Í sumarbústað með afa og Gittu

Dagana 24. og 25. júní vorum við svo heppin að fá að dvelja með afa Bíbí, Gittu ömmu og Pétri frænda í sumarbústað Félags íslenskra leikara við Laugavatn. Veðurguðirnir voru í miklu stuði og sendu okkur bæði sól og 20° hita! Svona dýrðardagar í íslenskri sveit voru einmitt það sem við útlendingarnir þurftum á að halda!

Einar keyrði okkur börnin í bústaðinn eldsnemma á sunnudagsmorgni áður en hann hélt sjálfur á vakt á heilsugæslustöðina á Selfossi. Við hin þurftum hins vegar ekki að sinna neinum öðrum skyldum þennan dag en að njóta dásamlegs útsýnis af pallinum í sól og blíðu og svamla um í heita pottinum!

Krökkunum fannst potturinn mikið sport þótt Huga þætti hann allt of heitur til að hann legði í að dýfa þar ofan í öðru en tánum! Reyndar var mamma hans eiginlega sammála honum, í svona góðu veðri vill maður eiginlega frekar kæla sig niður en láta sjóða sig niður í rúsínu í heitum potti! Engu að síður áttum við dásemdar stundir á pottinum þennan morgun!

María hefur tekið miklu ástfóstri við þennan agnarsmáa apa sem hún fékk úr Kindereggi um daginn og gætir hans eins og sjáaldurs auga síns! Apinn hefur fengið nafnið Íshi (ég get ómögulega skrifað þetta eins og það er framborið samt) og hér sést hann með blómahatt í bústaðnum.

En María gaf ekki bara Ísha blóm því hún færði Gittu ömmu þennan glæsilega vönd með rótunum og öllu!

    

Huga fannst mikil skemmtun að príla á pallinum og taka tilþrifamikil stökk niður af handriðinu. Mamman var hins vegar ekki alveg nógu dugleg að taka myndir þennan dag enda hafði hún verið í skemmtilegu brúðkaupi kvöldið áður og því eilítið svefnvana!

Daginn eftir var móðirin hins vegar úthvíld eftir góðan nætursvefn við undirleik lækjar og þrasta. Þá bættist pabbinn líka í hópinn enda vaktin á enda og við tók endalaus sæla í sveitinni. Hér eru feðginin María og Einar að hlusta á leiklestur afa Péturs á Kormákssögu! Í baksýn Hekla og Mýrdalsjökull.

Þar sem Huga og Maríu þótt stóri potturinn fullheitur var þeim útvegaður eigin pottur sem þau voru að vonum alsæl með. Maríu þykir fátt fyndnara en að setja sig í jógastellingar þegar á að fara að smella af henni mynd ... ótrúlega góður brandari sem ekkert slær í með tímanum!

Rúsínur í buslulaug ... í það minnsta með rúsínutær og -putta!

Og í stóra pottinum var svo stóra mamman!

Við bústaðinn var lítið bú sem börnunum þótti gaman að leika sér í. Hér er María með opna búð og selur blóm úr móanum, plastdollur og fleira merkilegt.

Hádegisverðurinn var snæddur úti undir beru lofti í sólinni.

Hugi sætur að útbúa blómasúpu.

  

Það tilheyrir algjörlega að hnýta blómakransa þegar maður er í íslenskri sveit! María og mamma hennar fóru því um víðan völl í leit að sem fjölbreyttustum blómum og svo sat sú síðarnefnda við hnýtingar næsta klukkutímann eða svo. Hér eru Gitta og María krýndar afrakstrinum.

Aumingja Hugi fékk hins vegar flís í lófann og plástur á bágtið eftir að læknirinn faðir hans var búinn að rífa hana burt. Þetta þóttu honum aum örlög ... eins og sjá má.

Og auðvitað fékk ég minn eigin krans líka. Hér erum við mæðgur blómum skrýddar.

Blómleg hjón (-aleysi ... þori ekki annað en að taka það fram þar sem ég fæ ævinlega spurningar um leynibrúðkaup ef ég kalla okkur bara hjón!). Ég vil biðja lesendur afsökunar á því hvað ég er ómáluð og ófríð á þessum myndum en eins og María segir: „Fjörunni er alveg sama hvort maður er fínn eða ekki!“

María óskaði sérstaklega eftir að þessi uppstilling á hennar vegum yrði mynduð. Spurning hvort ég gæti reynt að selja Kjörís þessa?

Af því að þetta er mín eigin síða má ég alveg setja inn enn eina montmyndina af blómakrönsunum! Hér sjást ýmsar jurtir í návegi, sóleyjar, blágresi, smjörgras, fjalldalafíflar og brönugrös (hver vissi að þau væri að finna í villtri íslenskri náttúru?!).

Jú, jú, Pétur yngri var á staðnum líka!!! Hér er hann að lesa í síðdegissólinni á pallinum.

Ég veit að Einar bíður spenntur eftir að þessi mynd verði sett á alheimsnetið! Hér má sjá Einar í smekklegu dressi sem hann hugðist fara í niður að Laugavatni: stuttermabol og kvartbuxum við jakkafatajakka! Best af öllu þykja mér þó pennarnir í brjóstvasanum ... bara svona ef hann þyrfti mjög skyndilega - bara hviss, búmm, bang - að skrifa út lyfseðil fyrir einhvern!

Áður en haldið var niður að vatninu var ákveðið að taka myndir af afa og ömmu með krílin. Oft getur reynst erfitt að taka myndir af litlum börnum, ekki síst þegar þau eru tvö (eða fleiri!) saman á mynd og það þarf að ná báðum góðum í einu. Í þessari myndatöku var það hins vegar afi Bíbí sem olli mestum vandræðum!!! Hér má sjá eitt dæmi um þá svipi sem hann setti upp meðan aðrir voru sætir og prúðir!

En þessi er nú bara nokkuð góð, er það ekki?!

    

Þegar komið var niður að vatninu kættust börnin mjög og hófu æsilegt steinakast. Bæði hafa þau mikinn áhuga á möl og grjóti en vanalega er lagt blátt bann við söfnun eða kasti slíkra muna svo þeim þótti mikið frelsi að fá óhindrað að fleygja steinum út í vatnið og fylgjast með skvettunum. Á myndinni af Huga má einmitt sjá litla gusu skammt frá landi og á myndinni af Maríu sjást þrír steinar í loftinu.

Afi myndar prinsessuna.

Útsýnið við vatnið var ægifagurt og auðvitað dásamlegt að fylgjast með börnunum.

„Þarna er Útey ...“ er afi áreiðanlega að segja við hina fróðleiksfúsu dótturdóttur sína.

Hugi og afi kasta steinum og sandi. (Án efa uppáhaldsmyndin mín úr þessu albúmi!)

Ferðafélagarnir í rokinu við vatnið, Einar, afi/pabbi, Gitta og Pétur inni í bíl.

Á leiðinni aftur í bústaðinn voru draumar Maríu látnir rætast og stoppað í lúpínuhafi. Hugi hafði þó engu minna gaman af uppátækinu!

Sætur blómálfur.

Blómastelpan María hefur legið yfir blómabókum með ömmu sinni á Bakkastöðum frá því hún kom til Íslands og kann nú góð skil á flóru landsins og var dugleg að fræða aðra í ferðinni.

Lúpína í nærmynd. Maður fær næstum ofskynjanir, í það minnsta sjóntruflanir, af að horfa á lúpínuhafið þarna í baksýn lengi!

Afi lék hið ógurlega skrímsli Lúpínus og Hugi varð hræddur og baðst vægðar. Öðrum var skemmt.

María og Gitta skruppu niður að læk ...

... og María ákvað að klæða sig úr skóm og sokkum og prófa að dýfa tásunum í ískalt vatnið.

Er hún yndisleg eða hvað?!

Vatnið var ískalt enda að koma beint úr fjöllunum þannig að það var bara bláendinn á tásunum sem fékk bað!

    

Á meðan María og Gitta busluðu voru Hugi og afi í tilraunastarfsemi annars staðar við lækinn. Laufum og stráum var hent í strauminn og markmiðið að sjá það fljóta inn í rörið og koma út hinum meginn við veginn.

Þótt Jónsmessunóttin væri liðin var líkt og Bokki hefði gleymt sér á pallinum við F.Í.L. bústaðinn. En það var þá bara afi Bíbí sem grillaði dásamlegar nautasteikur ofan í mannskapinn.

Maríu og þó sérstaklega Huga fannst afi brjálæðislega fyndinn! Maturinn var hins vegar svo sjúklega góður að ég steingleymdi að taka myndir af borðhaldinu sjálfu. Við litla fjölskyldan lögðum svo af stað í bæinn skömmu eftir að síðasta bitanum hafði verið rennt niður.

Leiðin heim lá um Þingvelli og þar var ægifagurt í kvöldsólinni. Eins og vanalega tókst þó engan veginn að festa dýrðina á filmu. Hvernig í ósköpunum tekur maður fallegar landslagsmyndir?!?!

Hugi steinsofnaði á leiðinni og kvöldsólin gyllti kyssulega vanga hans.

Við hin fórum hins vegar út úr bílnum við Flosagjá til að kasta peningum í vatnið og óska okkur. Hér eru María og Einar alvarleg í bragði að íhuga óskir sínar.

3/4 fjölskyldunnar á Þingvöllum í miðnætursól.

Takk fyrir okkur elsku afi Bíbí, Gitta amma og Pétur!