Reykjavík  15.07.98
Umferðar og skipulagsnefnd Reykjavíkur
Formaður Guðrún Ágústsdóttir
Ráðhúsi Reykjavíkur
 

Kæra Guðrún.

Tilefni þessa bréfs er að þakka fyrir hönd Landsamtaka Hjólreiðamanna fyrir skjót viðbrögð við bréfi okkar frá 29.04.98 því skömmu eftir að bréfið var sent þér urðum við hjólreiðamenn varir við að viðgerðir fóru fram víða við stíginn.  Teljum við þetta að sjálfsögðu vera þér að þakka.  Við viljum þó fá að höggva enn í sama knérunn og benda á tvær slysagildrur sem enn leynast á stígnum. Ennfremur erum við með hugmyndir varðandi tvær götur sem talað er um að endurbyggja og mjókka á næstunni.

Fyrst ber að nefna það að efst í Elliðaárdal, nánar tiltekið mitt á milli neðstu stíflu og brúar neðan Árbæjarsundlaugar (svona á móts við Árbæjarkirkju) er komið mikið hvarf í hjólareinina.  Hefur þar hrunið úr reininni og er nú svo komið að u.þ.b. 1/3 af henni er horfinn og töluvert fall niður í skurð við hliðina á.  Þetta þyrfti að laga áður en alvarlegt slys hlýst af.
Í öðru lagi er nú búið að fylla í skurð þann við suður flugbrautarenda sem nefndur var í síðasta bréfi. Þar er nú nokkurra metra kafli með mjög grófri möl sem er alls ekki fær öllum reiðhjólum og er hætt við skemmdum á öðrum.
Á horni Suðurlandsbrautar og Skeiðarvogs hefur verið grafinn skurður sem er svo sem enginn glæpur útaf fyrir sig. En moldin sem var í skurðinum er nú á stígnum sem liggur framhjá og neyðir það gangandi, hjólandi, fatlaða og barnavagna út á grasflöt viðhliðina á auk þess sem ekki hafa verið settar upp aðvaranir af neinu tagi til að vara við þeirri hættu sem þetta skapar lífi og limum manna.
Síðast en ekki síst vil ég enn nefna stíg þann sem tengir vesturborgina við Grafarvog.
Stígur þessi var lokaður allt sumarið 1997 vegna fram-kvæmda við endurvinnsluna og er nú horfinn undir fyllingu austan Björgunar hf. Þetta beinir umferð reiðhjóla um Ártúnsbrekku sem er ekki forsvaranlegt.

Ég vil svo minna á þær hugmyndir sem við komum með í síðasta bréfi sem við teljum enn góðar og gildar, svo sem:

Upplýsingaskilti við Stíginn, þar sem fram komi upplýsingar hjálplegar þeim sem leið eiga um stíginn. Er hér m.a. átt við leiðbeiningar til hjólreiðamanna og gangandi varðandi samskipti þessara hópa.

Vegvísa á stíga borgarinnar þar sem fram kæmi vegalengd til helstu hverfa og sú leið sem greiðfærust er.

Það er ósk okkar að á meðan ekki verður lagður endanlegur stígur við athafnasvæði Skeljungs, verði lögð olíumöl til bráðabirgða, í mjórri ræmu, á malarveginn sem liggur bakvið svæðið og er notaður af gangandi og hjólandi til að tengja stíginn saman.  Þessi spotti er nú það eina sem á vantar til að samfelld tenging verði um öll hverfi borgarinnar (að Grafarvogi undanskildum.) Þessi framkvæmd ætti ekki að kosta borgina meira enn kostnaðinn við malbikið og það mætti taka upp og endurnýta anarstaðar þegar endanlegur stígur verður lagður.  Það er einlæg ósk okkar að þetta verði gert nú þegar þannig að öll borgarhverfin verði teng í sumar.

Það er von okkar í Landsamtökum Hjólreiðmanna að þessum ábendingum verði vel tekið og  við erum reiðu búinn til skrafs og ráðagerðar um þessi mál og önnur er snerta umferð og öryggi reiðhjólamanna.
Við viljum ennþáeinusinni endurtaka þakkir fyrir þær miklu framfarir sem orðið hafa í okkar málum og kemur glögglega fram í þeirri aukningu sem við sjáum í notkun okkar mjög svo ástkæra, tvíhjóla farskjóta.
 

      f.h. Landsamtaka Hjólreiðamanna
 

      Gunnlaugur Jónasson, formaður LHM
      Hávallagötu 38
      101 Reykjavík

Til baka á forsíðu