Landssamtök hjólreiðamanna
Pósthólf 5193
125 Reykjavík
www.hjol.org

 
28. nóvember 2003

Samgöngunefnd Reykjavíkur

 
Þar sem Kjalarnes er innan borgarmarka Reykjavíkur hvetja Landssamtök hjólreiðamanna borgaryfirvöld til að leggja greiða og beina hjólreiðabraut meðfram Vesturlandsveginum að byggðarkjarna Kjalarness.

 Beiðni um þessa samgöngubót er gerð í því ljósi að á akbrautinni er mikil og ákaflega hættuleg bílaumferð auk þess sem vegaxlir eru slæmar eða ekki til staðar á þessari leið. Akbrautin útilokar því möguleika fjölda fólks á því að ferðast þessa leið með hollum og vistvænum hætti.

 Hér þarf vart að nefna þá miklu samgöngubót sem þessi framkvæmd mundi gefa Kjalnesingum og öllum þeim sem þessa leið þurfa að fara og meðfram henni búa. Þessi framkvæmd er mikilvæg öllum þeim sem stunda útivist í Esjuhlíðum, auk erlendum og innlendum ferðamönnum á reiðhjólum sem leggja leið sína norður og vestur um land.

 Landssamtök hjólreiðamanna vilja minna á að þessi framkvæmd er í anda Staðardagskrá 21 sem bæði Reykjavíkurborg og Mosfellsbær eru aðilar að. Framkvæmdin er því í góðu samræmi við framtíðarsýn og markmið sveitarfélagana ef rétt verður að málum staðið. Landssamtök hjólreiðamanna hvetja því sveitarfélögin til að hefja viðræður um lagningu þessarar hjólreiðabrautar svo fljótt sem auðið er, áður en slys verða á vegfarendum. Mikilvægt er að hjólreiðabrautin verði lögð í fullri sátt við alla hagsmunaaðila þ.á m. Landssamtök hjólreiðamanna.

 

F.h. Landssamtaka hjólreiðamanna

 
____________________________
Magnús Bergsson

 

 Afrit sent til:     Skipulags- og bygginganefnd Reykjavíkur
                        Tækninefnd Mosfellsbæjar
                        Skipulags- og byggingarnefnd Mosfellbæjar