Landssamtök hjólreiðamanna

http://www.islandia.is/lhm 

Íslenski fjallahjólaklúbburinn

http://www.mmedia.is/~ifhk

Pósthólf  5193

125 Reykjavík

                                                                                                                             Reykjavík 14. mars 2001

 

Til samgöngunefndar Alþingis.

                                                                                                                                                                               

Í umferðarlögum eru hjólreiðar skilgreindar sem samgöngumáti.  Hins vegar er ekki um slíkt að ræða í vegalögum. Það gætir því misræmis milli laga.

Þar sem bílaumferð hefur aukist mikið seinustu ár, þá er mikilvægt að samræma lagasetningar og laga þær að breyttum tíðaranda.

Undanfarin ár hefur ýmislegt breyst til batnaðar er varðar göngu- og hjólreiðastíga í Reykjavík. Hins vegar hafa tengingar við nágrannasveitarfélögin ekki batnað að sama skapi. Það er því orðið stórhættulegt að ferðast þar á milli.

Mikilvægt er að hjólreiðastígar verði skilgreindir í vegalögum í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Í því felst í stórum dráttum:

  1. Gera þarf ráð fyrir hjólreiðastígum strax við hönnun umferðamannvirkja og að þeir lúti sömu lögmálum og akvegir, fari sem skemmstan veg milli staða og séu greiðfærir. Skilgreina þarf stofnstíga, tengistíga o.s.frv.
  2. Aðgreina þarf  akandi, hjólandi og gangandi umferð þar sem því verður við komið til að auka öryggi vegfarenda.
  3. Vinna þarf að heildstæðu hjólreiðastíganeti á þéttbýlissvæðum.
  4. Leggja þarf sérstaka áherslu á stíga meðfram stofnbrautum akvega þar sem umferð er mikil.
  5. Laga þarf hönnun hjólreiðastíga að íslenskum aðstæðum svo litið sé til veðráttu og umhverfisaðstæðna.
  6. Endurskoða þarf umferðarlög gagnvart gangandi, hjólandi og akandi svo að réttur vegfarenda verði skýr.

Aukin bílaumferð hefur haft neikvæð áhrif á marga þætti í okkar samfélagi, t.d. hefur loft- og hávaðamengun aukist. Auk þess hefur þessi mikli bílafloti orðið sífellt plássfrekari sem bitnað hefur á umhverfi og skipulagi. Kostnaður samfélagsins hefur líka farið upp úr öllu valdi vegna umfangsmikilla umferðarmannvirkja, fjölda slysa og dauðsfalla. Ein leið til að sporna við þessari óheillaþróun er að auka vægi hinna “mjúku vegfarenda” í umferðinni, bæta aðgengi og öryggi þeirra, svo að t.d. hjólreiðar verði raunhæfur valkostur sem samgöngutæki. Þannig má að sama skapi segja að þar sé komið til móts við alþjóðasáttmála um að sporna gegn losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Allur kostnaður við samgöngumannvirki minnkar vegna minna álags. Um leið er stuðlað að bættri heilsu almennings.

 Við undirrituð, hvetjum samgöngunefnd Alþingis til að taka fyrir tillögu til þingsályktunar frá 126. löggjafarþingi, þskj. 771    485. mál, þar sem komið er að þessum málum. Við óskum eftir samvinnu við löggjafarvaldið um endurbætur á vegalögum og umferðarlögum sem sem snúa að hjólreiðum eða hinni “mjúku umferð”. Við óskum lika eftir samvinnu við Vegagerð ríkisins um hönnun og lagningu hjólastíga svo þeir samræmist íslenskum aðstæðum. Það gæti talist í fullu samræmi við ræðu umhverfisráðherra á Umhverfisþingi 26.- 27. janúar 2001, þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þáttöku frjálsa félagssamtaka og almennings við stefnumótun sjálfbærrar þróunar. 

F.h. Landssamtaka hjólreiðamanna

 ________________________________

Magnús Bergssson varaformaður.

lhm@islandia.is

 F.h. Íslenska fjallahjólaklúbbsins

 ________________________________

Alda Jónsdóttir formaður

ifhk@mmedia.is

 

Afrit sent til umhverfisnefndar Alþingis, heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis.