Reykjavík, 15.desember 2003

 

 

Umsögn um frumvarp til laga

um breytingu á umferðalögum, nr. 50 30. mars  1987, með síðari breytingum.

 

134. mál, hægri beygja á móti rauðu ljósi.

 

Stjórn Hjólreiðafélags Reykjavíkur leggst eindregin gegn því að leyfa ökumönnum bifreiða að taka hægri beygju á móti rauðu ljósi.

 

Það er augljóst að ökumaður bifreiðar sem bíður við rautt ljós, og ætlar að taka hægri beygju á móti rauðu ljósi, beinir athyglinni að umferð bifreiða sem eru honum á vinstri hönd og frá óvörðum vegfarendum (hjólandi og gangandi) sem fara yfir götuna á móti grænu gangbrautarljósi, ökumanni bifreiðarinnar á hægri hönd (gangstéttarmegin).  Einnig má leiða að því líkum að ökumaður bifreiðar sem ætlar að taka hægri beygju á móti rauðu ljósi, aki bifreið sinni yfir stöðvunarlínu, í veg fyrir óvarða vegfarendur á gangbrautinni, til þess að auðvelda sér að skjótast inn á milli bifreiða sem koma aðvifandi honum á vinstri hönd.  Hættan á slysum á óvörðum vegfarendum eykst verulega við þessar aðstæður.   

 

Skýrslur sem unnar voru í Bandaríkjunum eftir að leyft var að taka hægri beygju á móti rauðu ljósi þar í landi sýna glögglega að slysum á óvörðum vegfarendum fjölgar gífurlega eftir þessa breytingu.  Nægir að nefna niðurstöður úr skýrslu Preusser o.fl. sem sýnir að slysum á gangandi vegfarendum fjölgaði um 43% til 107% og um 72%  til 123% á hjólandi vegfarendum.

(Preusser, D.F., Leaf, W.A., Debartolo, K.B. and Blomberg, R.D.  The Effects of Right-Turn-On-Red on Pedestrian and Bicyclist Accidents, Report No. DOT. HS 806 182, Dunlap & Associates, Inc., Darien, Conneticut, 1981.)

 

Stjórn HFR andmælir harðlega að leyft verði að taka hægri beygju á móti rauðu ljósi.  Líkurnar á slysum á iðkendum hjólreiðaíþróttarinnar aukast umtalsvert ef þessar breytingar á umferðalögunum ná fram að ganga.  Á það er ekki hægt að sættast. 

 

 

Brynjólfur Magnússon

Formaður HFR

 

Umsögn LHM