Reykjavík 11.11.98
Umferðar og skipulagsnefnd Reykjavíkur
Formaður Guðrún Ágústsdóttir
Ráðhúsi Reykjavíkur
 

Kæra Guðrún.

Tilefni þessa bréfs er enn sem fyrr að setja fram óskir fyrir hönd hjólreiðamanna varðandi samgöngumál okkar. Við sem notum hjólhestinn daglega upplifum af því er virðist margt í sambandi við samgöngumál á annan hátt og sem meira vandamál enn þeir sem að þessum mannvirkjum standa.

Við viljum nota tækifærið og óska borgaryfirvöldum til hamingju með Stíginn sem nú er orðin tengdur fram hjá athafnasvæði Skeljungs við Fossvog og getur því staðið undir nafni og þeim væntingum sem til hans eru gerðar.

Nú þegar vetur er gengin í garð og sól tekin að lækka á lofti  koma upp ný vandamál fyrir okkur sem notumst við sem hjólhestinn dags daglega sem tengjast skammdeginu.
Fyrsta ber að nefna lýsingu stígsins.  Hún er víða mjög stopul og hana vantar alveg annarsstaðar. Þetta er að sjálfsögðu ófermdar ástand og getur verið mjög hættulegt þar sem við deilum stígnum með annarri gerð vegfarenda, nefninlega þeim gangandi. Meðfram Ægissíðu, þar sem elsti hluti stígsins liggur, er ennþá engin lýsing og víða annarsstaðar er mjög langt á milli ljósastaura. Það þarf ekki að orðlengja um þetta ástand.

Illsjáanleg og þröng hlið eru víða við stíginn sem skapa mikla hættu einkum í skammdeginu. Hlið þessi eru sett upp til að hindra að bílar villist inn á stíginn en eru mörgum hjólandi mikil torfæra d.d. þeim sem nota tveggjamannahjól og þeim sem hjóla með barnavagna. Þessi hlið eru í möttum, galvaníseruðum felulit og viljum við fara þess á leit að þau verði fjarlægð en að öðrum kosti máluð í sterkum litum þannig að þau sjáist, áður en slys hljótast af.

Merkingar á hjólarein hafa dofnað mjög og vantar víða alveg. Það er mikið vandamál að gangandi vegfarendur á stígnum virða ekki hjólareinina enda ekki nema von því hún er mjög illa merkt. Þetta skapar hættu á árekstrum og þyrfti að bæta úr þessu hið snarasta.Einnig þyrfti að mála mynd af gangandi vegfarendum á yfirborð gangreinarinnar þannig að ekki færi milli mála hver á að vera hvar! Þessar merkingar þyrftu að vera mun þéttari en verið hefur eða með c.a. 200 m. millibili.

Framkvæmdir á vegum borgarinnar koma oft illa niður á notendum stíga. Ekki er nóg með að stígarnir séu notaðir sem geymslustaðir af verktökum fyrir tæki og tól eða fyllingarefni, þeir eru einnig oft grafnir í sundur án þess að gengið sé frá þeim eða hreinlega fjarlægðir alveg. Er þess skemmst að minnast er Grafarvogur misst allt samband við Reykjavík snemma á þessu ári og þeir hjólreiðamenn sem þar búa hafa vafalaust verið tilneyddir til að fara akandi í bæjarferðir síðan. Hefur það ekki orðið til þess að bæta það ástand sem er við Gullinbrú og frægt er.

Ekki er hægt að minnast ógrátandi á þá framkvæmd sem fer nú fram á vegum Borgarinnar á mótum Miklubrautar og Reykjanesbrautar. Þykir mönnum verklagið með einsdæmum en verið er að hliðra stíg sem þar var um c.a. 10 m. Þannig var staðið að verki að fyrir nokkrum mánuðum var sá stígur sem fyrir var rifinn upp og tyrft yfir. Síðan var hafist handa við að leggja nýjan stíg og sér ekki enn fyrir endann á því verki og óvíst hvort takist að ljúka því fyrir vorið. Stendur göngubrúin sem vígð var í fyrra, og borgaryfirvöld hlutu viðurkenningu okkar hjólreiðarmanna fyrir, án tengingar við umhverfið og til lítils gagns!
 
 

Ég vil svo minna á hugmyndir við höfum komið með áður en við teljum enn góðar og gildar, svo sem:

- Sett verði upplýsingaskilti við Stíginn, þar sem fram komi upplýsingar hjálplegar þeim sem leið eiga um. Er hér m.a. átt við leiðbeiningar til hjólreiða-manna og gangandi varðandi samskipti þessara hópa, s.s notkun á bjöllu, hundaólar, gang- og hjólareinar og svo frv.

- Settir verði veg-vísar á stíga borgarinnar þar sem fram kæmi vegalengd til helstu hverfa og sú leið væri merkt sem greiðfærust er.

Það er von okkar í Landsamtökum Hjólreiðmanna að þessum ábendingum verði vel tekið og  við erum reiðu búinn til skrafs og ráðagerðar um þessi mál og önnur er snerta umferð og öryggi reiðhjólamanna.
Við viljum ennþá einu sinni endurtaka þakkir fyrir þær miklu framfarir sem orðið hafa í okkar málum og kemur glögglega fram í þeirri aukningu sem við sjáum í notkun okkar mjög svo ástkæra, tvíhjóla farskjóta.
 

      f.h. Landsamtaka Hjólreiðamanna
 

      Gunnlaugur Jónasson, formaður LHM
      Hávallagötu 38
      101 Reykjavík

Til baka á forsíðu