Sælt veri fólkið

Það er varla hægt að draga öllu lengur að senda ykkur rök Landssamtaka hjólreiðamanna fyrir því að hafa samhliða hjólreiðabraut norðan Laugavegar fremur en aðgreindar í vegstæði. Það að gera vefsíðu um hjólreiðabrautir tekur mun meiri tíma en áætlað var. Því sendi ég ykkur rökin hér í viðhengi í Word skjali. Upptalningin á kostum og göllum er ekki tæmandi en ætti að gefa einhverja hugmynd um hvað við Landssamtaka menn erum að hugsa.
Okkur þætti vænt um að fá fylgjast áfram með þessari vinnu.

Ég læt ykkur vita þegar vefsíðan er komin af stað.

Kær kveðja
Magnús Bergsson

http://hjol.org
 

---------------------------------    Viðhengið í Word skjali   -----------------------------------

Formáli:

Það er mikilvægt að hjólreiðabrautirnar verði frá upphafi vinsælar hjá almenningi og ekki verði gerð skipulags- eða hönnunarmistök við gerð þeirra. Hjólreiðabrautirnar eiga ekki að vera hannaðar aðeins fyrir hörðustu hjólreiðamenn.  Það er mikilvægt að sem flestir finni til meira öryggis á hjólreiðabrautum en á akbrautum. Íslenskt foreldri sem telur barni sínu best borgið í fjölskyldubílnum verður að fá það á tilfinninguna að það sé öruggt að senda barn sitt í skólann á hjóli. Það er einnig mikilvægt að hjólreiðabrautir verði sýnilegar á stöðum þar sem notkun bíla gæti talist óþörf eins og innan 30 km hverfa. Það gerist best með því að koma hjólreiðabrautum fyrir í vegstæði. Rauðar hjólreiðabrautir innan 30 km hverfa gætu því haft betri áhrif á ökumenn en hraðahindranir.  Til þess að fólk noti hjólreiðabrautir og þær skili sem mestum „arði“ þurfa þær að vera sýnilegur samgöngukostur. Þær þurfa að vera öruggar og ekki síst greiðfærar.

Við mælum með því að hjólareinar verði hafðar í vegstæði frá Hlemmi að Höfðatúni en gert er ráð fyrir að þar verði „róleg“ gata.

Kostir samhliða hjólreiðabrauta norðan Laugavegar:

  • Það þarf ekki að hliðra til akbrautinni til norðurs. Minna umstang, minni kostnaður.
  • Mikið rými norðanmegin, en lítið sunnanmegin. Á það ekki síst við um framhaldið meðfram Suðurlandsbraut.
  • Margar innkeyrslur sunnanmegin, m.a. að bílasölum og bensínstöð. Enga innkeyrslur norðanmegin
  • Færri tæknileg vandamál í samspili hjólandi og akandi umferðar þar sem bílaumferð er mjög hröð.
  • Gefur möguleika á því að grafa göng undir akbrautir til að greiða leið hjólandi s.s. undir Nóatún, Hátún og Reykjaveg (jafnvel brú yfir Kringlumýrarbraut).
  • Gott framhald til austurs meðfram Suðurlandsbraut og í raun gott rými fyrir samhliða hjólreiðabraut alla leið að Mörkinni.
  • Fjarlægð frá bílaumferð gerir hjólreiðar ánægjulegri. Hjólreiðafólk finnur til meira öryggis sem mun auka hjólreiðar.
  • Hjólreiðamenn fá umferðarmerkingar til samræmis við akbrautir sem gefur  gott uppeldislegt gildi.
  • Hlykkir og beygjur verða aflagðar þar sem hjólreiðabrautir þvera akbrautir. Kallar því á löngu tímabæra breytingu á hönnun.
  • Ljós sett á hægri beygju akbrautar við gatnamót. Götuviti handan gatnamóta verði aflagður. Götuvitar verði aðeins staðsettir við stöðvunarlínu. (Mikilvægt fyrir jafnræðisregluna).

Gallar:

  • Við gatnamót þar sem ekki verða umferðaljós þarf að vara bílstjóra sérstaklega við hjólandi umferð úr báðum áttum. Fram til þessa hafa þeir ekki þurft að gefa gangandi eða hjólandi vegfarendum gaum, jafnvel þótt þeir séu að breyta um akstursstefnu.
  • Ekki hægt að taka vinstri beygju yfir gatnamót. Í þeim tilfellum tekur það lengri tíma fyrir hjólreiðamenn að fara  yfir gatnamót en ökumenn.
  • Menn verða að hanna gatnamót til samræmis við það sem finna má í nágrannalöndum okkar (jafnræðisreglan). Það gæti pirrað einstaka ökumenn sem fram til þessa hafa ekki þurft að taka tillit til annarrar umferðar en bíla.

Kostir hjólareina í götustæði:

  • Hjólreiðafólk verður sýnilegt í umferðinni.
  • Hjólareinar eru sýnilegar og minna því ökumenn stöðugt á aðra samgöngukosti.
  • Hvetur ökumenn til að hjóla, ekki síst ef tafir verða á bílaumferð.
  • Flestir reyndir (hraðskreiðir) hjólreiðamenn telja þessa gerð hjólreiðabrauta besta kostinn.
  • Bæði ökumenn og hjólreiðamenn verða að umgangast hvora aðra með virðingu. Kallar um umfjöllun í fjölmiðlum.
  • Hjólreiðamenn taka þátt í sömu umferð og reglum og ökumenn.
  • Kalla ekki á stórvægar breytingar á umferðarlögum eða almennt á hönnun umferðarmannvirkja.
  • Hentar í flest götustæði þar sem bílaumferð er ekki tiltakanlega hröð.
  • Henta mjög vel sem hraðahindrun í 30 km hverfum (þrengir götumyndina).

Gallar:

  • Saltaustur og nagladekk bifreiða mynda vatnsrásir í hjólförunum akbrauta. Vegna hraða, stærðar og grófra dekkja bifreiða berst mikill úði frá bílum á blautum dögum. Sá tjörumettaði úði eyðileggur flest föt á skömmum tíma. Það útilokar þá sem vilja vera snytilegir til fara og ferðast daglega á hjóli allt árið um kring.
  • Meiri svifryksmengun í götustæði en utan. (Er mikið vandamál)
  • Malbikssalli í bland við tjöru og salt safnast fyrir í vegkantinum og í raun allt að 10 metra út  frá stórum  akbrautum.  Sallinn eyðileggur reiðhjól, sérstaklega drifbúnað, á mjög skömmum tíma. Skófatnaður eyðileggst, jafvnel þótt menn séu með aurbretti á hjóli.
  • Margir íslenskir foreldrar hvetja ekki  börn sín í dag  til að hjóla vegna ótta um slys. Það er afar ólíklegt að það breyttist til batnaðar ef hjólreiðabrautir yrðu samhliða hraðri bílaumferð, hvað þá í hálkutíð. Flestir foreldrar myndu líklega banna börnum sínum að hjóla þar.
  • Hér á landi ríkir gríðarleg óþolinmæði og taugaveiklun í umferðinni. Mikill fjöldi ökumanna sýnir hjólreiðafólki afar litla tillitssemi. Það er ekki vitað hvort það breyttist við að fá hjólarein í götustæði. Holdið er of veikt fyrir slíka tilraunastarfsemi.
  •  Mikill kostanður ef færa þarf alla akbrautina til norðurs. Að auki má telja það nauðsynlegt að færa niðurföll og hafa þau á milli hjólreiðabrautar og akbrautar.
  • Flestir sem vanist hafa hjólreiðum í nágrannalöndum hafa gefist upp á áframhaldandi hjólreiðum við heimkomuna. Óljóst er hvort það breytist þar sem flestir óttast óvenju slæma umferðarmenningu fremur en annað.

________________________________________________________________________

Viðbrögð við þessum tölvupósti bársut samdægurs.