Veðurspáin var vond. Fyrir tilviljun hringdi ég í Veðurstofuna. Það var aðallega vegna þess að veðurspáin í sjónvarpi og á netinu var eitthvað svo óljós að ég ákvað að fá nánari útskýringar. Uppá veðurstofu náði ég sambandi við veðurfræðing sem sagði mér að það væri djúp lægð á leiðinni og spáin hljóðaði uppá norðaustan slagveður hávaðarok og rigningu og ég skyldi fresta ferðinni. Þetta var daginn fyrir brottför. Við hringdum strax í Ferðafélag Íslands uppá skálaplássið og komumst að því að hægt var að breyta gistingunni og fresta fram yfir lægðina. Nú var sko úr vöndu að ráða því valið stóð á milli þess að fara þó maður sæi ekkert og myndi lenda í einhverslags vosbúð eða að fresta ferðinni og treysta á að veðrið yrði betra eftir nokkra daga. Það var hringt í aðra félaga úr hópnum og látið vita og þeir hringdu líka á veðurstofuna til að fá sína útgáfu af spánni. Vilberg og Hansína ákváðu að fara samt þrátt fyrir allar veðurspár og Þorgeir og Hildur líka en ég og Sigrún ákváðum að útsýnið skipti okkur mestu máli auk þess sem við vorum bæði í sumarfríi og höfðum það rúman tíma að við gátum alveg frestað ferðinni um nokkra daga. |