Reykjavík  02.12.98
Umferðar og skipulagsnefnd Reykjavíkur
Formaður Guðrún Ágústsdóttir
Ráðhúsi Reykjavíkur
 

Kæra Guðrún.

Oft var þörf en nú er nauðsyn!.

Borgaryfirvöld verða tafarlaust að grípa til aðgerða varðandi verktaka á vegum borgarinnar, sem svívirðislega, án viðvaranna og að þarflausu, loka göngu- og hjólastígum vegna framkvæmda. Þeir virða þannig rétt hinna mjúku vegfarenda að vettugi og þvinga þá út í bílaumferð sem því miður hefur nú valdið hræðilegu slysi.

Hér er átt við það slys sem varð í síðustu viku er ekið var á dreng við Gullinbrú sem neyddist til að fara yfir stórhættulegan veg vegna þess að göngustíg hafði verið lokað vegna framkvæmda á vegum borgarinnar. Þarna eru engar aðvaranir eða vegvísar sem benda á aðra leið fyrr en komið er að girðingu sem liggur þvert yfir stiginn. Ef aðvörunarskilti hefðu verið sett upp á réttum stöðum við stíginn sem vísa á aðrar færar leiðir, myndu vegfarendur ekki gabbast út á akbrautir og þessu hörmulega slysi hefði hugsanlega verið afstýrt.

Þetta er því miður reglan en ekki undantekningin að þegar Reykjavíkurborg er að verki við stíga og aðra staði þar sem mjúkir vegfarendur eiga leið um. Aldrei hefur verið lagður stígur til bráðabirgða svo vitað sé og aldrei hefur sést merking sem varar við þeirri hættu og þeim gildrum sem lagðar eru fyrir vegfarendur. Er hér átt við skurði sem grafnir eru fyrirvaralaust yfir meginstíga (án þess að sett séu upp aðvörunarskilti) og moldar- og malarhaugar eru skildir eftir á stígum algjörlega að tilefnislausu. Síðast en ekki síst eru verkfæri (gröfur, jarðýtur og aðrir "smáhlutir" skildir eftir á stígum í lengri eða skemmri tíma þegar verið er við störf í nágrenninu.

Mjög gott dæmi um slysagildru af þessu tagi er skurður sem grafinn hefur verið þvert yfir Grafarvogsstíginn vestan Gullinbrúar. Hann stendur nú (30.11.98) galopinn og er fyrsta "aðvörun" sem mætir þeim sem kemur hjólandi vestan úr bæ á leið í Grafarvog.
Ef viðkomandi endar ekki ferðina (og líf sitt) í þessum skurði en klöngrast yfir með reiðskjótann taka við vinnuskúrar, verkfæri og að lokum er búið að fjarlægja stíginn alveg. Eru þá tvær leiðir færar, að klifra upp á hinn hættulega veg sem liggur yfir Gullinbrú upp stórgrýttar brekkur sem varla eru færar nema fjallageitum (orðið "fjallahjól" fær í þessu samhengi alveg nýja merkingu) eða hjóla til baka inn að Elliðaám og fara um Ártúnsbrekku sem er ekki fýsilegur kostur og ekki nema fyrir ofurhuga eða fífldjarfa að fara á reiðhjóli.

Það er því sýnilega langt í land fyrir Reykjavíkurborg að ná þeim markmiðum sett eru fram í nýsamþykktu aðalskipulagi varðandi samgöngur á reiðhjólum. Þau markmið eru okkur hjá Landsamtökum Hjól-reiða-manna að sjálfsögðu mjög að skapi, en þurfa að vera á borði en ekki einungis í orði!

Reykjavíkurborg þyrfti hinsvegar að setja fram skýrar kröfur til verktaka í sín útboðsgögn hvað varðar umgengni um stíga og gangstéttir. Það komi fram að leggja verði bráðabirgðastíga ef nauðsynlegt er að loka stígum, hvernig framkvæmdir skulu merktar, frágang á bundnu slitlagi að verki loknu sem oft virðist gleymast og fleira. Landsamtök Hjól-reið-manna eru tilbúinn að mæta á fund borgaryfirvalda til að ræða þessi mál og önnur sem varða öryggi hjólreiðamanna hvenær sem er.

Við munum á meðan, þrátt fyrir ótal hindranir þrjóskast við og halda áfram á þessari holóttu braut sem virðist njóta lítillar virðingar.
 
 

      f.h. Landsamtaka Hjólreiðamanna
 

      Gunnlaugur Jónasson, formaður LHM
      Hávallagötu 38
      101 Reykjavík
 
 
 
 
 

Samrit:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Borgarstjóri í Reykjavíkur, Ráðhúsi Reykjavíkur
Stefán Hermannsson, Borgarverkfræðingur Reykjavíkur, Skúlatúni 2
Þorvaldur S. Þorvaldsson, Forstöðumaður Borgarskipulags, Borgartúni 3
Óli H. Þórðarson, Umferðarráði, Borgartúni 33
Halldór Blöndal, Samgönguráðherra, Samgönguráðuneyti, Hafnarhúsinu Tryggvagötu
Böðvar Bragason, Lögreglustjórinn í Reykjavík, Hverfisgötu 113-115
Sigurður Skarphéðinnsson, Gatnamálastjórinn í Reykjavík, Skúlatúni 2
 

Til baka á forsíðu