GOÐSAGAN UM MÓÐUR JÖRÐ


Nú þegar fjallað hefur verið um Gaiahugmyndina í bak og fyrir er rétt að fara að snúa sér að samanburðarhugmyndinni um Móður Jörð. Þar er verkið þó þegar hálft, því skilgreining Jarðarhugtaksins hér á undan nýtist báðum hugmyndum jafn vel. Eins og þar kom fram hafði Jarðarhugtakið aðra merkingu fyrir mönnum fyrir þann tíma er menn gátu virt plánetuna fyrir sér utan frá. Orðið vísaði í samheiti alls þess sem myndaði "jarðveginn" en ekki hnött er svífur um í myrkum geimi. Þau samfélög sem skorti fjarlægðina á Jörðina bjuggu í heiminum. Það kann að hljóma furðulega en vestrænt þjóðfélag hefur mikið til tapað þeirri tilfinningu. Við það að hafa farið út fyrir Jörðina og horft á hana utan frá höfum við slitið okkur úr tengslum við hana. Við virðum hana fyrir okkur, mótum hana með ýmsu móti, verndum hana, skemmum hana, en við búum ekki í henni (Ingold, 1993, bls.32-34). Heimurinn er ekki lengur yfir höfði okkar, heldur undir fótum vorum, og það endurspeglast á landakortum og hnattlíkönum þar sem hinum samfellda lífræna heimi hefur verið skipt niður í skýrt afmörkuð lönd, hvert með sínu sérstaka nafni. Þetta er allt aðgreint með litum í hróplegu ósamræmi við raunverulegt litaflæði meginlandanna. Þarna er engu líkara en að menningarheimurinn myndi eins konar hvolf utan um lífhvolfið. Jörðin umlykur ekki manninn, heldur er því öfugt farið. 

Ferðalagið út fyrir plánetuna (í óeiginlegum skilningi), sem sleit manninn með áðurgreindum hætti úr tengslum við Jörðina, var samstíga aukinni vísindahyggju upp úr Endurreisninni. Við það tóku menn að búta sundur umhverfið í hinar smæstu einingar eðlis- og efnafræðinnar, auk þess sem að skörp skil mynduðust á milli rannsakanda og umhverfisins. Heimurinn varð persónulaus og fjarlægur í senn. Þau samfélög sem ekki fóru í gegnum þessa vísindaþróun hneigjast því til að túlka umhverfi sitt með öðrum hætti en við gerum í okkar vestræna samfélagi. Náttúrugoðsögur eru þar ráðandi og fjalla um krafta umhverfisins sem heildsteypta veru, eða verur, með eigið vitundarlíf, í stað sundurgreindrar og persónulausrar kaóstilveru smágerðra atóma og efnasambanda. Slíkar náttúrugoðsögur hafa verið útskýrðar af mannfræðingum fyrri hluta aldarinnar sem dæmi um bernskubrek mannsins í viðleitni sinni til að skýra út umhverfi sitt og gera það skiljanlegt (Hatch, 1973, bls. 34). Að baki hverri goðumlíkri veru var ekki að finna skilning á efnaferli eða efnislegri samsetningu fyrirbærisins, heldur var fyrst og fremst fjallað um fyrirbærið sem heildræna veru er hafði yfir að ráða persónuleika, tilfinningar, hugsanir og langanir. Með tilvísun í mannlegt atgervi var því reynt að sjá fyrir hvað vindurinn, eldurinn og brimöldur hafsins ætluðu sér fyrir. Með goðsögulegri útskýringu á ævi eða tilhneigingum sérhvers náttúruguðs var þar með reynt að skýra út breytilegan styrk eða stefnur náttúruaflanna. Allt var þetta matreitt á formi auðskiljanlegra frásagna er gengu mann fram af manni. Allar höfðu sögurnar eitthvert forspárgildi, enda mótaðar af aldalöngum kynnum af eðli náttúrunnar, en oft kom þó fyrir að skilning brast og forspá reyndist fölsk. Frekar en að draga úr trúnni á viðkomandi náttúrugoðsögu þótti breytileikinn og ófyrirsjáanleikinn fullkomlega í takt við reynslu manna af breytilegu lunderni hvers manns. Í stað þess að standa í algjöru skilningsleysi gagnvart hinum miklu öflum var því hægt að reyna að hafa áhrif á þau og milda með undirgefinni hegðan eða tilbeiðslu. 

Umhverfið hefur frá alda öðli verið þrungið goðsögum er skýra út gang tilverunnar. Ekki þarf að leita til "frumstæðari" samfélaga en til forn-Grikkja, Rómverja eða Víkinga til að rekast á goðumlíkar verur, hver og ein með skýrt afmarkað hlutverk, ýmist sem guð þrumunnar, gyðja frjóseminnar eða drottnari sjávar, svo að dæmi séu tekin. En hvers vegna skyldi goðsagan um Móður Jörð standa sem eins konar samnefnari fyrir allar þær goðsögur sem fara af hinum margbreytilega gangi náttúrunnar? Hvers vegna "móðir" og hvers vegna "jörð"? Þetta er best að skoða í ljósi þeirrar heimsmyndar þar sem Jörðin hvelfist utan um manninn, en ekki öfugt. Jörð (sem "frumefni") er, mikið rétt, aðeins hluti af því umhverfi sem umlykur manninn , en hún nær þó ansi vel að gleypa hann sem djúpur dalur, fjallasalur eða víðfeðmar sléttur er enda út við sjóndeildarhring. Allt umhverfið, og gangur náttúrunnar í lofti, láði og legi, eru nefndir eftir henni öðru fremur vegna þess hve ráðandi og nærstæður þáttur umhverfisins hún er, í samanburði við haf, himinn og eld. 

Aðra ástæðu þess að talað er um Móður Jörð, en ekki Móður himinn, eða móður haf, mætti rekja til þess að móðurhugtakið á meira sameiginlegt með jörðinni en himni eða hafi. Jörðin er áreiðanlegasti hluti umhverfisins og veitir skjól, öryggi og fæðu. Þetta er jafnframt vísbending um það hvers vegna fjallað er um jörðina sem móður en ekki föður (eða lífveru, ef út í það er farið), og bendir okkur því í leiðinni skýrt á hvaða þættir móðurhugtaksins eru mikilvægir í myndlíkingunni Móðir Jörð. Það er því ljóslega færnin að geta af sér líf og hlúa að því af alúð sem tengir Jörð og móður saman. 
 
 
 

næsti kafli