v/Snartarstaði

67l Kópasker

Sími 465-2171

Samvinna við ysta haf.
Starfsemi KNÞ 1894 –
1989.

Myndir tengdar KNÞ.

110ár voru frá stofnun KNÞ árið 2004. Í því tilefni var sýning á safninu árið 2004, tengd starfseminni.

 

Einokun lýkur

Árið 1787 lauk einokun Danakonungs og leigutaka hans á verslun hér á landi, er hún var gefin frjáls við þegna konungs. Móðuharðindin voru nýlega afstaðin, menn og skepnur höfðu orðið hungurmorða. Þjóðin var svo hart leikin af fátækt, skorti og skuldum vafin að ekki var lengur neitt af henni að hafa.

Nýir yfirherrar

Íslendingar voru ekki í stakk búnir að færa sér í nýt verslunartilslökun konungs, bæði kom þar til skortur á þekkingu og fjármagni. Verslunarstjórar konungs keyptu hús og vörur auk skulda landsmanna við konung. Ekki bötnuðu kjörin við þessi eignendaskipti.
Í Hálshreppi og Ljósavatnshreppi voru stofnuð samtök til að knýja fram betri kjör hjá kaupmönnum árið 1844.

Umbætur í verslunarmálum

Margir börðust fyrir umbótum í verslunarmálum. Fyrir þá baráttu vannst að formi til fullkomið verslunarfrelsi að árið 1854. Þangað til hafði verið óheimilt að versla við aðrar þjóðir en Dani. Jón Sigurðsson forseti hvatti þjóðina til að taka verslunina í sínar hendur. Á næstu áratugum bundust menn samtökum í heilu héruðunum til að stunda verslun.

Verslað beint við útlönd

Árið 1868 strandaði seglskipið “Emilie” við Eyjafjörð. Nokkrir Eyfirðingar keyptu skipið og buðu út hlutabréf til að gera við skipið. Hugmyndin var að stunda kaupferðir milli landa á skipinu, sem fékk nafnið Grána. Árið 1870 hóf Gránufélagið verslunarsiglingar milli landa. Þó svo örlög þess félags yrðu raunaleg opnaði starfsemi þess augu þjóðarinnar fyrir möguleikum sem hún þekkti ekki áður.

Hugmynd um beina sauðasölu

13.desember 1880 var fundur að Múla, S-Þing., þar sem fyrst var rætt opinberlega um að fá Slimon til að senda skip og umboðsmann til Húsavíkur, til að kaupa sauði af bændum í sýslunni beint og milliliðalaust. Í febrúar 1881 var óskað eftir forystu sýslunefndar um málið, en undir-tektir hennar voru mjög daufar, gripu þeir til þess úrræði að fela Jakobi Hálfdanarsyni á Grímsstöðum að semja við einhvern enskan kaupmann, Slimon eða annan um að koma með fjárkaupaskip til Húsavíkur á næsta hausti.

Sauðasala frá Húsavík hefst

Jakob og frændi hans Benedikt frá Auðnum voru vonsviknir með niðurstöðu sýslunefndar á þessu brennandi nauðsynjamáli. Þeir taka höndum saman, senda Slimon bréf og bjóða honum skipsfarm af sauðum, 2000-3000 á Húsavík á næsta hausti. Slimon stefnir Jakobi til Akureyrar til samningagerðar og um haustið koma bæði skip og sauðir til Húsavíkur á tilsettum degi.
Með skipinu komu vörur er Jakob hafði pantað. Jakob seldi vörur þessar úr húsakynnum Örum & Wullf.

Fyrsta kaupfélagið stofnað

Í framhaldi af þessari vel heppnuðu sauðasölu fór boltinn að rúlla furðu hratt þegar tekið er tillit til tímans, engir vegir, bílar né sími. 10 dögum eftir sauðasöluna er haldin fundur þar sem ákveðið er að stofna Kaupfélag Þingeyinga, KÞ.
Jakob kom með þá tillögu að þetta skuli vera arðlaust félag. Var það samþykkt og löngu síðar var aðferð jakobs lögtekin með Samvinnulögum á Alþingi. Kelduhverfi var meðal þeirra hreppa sem stóðu að sauðasölunni og stofnun KÞ., þetta ár.

Halldór, prestur í Presthólum skrifar bréf

Halldór Bjarnason, prestur í Presthólum skrifar formanni KÞ bréf, líklega árið 1893, þar sem hann skýrir frá því að samtök hafi verið stofnuð í Núpasveit um það að fá vörur til Kópaskers með atbeina KÞ. Með bréfinu fylgdi vöru-pöntun. Forráðamenn KÞ, ræddu þetta bréf og var afráðið að senda menn norður um sveitir, alla leið á Langanes, til að sjá hvort hægt væri að stofna kaupfélög.
Jón Gauti Jónsson og Júlíus Ólafsson fóru þessa ferð. Þeir höfðu ætlað sér alla leið til Þórshafnar, en dagaði uppi í Sveinungsvík. Í Núpasveit voru undirtektir traustar en aðeins einstakir menn öruggir annarsstaðar.

Kaupfélag Norður Þingeyinga fæðist

Á fundi í Presthólum haustið 1893 var ákveðið að stofna kaupfélag eða pöntunarfélag. Nafn þess var ákveðið Kaupfélag Norður Þingeyinga, KNÞ. Skorað var á Jón Jónsson Gauta að gerast forgöngumaður þess. Þorsteinn Þorsteinsson hreppstjóri á Daðastöðum var kostinn deildarstjóri félagsdeildar, er síðar var nefnd Núpadeild. Séra Halldór sat fundinn, en áður en fundi lauk, reis hann úr sæti sínu og lýsti yfir því að hann gengi ekki í þennan félagsskap né styddi hann. Jón Gauti mat málið þannig að ef hann tæki ekki að sér forgöngu í félaginu mundi það stranda í bráð. Mönnum var falið að koma á félagsdeildum í hinu nýja félagi.

Fyrstu sporin

Í febrúar 1894 fóru Jón og Júlíus aftur norður. Jón fór fram Öxarfjörð og Hólsfjöll, en Júlíus um Sléttu og Núpasveit til að safna pöntunum og vöruloforðum. Pöntunin var fjölbreytt og tók yfir flestar nauðsynjar manna á þeim tíma.
Vörurnar áttu að koma í maí. Allur maí leið, mikið af júní og ekki kom skipið. Spenna var hjá mönnum, miklu skipti að vel tækist til. Enginn hafði hugmynd um hvernig tækist að koma vörum í land við Kópasker úr gufuskipi á smábátum.

Skipið kemur

Einn sólskinsdag seint í júní sést skip koma vestan flóann. Hafnsögumaðurinn, Jón Ingimundarson á Brekku fór fram, er skipið nálgaðist. Fyrsta gufuskipið er komið til Kópaskers. Stór uppskipunarbátur kom með vörurnar í land, sett var fram lausabryggja og vörunum skipað upp í sandinn.

Vörum skipt milli deilda

Vörunum var hlaðið upp í sandinn, þaktar með ábreiðum. Hraðboði var sendur um sveitirnar með fréttir þessar og náðist til allra deildastjóra snemma daginn eftir. Ekki liðu nema nokkrir dagar þar til allir voru búnir að fá sitt. Talið var að vörurnar væru að minnsta kosti 30% ódýrari en sambærileg vara hjá kaupmanninum.

Ull og sauðir fluttir út

Nú þurfti að safna saman og koma frá sér innlendu vörunni. Fengin var heyhlaða á Snartarstöðum til að geyma ullina í. Einnig var tekið á móti æðadúni og skinnum í hlöðunni.
Aðalinnleggið voru sauðirnir. Um haustið voru þeir reknir til Akureyrar. Á þessum tíma voru allar ár og sprænur óbrúaðar. Fyrst varð að ferja allt á litlum pramma yfir Jökulsá. Þó að sauðir hafi áður verið seldir á fæti var það á ábyrgð kaupenda, en nú var þessi ferð farin á ábyrgð seljandans, bóndans. Gaman er að geta þess að fyrir sauði frá KNÞ fékkst yfirleitt betra verð en frá öðrum, meðalþyngd þeirra var hærri.

KNÞ festir rætur

Fundur var á Brekku, Núpasveit snemma árið 1895. Þar var kosin bráðabirgðastjórn og endurskoðendur reikninga. Var ákveðið að halda fulltrúafund seint á árinu þar sem ákveðin yrðu lög fyrir félagið, stjórn kosinn og ráðið fram úr framtíðarmálum. Þessi fundur var haldin 2. nóvember 1895 að Austurlandi. Lög voru lögð fram og samþykkt. Fyrsta lögmæta stjórnin var kostinn auk endurskoðenda.

Fyrsta lögmæta stjórn KNÞ

Jón Jónsson frá Gautlöndum var formaður og framkv.stj., til 1916. Páll Jóhannesson á Austurlandi og Hannes Þorsteinsson á Víðirhóli. Við lát Hannesar árið eftir, 1896 var Jón Ingimundarson á Brekku kosinn í stjórnina. Páll var í stjórn í tíu ár. Gunnar Árnason, Skógum og Björn Guðmundsson á Grjótnesi voru nokkur ár í stjórn. Þorsteinn Þorsteinsson, hreppstjóri á Daðastöðum, var kosinn í stjórn 1908, og sat í henni þar til hann lést 1942.

Ekki áfengi takk fyrir

Þegar á fyrstu árum KNÞ var tekið upp á að fá allar nauðsynjar félagsmanna frá útlöndum, nema áfengi, sem félagið flutti aldrei inn eða pantaði. Fyrsta eða önnur sláttuvélin sem kom til landsins flutti KNÞ inn annað eða þriðja árið sem það starfaði. Í KNÞ-bókinni 1976 talar Björn Haraldsson um að hún sé enn nýtt, gaman væri að frétta af henni?

Enn og aftur af sauðum

Útflutningur lifandi sauða hófst hér með félaginu og hélst samfleytt til 1912. Útflutningur lifandi fjár var erfiður og hættulegur, en verðið var hærra lengst af. Það þótti mikill kostnaður og nokkur áhætta að koma fénu til Akureyrar. Eftir fyrsta árið var farið með féð til Húsavíkur. Næsta ár var féð rekið til Þórshafnar, en 1897 fréttist, eftir að féð hafði beðið á Þórshöfn í hálfan mánuð, að sauðaskipið hefði farist. Voru sauðirnir reknir til Vopnafjarðar í verstu færða og veðráttu. Þar kom í ljós að ekki var hægt að taka alla sauðina með, 1/5 varð eftir. Voru sauðirnir reknir sömu leið til baka inn í Núpasveit. En næsta haust og upp frá því voru sauðir teknir í skip á Kópaskeri. 1908 var fyrst tekið sláturfé á Kópaskeri.

Söludeild á Kópaskeri

Áður en félagið var stofnað var venja að menn tækju ársþarfir sínar í einu á Kópaskeri. Þegar sauðaskipin fóru að koma til Kópaskers breyttist þetta. Menn fóru að panta vörur með því. Upp úr því myndaðist svo vísir að söludeild KNÞ, vörum fjölgaði smátt og smátt. Utanfélagsmenn gerðust áleitnir, en þeir höfðu fengið vörur frá félagsmönnum. Árið 1906 fékk félagið söluleyfi á Kópaskeri. Nú var heimilt að selja til utanfélagsmanna.
Árið 1908 var byggt við eldra hús sem notað var fyrir söludeildina og skrifstofu félagsins.

Landnámsmaður á Kópaskeri

Fyrstu árin var söludeildin einungis opin þegar vor- og haustskipin komu. En árið 1912 reisti Árni Ingimundarson, aðalstarfsmaður félagsins, íbúðarhús á Kópaskeri og settist þar að. Áður hafði enginn verið þar búsettur. Upp frá því var greiður aðgangur til að versla alla virka daga ársins.

Fyrsta bryggjan

Lengi framan af báru Brekkubræður, Jón, Guðmundur og Árni Ingimundarsynir ábyrgðina á fram- og uppskipun vara kaupfélagsins. Fyrstu árin var ekki bryggja á staðnum, en var byggð 1898 úr timbri á grjótfylltum timburkörum. Oft þurfti að endurbæta hana, en hún gjöreyddist í hafróti 1933. Eftir það var ný bryggja byggð úr steinsteypu. Nokkrum sinnum hefur verið byggðar nýjar bryggjur á Kópaskeri.

Kaupfélagsstjórar KNÞ

Jón Gauti Jónsson, 1894-1916
Björn Kristjánsson, 1916-1946
Þórhallur Björnsson, 1947-1966
Hrafn Benediktsson, 1966-1970
Kristján Ármannsson, 1970-1976
Ólafur Friðriksson, 1976-1982
Pétur Þorgrímsson, 1982-1987
Eysteinn Sigurðsson, 1987-1989

Útibú KNÞ

Útibú á Raufarhöfn.
Útibú við Araós norður af Ærlækjaseli í skúr, 1918-1927.
Útibú í vöruskúr hjá Núpi, 1945 -1955.
Útibú í vöruskúr á Grímsstöðum, frá 1958.
Útibú í Keldunesi árið 1964-1965.
Útibú við Ásbyrgi frá miðju 1974.

Fjármögnum

Sérhver verslun þarf á fjármagni að halda. Slíkt var ekki fyrir hendi við upphaf KNÞ. Verslunin upphófst með vöruláni hjá erlendum umboðsmanni, sem varaði að meira eða minna leyti rúmlega tvo áratugi. Hægt gekk að safna fé heima fyrir þótt verslun KNÞ færði mönnum þegar í byrjun stórfelldan hagnað miðað við það sem áður var.
Árið 1901 var varasjóður – stofnsjóður stofnaður. Ekki er heimild fyrir að leitað hafi verið til lánastofnanna fyrr en árið 1908 vegna framkvæmda.

Fjárgeymsla fyrir félagsmenn

Árið 1904 var samþykktar reglur fyrir sparisjóð KNÞ.
Tilgangurinn var að geyma fé , ávaxta og útborga vexti af innlögum. KNÞ ábyrgðist sjóðinn að öllu leyti og stóð straum af kostnaði við hann. Ekki fór þessi starfsemi af stað fyrr en Innlánadeild var stofnuð 1941.

Starfsemi KNÞ á Kópaskeri

Sölubúð KNÞ
Sláturhús KNÞ
Trésmiðja KNÞ
Vélaverkstæði KNÞ
Hótel KNÞ
Innlánsdeild KNÞ
Pakkhús KNÞ
Fólks- og vöruflutningar KNÞ
Umboð fyrir Flugfélag Íslands

Myndir tengdar KNÞ.

Heimildir: Bækurnar um Kaupfélag Norður Þingeyinga

 

<<<