30. október 2003


Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
Bt. Björns Friðfinnsonar og Stefáns Eiríkssonar


Landssamtök hjólreiðamanna vilja vita ástæðu þess hvers vegna ákveðið var að skipta göngustígum í 1+2 metra í Reykjavík.
Þar er hjólreiðamönnum ætlaður einn metri en tveir metrar eru fyrir gangandi. Að sögn Margrétar Sæmundsdóttur f.v. borgarfulltrúa varð þessi hönnun ákveðin eftir samráð við Dómsmálaráðuneytið.

Einnig má spyrja hvers vegna ekki var ákveðið að hafa heila eða brotna miðjulínu þar sem umferðarreglur hefðu þá verið í samræmi við umferðarreglur á akvegum?

Ástæða þess að Landssamtök hjólreiðamanna óska eftir skýringu er sú að núverandi fyrirkomulag kallar á ruglingslegar umferðarreglur og slysahættu því samfara.  Þannig er t.d. ekki sama hvort hjólreiðamaður mætir gangandi eða hjólandi vegfarendum á stíg sem hefur hjólaræmu vinstra eða hægra megin í aksturstefnu, nú eða enga hjólaræmu.

Dæmi um óskrifaðar umferðareglur á göngustígum borgarinnar:

 Þegar hjólaræma er ekki til staðar á göngustíg þá ríkir hefðbundin hægriregla og varúðarregla.

 Ef hjólaræman er vinstra megin í ferðastefnu þá þarf að taka fram úr hægra megin en vinstra megin ef mætt er gangandi vegfaranda. Hjólreiðamenn geta ekki mæst á hjólaræmunni. Ef hjólreiðamaður mætir eða fer fram úr öðrum hjólreiðamanni þá þarf hann að víkja til hægri út á göngustíginn sem skapar óvissa réttarstöðu fyrir hjólreiðamanninn ef slys verða.

 Þegar hjólaræman er hægra megin í ferðastefnu þá á hjólreiðamaður ekki að víkja fyrir umferð sem kemur á móti, heldur halda sig sem lengst til hægri á stígnum. Hann þarf hins vegar að víkja til vinstri út á göngustíginn þegar taka þarf fram úr öðrum hjólreiðamanni.

 Á sama stígnum getur hjólaræman verið stundum hægra megin og stundum vinstra megin og þess á milli engin hjólaræma eins og á Fossvogsstígnum. Ástandið getur því verið mjög ruglingslegt og sérstaklega þegar ekki er búið að gefa út neinar sérstakar umferðareglur á þessum stígum.
Á öðrum stígum getur hjólaræman komið og farið eins og á Sæbraut. Hjólreiðamenn þurfa því ýmist að fara fram úr gangandi eða hjólandi vinstra- eða hægra megin, allt eftr því hvort línan er til staðar eða ekki. Þá er heldur ekki sama hvort mætt er gangandi eða hjólandi umferð.

 Til að þessu ófremdarástandi linni, óska Landssamtök hjólreiðamanna eftir umferðarreglum eða úrbótum á þessum göngu- og hjólastígum, frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Landssamtök hjólreiðamanna eru einnig tilbúinn að vinna með ráðuneytinu í þessu máli þegar það verður tekið fyrir.

Með von um góð viðbrögð,
Kær kveðja,

Magnús Bergsson

Landssamtök hjólreiðamanna
Pósthólf 5193
125 Reykjavík

http://islandia.is/lhm