptið sem hjólreiðamenn gera tilraun til að koma málefnum sínum á framfæri með því að ganga til liðs við stjórnmálaflokk. En hvers vegna var ekki gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn sem farið hefur með samgöngmál á Íslandi meira og minna síðastliðna áratugi? Að mati undiritðas snýst pólitík ekki bara um hjólreiðabrautir og þar sem hann telur Sjálfstæðisflokkinn hafa rangt gildismat gekk hann til liðs við þann flokk sem honum þótti bestur.

Mikilvægt er að allir sem áhuga hafa á því að vinna að visvænum samgöngum eins og hjólreiðum í öðrum stjórnmálaflokkum gefi sig fram. Málefnið á ekki að vera flokkspólitískt. Með því að hafa skýra stefnu náum við á endanum eyrum ráðamanna.

Það sem hér birtist fyrir neðan er skýrsla Magnúsar Bergssonar  til stjórnar LHM um það sem gerðist á Landsfundi VG.


Sælt veri fólkið.


Þá er landsfundur VG búinn. Annað eins hef ég ekki lent í. Mikið fjör og mikið gaman

Það kom mér á óvart hvað minar tillögur um vistvænar samgöngur komust langt þó ég ætti í stökustu erfiðleikum með að klóra mér í gegn um fundarsköp sem allir virtust þekkja og skilja nema ég. Ég virðist hafa góðan stuðning í því sem ég hef fram að færa og tengist samgöngum eða umhverfisvernd.. Allavega var minnst á samgöngumál VG í MBL um helgina og er ég nokkuð sáttur með það.
Það var unnið með undraverðum hraða á þessum fundi. Ég hefði þó viljað sjá meiri umræðu um umhverfismál ekki síst þar sem í alþjóðasátmálum ná gróðurhúsalofttegundir ekki til skipa og flugvéla og margt fleira. En tíminn var naumur
Ég hefði annars viljað sjá svona vinnubrögð hjá okkur hjólamönnum. Hvaðan kemur allt þetta hörkuduglega fólk? Ég skil ekki af hverju ég var ekki búinn að fara í pólitík fyrir mörgum árum því þarna gerast hlutirnir.
Það skal tekið fram að tillaga mín komst lika að í Stjórnmálaályktun.  Önnur mál sem ég skipti mér af var t.d. forræðismál einstæðra feðra og umhverfismál. Í umhverfismálum var niðurstaða sú að endurskoða málaflokkin fyrir næsta landsfundi enda var ég sem og fleiri ekki sáttur með efnistök og margt þarf að skoða sem ég hef ekki fullkomið vit á.

Fyrsta ályktun sem ég setti í ályktunarhóp hljóðar svo.

 

Drög að ályktun nr 1

Umhverfisvænar samgöngur

Landsfundur Vinstri grænna leggur áherslu á að hjólreiðabrautir verði skilgreind og þeim fundin staður í vegalögum. Nauðsynlegt er að hjólreiðar verði raunhæfur valkostur í samgöngum og að verklagsreglur milli ríkis og sveitarfélaga verði skýrar og samræmdar. Er það í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Samtímis verði hafist handa við endurskoðun umferðarlaga þannig að öryggi vegfarenda verði bætt til samræmis við breytta samgöngustefnu.

Í ört vaxandi borgarsamfélagi er ákaflega mikilvægt að almenningur eigi kost á vistvænum og heilbrigðar samgöngur.  Greiðar og öruggar hjólreiðabrautir munu stuðla að aukinni notkun reiðhjóla sem samgöngutækis. Þær munu draga úr hávaða- og loftmengun, bæta lýðheilsu, minnka umferðatafir á álagstímum og auka lífsgæði borgarbúa. Þær munu að sama skapi stuðla að bættri landnýtingu og aukinni arðsemi akbrauta vegna minna slits og aukinnar afkastagetu. Sérstakar afmarkaðar hjólreiðabrautir munu auka öryggi gangandi vegafrenda þar sem hröð umferð hjólreiðamanna mun færast af gangstéttum yfir á hjólreiðabrautirnar. Þá mun einnig verða rýmra um þá sem í raun þurfa á akbrautum að halda.

 ____________________________________________________
 

Drög að ákyktun nr 2
 

Almenningssamgöngur

Landsfundur vinstri grænna hvetur til þess að virðisauka- og þungaskattur verði felldur niður af almenningssamgöngum. Einnig er mikilvægt að ríkið taki þátt í kostnaði við stofnkerfi almenningssamgangna ekkert síður en gatna- og vegakerfi fyrir almenna bílaumferð.

Vegna mikilvægi þess að efla almenningssamgöngur er ljóst að stjórnvöld verða að koma til móts við erfiðan rekstur þeirra. Með minni álögum ríkisins má efla og bæta þjónustustig slíkra samgangna sem því nemur.

 ________________________________________________________________________
 

Ályktunarhópi barst svo önnur tillaga en ómerkt um að lækka skatta á "vistvænni" bílum (sá ekki tillöguna en var búin að heyra hana nefnda af UVG manni í ræðustól).


________________________________________________________________________
 

Eftir meðhöndlun Ályktunarhóps hljóðaði hún svo og hlaut hún öll greidd athvæði á fundinum
 

Umhverfisvænar samgöngur  (endanleg ályktun)

Mikilvægt er að almeningur hafi val um vistvænar og heilsusamlegar samgöngur. Greiðar og öruggar almenningssamgöngur, hjólreiðabrautir, og notkun vistvænna orkugjafa í samgöngum munu draga úr hávaða- og loftmengun og bæta lýðheilsu.

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hvetur til þess að skattar verði felldir niður af almenningssamgöngum. Einnig er mikilvægt að ríkið taki þátt í kostnaði við stofnkerfi almenningssamgangna og hjólreiðabrauta, ekkert síður en gatna og vegakerfis fyrir almenna bílaumferð.

Umbuna skal þeim sem nota umhverfisvæna orkugjafa. Lagt er til að skattar og tollar verði lækkaðir á umhverfisvænar bifreiðar og boðið uppá gjaldfrjáls bílastæði fyrir þær. Með þessu móti má draga úr mengun í umferðinni.

Áhersla er lögð á að sett verði ákvæði um hjólreiðabrautir í vegalög þannig að hjólreiðar verði raunhæfur valkostur í samgöngum.

 ________________________________________________________________________
 

Svona eftir á að hyggja þá hefði ég viljað hnykkja á lokasetninguni. En ég gerði þau mistök að vera ekki í ályktunarvinnuhópnum. Ég hefði viljað sjá orðalagið svona:

......"Sérstök áhersla er lögð á að sett verði ákvæði um hjólreiðabrautir í vega- og umferðarlög þannig að hjólreiðar verði raunhæfur valkostur í samgöngum"......

Ég geri bara ráð fyrir því að það verði hægt koma með nýja og endurbætta ályktun á næsta landsfundi VG sem verður fyrir alþingiskostningar vorið 2007. Ég lærði ýmislegt um vinnubrögð á svona landsfundum og vonast til að hafa vaðið fyrir neðan mig fyrir næsta landsfund.  Þá vona ég að á fundinum verði fleira hjólreiðafólk til að taka eftir svona textarugli sem ég á ekki auðvelt með að sjá í hita leiksins.  Vonast þó til þess að þess gerist ekki þörf þar sem allt verði þá komið til framkvæmda.

Munum að XD er búinn að álykta um hjólreiðabrautir svo nú er bara að hjóla í þá í samgönguráðuneytinu. Sem dæmi, hef ég frétt að Árni Finnsson sé nú alla daga niður í svokölluðu umhverfsráðuneyti að minna svokallaðan umhverfisráðherra á stefnuyfirlýsingu XD.

Sjáfstæðismenn hafa liklega aldrei eytt jafn mörgum orðum í hjólreiðamenn eins og á síðasta landsfundi og ber að fagna því. Áliktun þeirra hljóðar svo:

"Til að tryggja megi greiðari umferð gangandi og hjólandi vegfarenda hvetur landsfundur til átaks við gerð göngu- og hjólreiðastíga um leið og lagt er til að slík stígagerð meðfram þjóðbrautum verði alfarið á hendi ríkisins líkt og reiðvegir. Til að efla hestamennsku er hvatt til að fylgt verði eftir framkvæmdaáætlun um uppbyggingu reiðvega".

Kveðja
Mberg