3. fundur stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna 17.09.2000

Fundurinn var haldinn með stuttum fyrirvara og var ljóst þegar boðað var til hans að tíminn hentaði stjórnarmönnum misvel. Fundurinn var engu að síður haldinn til að vinna að athugasemdum um deiliskipulag Miklubrautar milli Kringlumýrarbrautar og Grensásvegar, sem þurfti að skila tveimur dögum síðar.


Mættir voru: 
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir (gle), Haraldur Tryggvason (HT), Magnús Bergsson (MB). Einnig var mættur Morten Lange til áheyrnar.
Arnþór Helgason (AH), Gunnlaugur Jónasson (GJ), Magnús Már Halldórsson (MMH) og Óskar Dýrmundur Ólafsson (ÓDÓ) boðuðu forföll.


Ritari á fundinum í fjarveru Arnþórs var Guðbjörg Lilja.


Þingsályktunartillaga:

Ekkert hefur verið gert í því í sumar annað en að HT pantaði tíma hjá samgöngunefnd fyrir LHM og ÍFHK. Nánari tímasetning kemur í ljós þegar þing kemur saman.

HT hringdi einnig í Ísólf Gylfa sem flutti þingsályktunartillöguna á síðasta þingi. Hann vill gjarnan halda áfram að vinna að þessum málum en hann kemur ekki í bæinn fyrr en við þingupphaf.

Á síðasta fundi var ákveðið að GJ, MMH og HT vinni að tillögunni í samstarfi við ÍFHK.

Rætt var mikilvægi þess að standa vel á þessu og rökstyðja mál okkar vel. Til þess að það megi vera þarf að safna gögnum, t.d. 

rökstuðning hestamanna fyrir því að Vegagerðin leggi reiðstíga.
B  frá Hollandi (MB er í sambandi)
C  efni frá vinnu fyrir síðasta þing.

Opninn fundur:

Hugmynd kom um að halda opinn stjórnarfund í LHM. Til að fá gefa fólki tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og heyra að hverju LHM eru að stefna. Ákveðið var að stefna að þessu um miðjan október.

Breikkun Miklubrautar:
MB kynnti athugasemdir sem hann hafði unnið um fyrirhugaða breikkun Miklubrautar milli Kringlumýrarbrautar og Grensásvegar. 
Athugasemdirnar verða sendar Umferðar- og skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar fyrir 20. september.

Umferðar- og skipulagsnefnd:
Í kjölfar umræðu um breikkun Miklubrautar var rætt hvort ekki væri rétt að hjólreiðamenn ættu fulltrúa í umferðar- og skipulagsnefnd. Athuga þarf nánar hvort ekki eigi að skrifa borgarráði bréf þess efnis.

Reykjanesbraut:
Rætt var hversu hættulegt það er hjólreiðamönnum ef bílar eru farnir að nota vegaxlir Reykjanesbrautar til framúraksturs. Fyrir skömmu varð óhapp vegna þessa þegar bíll ók fram úr öðrum bíl sem var að taka fram úr rútu. Menn hafa einnig notað þær til að taka framúr hægramegin.
Rétt væri að rita yfirvöldum bréf þar sem bent væri á möguleikann á að merkja vegaxlirnar sem hjólreiðastíg, t.d. með því að mála hjól á með jöfnu millibili.

Umhverfisdagur Reykjavíkurborgar - bíllaus dagur:
Sá dagur verður 22.september. Reykjavíkurborg ætlar lítið sem ekkert að gera úr þessum degi í ár og of seint er fyrir okkur er að vekja athygli á honum. Samþykkt var að ræða við Borgina tímanlega fyrir næsta ár með hugmynd að samstarfi á þessum degi.

Hjólreiðar í skóla
Rætt var hversu bagalegt það er að börn og unglingar skulu ekki geta og oft ekki mega hjóla í skóla. Þess í stað eru þau oft keyrð sem skapar óþarfa umferð og slysahættu í kringum skólana. Auk þess myndu vera meiri líkur á því að börn og unglingar vendust á að nota reiðhjólið sem samgöngutæki. Koma þyrfti upp aðstöðu við skólana til að geyma hjól svo að hægt sé að kvetja til hjólreiða.

Annað
Styrkur hjólreiða felst m.a. í því hversu umhverfisvænn ferðamáti það er. Hjólreiðamenn þyrftu að vera duglegri við að vísa í samþykktir og yfirlýstar stefnur bæjar- og sveitarfélga til að færa rök fyrir að aðstaða þeirra sé bætt, t.d. Skil 21 og umhverfisstefnu Reykjavíkurborgar.

Vefur LHM