LHM - Landsamtök hjólreiðamanna

Ávarp flutt á Hjólaþingi 99
 

Landsamtök hjólreiðamanna voru stofnuð veturinn 1995 - 1996.  Að samtökunum standa félögin tvö sem starfa í landinu um þessar mundir, með miklum blóma. Þau eru Íslenski fjallahjólaklúbburinn og Hjólreiðafélag Reykjavíkur auk þess sem við lítum á okkur sem fulltrúa allra hjólreiðaáhugamanna landsins.

Starfið er enn í mótun og má segja að samtökin séu ekki ennþá búinn að slíta barnaskónum.  Markmið samtakanna samkvæmt lögum eru þessi:

    “Efla hjólreiðar á Íslandi. Samtökin skulu útbreiða og efla hjólreiðar sem keppnisíþrótt, fjölskylduvænlega almenningsíþrótt, heilsusamlegan lífsmáta og einnig sem samgöngumáta.”
 

Samgöngumálin hafa tekið mikið af kröftum okkar enda mikilvægur þáttur þegar á að fara um á reiðhjóli.  Við höfum reynt að koma á samstarfi við ýmsa opinbera aðila sem að málefnum hjólreiðamanna koma, og bindum miklar vonir við að viðburðir sem þetta þing verði til að efla og auka það samstarf.

Við höfum reynt að benda á ýmislegt sem betur mætti fara og þykjum ef til vill oft smámunasöm, en margt smátt gerir eitt stórt og eftir því sem fyllt er í fleiri holur verður auðveldara að komast um á hjólhestinum. Þó margt gott hafi á undanförnu gerst í okkar málum þá er en víða pottur brotinn og margar holurnar sem verða á vegi þeirra sem ferðast á hjólhesti.

Samtökin hafa fengið aðild að umferðaráði, og skipa einn fulltrúa í ráðið, og eru þar með þáttakenndur í því mikla, og góða starfi sem þar fer fram.

Það sem helst hefur háð samtökunum, er að þau hafa verið fjárvana en nýlega samþykktu félögin sem að þeim standa, hundrað króna nefskatt, sem er ágæt byrjun því engin sem fer um á hjóli efast um nauðsyn þess að hjólreiðamenn eigi sér öfluga talsmenn.
 
 
 

Gunnlaugur Jónasson