Reykjavík  29.04.98
Umferðar og skipulagsnefnd Reykjavíkur
Formaður Guðrún Ágústsdóttir
Ráðhúsi Reykjavíkur
 

Kæra Guðrún.

Tilefni þessa bréfs er að þakka fyrir hönd Landsamtaka Hjólreiðamanna fyrir þær miklu framfarir sem orðið hafa í borginni í málefnum hjólreiðamann á síðustu árum.  Ég vil þó fá að benda á ýmis atriði sem betur mættu fara varðandi göngu og hjólastíga borgarinnar, auk þess að óska eftir upplýsingum um hvaða framkvæmdir eru á döfinni, hvað varðar úrbætur í málefnum hjólreiðamanna.  Við biðjum um að þær upplýsingar verði sendar undirrituðum.

Þetta á einkum við um stíg þann sem liggur meðfram suðurstrandlengju borgarinnar og um Fossvogs og Elliðaárdal.  Stígur þessi er í daglegu tali kallaður “Stígurinn”.

Skilti með upplýsingum

Fram hefur komið sú hugmynd að sett verði upp upplýsingaskilti við Stíginn, þar sem fram komi upplýsingar hjálplegar þeim sem leið eiga um stíginn. Er hér m.a. átt við leiðbeiningar til hjólreiðamanna og gangandi varðandi samskipti þessara hópa, athygli vakin á hjólarein, hvatt til bjöllunotkunnar hjólreiðamanna, þeir hvattir til að sýna ýtrustu varkárni.  Gangandi verði hvattir til að ganga ekki á hjólarein, hundar séu hafðir í stuttum ólum og fleira sem auka mætti öryggi og bæta samskipti þessarar ólíku umferðar.
Einnig vantar alveg vegvísa á stíga borgarinnar þar sem fram kæmi vegalengd til helstu hverfa og sú leið sem greiðfærust er. Þetta myndi auðveld fólki að finna bestu leiðina milli staða og spara mönnum “könnunarleiðangra” til að finna færa leið um borgina.

Merkingar á hjólareinum

Merkingar þær sem verið hafa á Stígnum eru nú mjög farnar að dofna og hafa víða horfið alveg.  Þetta er mjög bagalegt með tilliti til öryggis hjólandi og gangandi vegfarenda.  Þessar merkingar eru nokkuð stopular og mætti þétta þær auk þess sem þær vantar alveg á nýrri hluta Stígsins.

Hrörnun Stígsins

Ástand stígsins fer mjög versnandi af mannavöldum og virðist sem þeir sem að viðgerðum koma hafi engar skyldur gagnvart umferð um stíginn, honum er lokað skyndilega án aðvarana eða upplýsinga um aðrar mögulegar leiðir og ekki eru gerðar ráðstefanir til að umferð komist fram hjá vinnusvæðinu. Rétt er að nefna eftirfarandi staði þar sem ástandið er hvað bagalegast nú:

-Bráðabirgðaviðgerð við suður flugbrautarenda hefur staðið yfir í hálft ár og ekkert bendir til að henni ljúki á næstunni.

-Grafnir  hafa verið tveir skurðir yfir stíginn við Skógræktarfélag Reykjavíkur og einungis fylltir með möl; nokkuð sem skapar mikil óþægindi og hættu fyrir hjólreiðamenn.

-Síðast en ekki síst skal nefna stíg þann sem tengir vesturborgina við Grafarvog.
Stígur þessi var lokaður allt sumarið 1997 vegna framkvæmda við endurvinnsluna og er nú horfinn undir fyllingu austan Björgunar hf.  Engar merkingar eða aðvaranir hafa verið settar upp og engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma hjólandi umferð fram hjá vinnusvæðinu. Þetta beinir umferð reiðhjóla um Ártúnsbrekku sem er ekki forsvaranlegt.

Stígur við athafnasvæði Skeljungs, Skerjafirði

Það er ósk okkar að á meðan ekki verður lagður endanlegur stígur við athafnasvæði Skeljungs, verði lögð olíumöl til bráðabirgða á malarveginn sem liggur bakvið svæðið og er notaður af gangandi og hjólandi til að tengja stíginn saman.  Þessi spotti er nú það eina sem á vantar til að samfelld tenging verði um öll hverfi borgarinnar (að Grafarvogi undanskildum.)  Það er einlæg ósk okkar að þetta verði gert nú þegar þannig að borgarhverfin verði teng í sumar.

Það er von okkar í Landsamtökum Hjólreiðmanna að þessum ábendingum verði vel tekið og  við erum reiðu búinn til skrafs og ráðagerðar um þessi mál og önnur er snerta umferð og öryggi reiðhjólamanna.
Við viljum endur taka þakkir fyrir þær miklu framfarir sem orðið hafa í okkar málum og kemur glögglega fram í þeirri aukningu sem við sjáum í notkun okkar mjög svo ástkæra, tvíhjóla farskjóta.
 

      f.h. Landsamtaka Hjólreiðamanna
 

      Gunnlaugur Jónasson, formaður LHM
      Hávallagötu 38
      101 Reykjavík
 

Til baka á forsíðu