Kæri þingmaður.

Þessi tölvupóstur er sendur vegna þingsályktunartillögu um hreyfingu sem valkost í heilbrigðiskerfinu. http://althingi.is/altext/131/s/0901.html

Landssamtök hjólreiðamanna vilja lýsa ánægju með þessa þingsályktunartillögu. Samt sem áður fjallar hún um að byrgja brunninn eftir að barnið hefur fallið í hann. Fólk á að hreyfa sig að læknisráði eftir að hafa skaðast af hreyfingarleysi. Almenningur á svo líka að finna sér sérstakan frítíma til að stunda hreyfingu, væntanlega á útivistarsvæðum og líkamsræktarstöðvum. 

Fyrir Alþingi bíður nú afgreiðslu þingsályktunartillaga sem fjallar um að koma hjólreiðabrautum í vegalög. http://althingi.is/altext/130/s/0321.html

Hér er á ferðinni þingsályktunartillaga sem leggur grunn að fyrirbyggjandi heilbrigði almennings. Hjólreiðabrautir gefa almenningi kost á því að hreyfa sig með hollum og vistvænum hætti og í leiðinni koma sér á milli staða án þess að þurfa að gefa sér sérstakan frítíma til þess. Um þetta er fjallað á vefsíðu  Journal of Epidemiology and Community Health. http://jech.bmjjournals.com/cgi/content/extract/57/2/96 http://jech.bmjjournals.com/cgi/content/full/58/10/816

Í dag geta akbrautir og göngustígar vart talist valkostur hjólreiðafólks til samgangna. Göngustígar hér á landi eru EKKI hannaðir með umferð hjólreiðafólks í huga. Umferð hjólreiðafólks á gangstéttum skapar slysahættu fyrir gangandi vegfarendur auk þess sem gangstéttir eru varðaðar slysahættum gagnvart hjólandi vegfarendum. Því verður að endurskoða umferðar- og vegalög í samræmi við breyttar aðstæður og í samhengi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar eins og t.d. Danmörku og í Noregi. Er það ákaflega mikilvægt svo verklagsreglur ríks- og sveitarfélaga verði skýrar í uppbyggingu hjólreiðabrauta. Ef hjólreiðabrautir verða ekki að veruleika þá er næsta víst að ekki verða neinar breytingar á ferðavenjum íslenskra þéttbýlinga.

Á höfuðborgarsvæðinu sem og víðar á Íslandi er það hvorki veður né landslag sem hindrar framgang hjólreiða heldur fyrst og fremst aðstöðuleysi. Ef engar væru sundlaugarnar þá fyndust aðeins  einstaka sérvitringar á sundi við strendur landsins. Það er í raun það ástand sem íslenskt hjólreiðafólk stendur frammi fyrir í dag.

Landssmök hjólreiðamanna hvetja þingmenn til að greiða veg þingsályktunartillögunar sem tekur á málefni hjólreiðabrauta svo hægt verði að finna hjólreiðum sanngjarna málsmeðferð í orði sem á borði.

Um arðsemi hjólreiðabrauta sé litið til heilbrigðisþátta má finna góða norska skýrslu.

Samantekt og skýrslan í heild sinni á norsku: http://www.toi.no/program/program.asp?id=35830

Samantekt skýrslunar á ensku: http://www.toi.no/Program/program.asp?id=36338

Allar frekari upplýsingar um málefni íslenskra hjólreiðamanna má finna á vef Landssamtaka hjólreiðamanna http://hjol.org  Þar má finna athugasemd við umferðaröryggisáætlun sem lýsir aðstöðu hjólreiðamanna eins og hún er í dag. http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2004/athumferd.htm

Kær kveðja og með von um góð viðbrögð,

 

F.h. Landssamtaka hjólreiðamanna

Magnús Bergsson