GAIA: JÖRÐIN SEM LÍFVERAÞegar Jörð er líkt við lífveru stöndum við frammi fyrir tvenns konar vanda. Annars vegar þurfum við að vita hvaða Jarðarhugtak við eigum að notast við, og hins vegar hver hinna fjölmörgu einkenna lífvera (æxlun, næringarupptaka, hreyfing o.s.frv.) eiga við um Jörðina, og hver ekki. Hversu langt gengur samanburðurinn? Fyrri spurningunni er auðsvarað því lífverulíkingin var fylgifiskur þriðju og síðustu Jarðarhugmyndarinnar. Sú Jarðarhugmynd er algert skilyrði þess að hægt sé að ímynda sér Jörðina með nokkrum hætti sem lífveru. Jörðin í annarri merkingu (sem aðgreint fyrirbæri frá lífinu) er eins fáránleg hugmynd og að ímynda sér lífverur Jarðar sem eins konar pöddur er skríða utan á annarri enn stærri lífveru. Enn síður er hægt að ímynda sér afmarkaða veru úr "frumefninu" jörð. Það er rétt að benda á þetta áður en lengra er haldið, því hætt er við að fyrir manni þvælist óhæf hugtök sem koma í veg fyrir allan skilning á því sem um ræðir. Jörðin í þriðju merkingu (sem órofa lífræn heild) er það eina sem hægt er að líkja við lífveru. Þegar hinni órofa Jörð er líkt við lífveru er samsvörunin augljós upp að vissu marki, því efnasamsetning og efnaskipti eru lífverum og plánetu áþekk, eins og áður var komist að. Ef plánetan er hins vegar skoðuð sem heild og hvernig hún verkar á umhverfi sitt verður samlíkingin strax mun vandasamari. Jörðin fjölgar sér ekki, hún nærist ekki, hún skilar ekki úrgangi, hún gerir "út á við" í raun mjög fátt af því sem lífverur gera, eins og við höfum kynnst þeim. Spurningin er hins vegar sú hvort þær lífverur sem við höfum haft kynni af geti talist óyggjandi mælikvarði á lífverur alls staðar, og ef svo er, hvort við getum við yfirfært atferli lífvera Jarðar upp á tilverusvið Jarðar, sem er allt annars eðlis? Aftur stöndum við frammi fyrir tvískiptum vanda. Fyrri spurningin vekur upp efasemdir um tilraunir mannsins til að flokka og skilgreina umhverfi sitt en hin síðari fjallar um eðli yfirfærslu frá einu veruleikasviði yfir á annað, og leiðir lesandann á endanum í vangaveltur um myndlíkingar og hlutverk þeirra.
a) Vanfærni tungumálsins sem skilgreiningarverkfæri Samkvæmt áðurgreindri póstmódernískri nálgun hefur sérhvert fyrirbæri, hlutur eða vera, ótakmarkaðan fjölda eiginleika (allt eftir því hvernig við kjósum að haga skilgreiningu okkar). Oftast nær takmarkast sýn okkar á umhverfið að miklu leyti af þeim fordómum og hugmyndum sem við berum til þess fyrirfram . Þeir beina athyglinni í ákveðinn farveg, því ekki getum við með nokkru móti tekið á móti öllum þeim áreitum sem af hlutunum eða umhverfinu stafar. Það sem við sjáum er því að miklu leyti endurspeglun þess hvernig við sjálf horfum fremur en óyggjandi lýsing á því hvernig umhverfið er. Þessi skortur á hlutlægni kemur mjög skýrt fram í gömlum tilraunum manna til að gera umhverfi sínu, og lífríki, skil. Lífríkið var einfaldlega flokkað eftir smekk mannsins og afstöðu hans til þess. Fuglar voru flokkaðir eftir fegurð söngsins og plöntum var skipað niður eftir því hvort þau voru trygg eða hættuleg, æt eða óæt, gagnslaus eða gagnleg (Thomas, 1983, bls. 51-2 og áfram). Það var ekki fyrr en á tímum vaxandi módernisma og vísindahyggju að menn fóru að reyna markvisst að meta umhverfi sitt út frá innri gerð og byggingu þess sjálfs. Flokkunarkerfi okkar hafa vissulega batnað í gegnum tíðina, en engu að síður er fráleitt að halda því fram að við höfum (eða yfirleitt getum) gert umhverfi okkar fyllilega skil. Það flokkunarkerfi sem vísindamenn styðjast helst við í rannsóknum sínum (flokkunarkerfi Linneaus) skipar lífverum Jarðar í flokka og undirflokka þar sem hver dýrategund virðist hafa sinn trausta sess í ættartré lífríkisins. Þó svo að flokkunarkerfi þetta hafi margsannað notagildi sitt og reynst afar hjálplegt til að greina að tegundir, eða hópa þeim saman í skyldleikabása, þá hefur það komið á daginn að fjölmargar dýrategundir passa ekki inn í kerfið - þær hafa gerst útlagar . Til er fjöldinn allur af sérstæðum dýrategundum sem brjóta af sér allar spennitreyjur flokkunarkerfisins. Goðar eru til að mynda fuglar sem eiga fátt skylt með öðrum fuglum, og eiga sér að auki þróunarsögu er hverfur í þoku. "Þeir líkjast brúsum í einstaka háttum og líkamlegu atgervi, árfetum í bláleitum eggjum þöktu mjúku kalklagi og sundhönum í fótagerð" (Guðmundur P. Ólafsson, 1987, bls. 158). Spendýrin breiðnefur og mjónefur eru sams konar furðufyrirbæri, því þeir verpa eggjum jafnframt því að hafa afkvæmi sín á spena. Sveppir hafa þó komið enn meira róti á flokkunarfræðinga. Þeir tilheyra hvorki dýraríki né jurtaríki, og hafa því, löngu eftir tíma Linneaus, verið látnir sölsa undir sig sitt eigið svepparíki til áréttingar um sérstöðu sína. Enn djúpstæðari er þó storkunin "af hendi" veira, því þær setja stórt spurningarmerki við skilgreiningu lífvera almennt. Atferli þeirra tekur ekki á sig neina lífræna mynd nema þær fyrirfinnist innan lífræns massa (innan fruma). Þar fyrir utan eru þær að allri gerð eins og dauður kristall, rétt eins og þær skorti eigin lífskraft. Það má alltaf efast um þær markalínur
sem dregnar hafa verið, og freista þess að draga þær
að nýju og skipa þar með í nýja bása
svo að útlagar í flokkunarkerfi Linneaus finni sér
samastað. Hættan við slíka breytingu er hins vegar
sú að aðrir yrðu útundan sem í dag smellpassa
í kerfið. Hvernig, eða hvort, hægt sé að
bæta flokkunarkerfi Linneaus er hins vegar aukaatriði. Mikilvægara
er að gera sér grein fyrir að öll flokkunarkerfi eru
manngerð en ekki sjálfsprottin úr náttúrunni
(frekar en tungumálið) og eru því opin fyrir sífelldri
endurskoðun. Þetta kemur skýrt í ljós í
eftirfarandi texta:
Þetta má heimfæra upp á skilgreiningu lífvera almennt. Öll megineinkenni lífvera (fjölgun, dauði, úrgangsskilun, næringarupptaka, hreyfing, vöxtur) standa sem góð viðmið fyrir líf á Jörðinni, án þess þó að hrista af sér allan óyggjandi vafa í sérhverju tilviki. Hvernig getum við, með þessa agnúa í fararteskinu, ætlast til þess að skilgreining lífvera gangi hnökralaust er komið er út fyrir lífhjúp Jarðar? Þau skilyrði sem lífverum eru sett innan Jarðar eru ekki til staðar utan hennar. Tökum dauðleikann sem dæmi. Er hann ekki aðeins tilfallandi? Þurfa líf og dauði að haldast í hendur? Vissulega svörum við því játandi, því það sést allt í kringum okkur, enda þurfa lífverur að hrörna og deyja til að mynda pláss (og veita efnivið) fyrir nýtt líf. En hvað um Jörðina? Er rétt að beita hana sömu reynslurökum? Getur hún ekki verið dæmi um veru sem ekki stendur í neinni samkeppni? Hún býr við aðstæður þar sem hún þarf ekki að hrörna og deyja. Þannig vill Lovelock lýsa Jörðinni (Lovelock, 1989, bls. 206). Þegar dauðinn er úr sögunni er engin þörf fyrir æxlun lengur, auk þess sem Jörðin þarf hvorki að nærast né skila úrgangi. Henni nægir að viðhalda lífsorku með stöðugum hringrásum og sjálfsviðhaldi á efninu (Lovelock, 1979, bls.2) . En ekki er björninn unnin þó komist sé að samkomulagi um skilgreinandi þætti lífvera. Eftir situr yfirfærsluvandinn, því við það að heimfæra hina skilgreinandi þætti á Jörðina er hætt við því að hin myrki geimur tæmi alla merkingu úr hugtökunum, svo gjörólíkt er samhengi hlutanna. Hvernig er annars hægt að "þýða" einkenni lífvera okkar umhverfis yfir á veruleikann sem plánetan býr við? Hvað er næringarupptaka og úrgangsskilun í umhverfi sem gengur fyrst og fremst út á geislaflæði til og frá Jörðinni? Hvað er hreyfing í umhverfi þar sem engir fastir punktar eru til, heldur aðeins eitt gleypandi tómarúm? Ef við notum sólina sem fastapunkt, er þá hægt að líkja Jörðinni (eins og henni er sveigt um sólu) við hvert annað rykkorn sem bærist í vindinum, eða fer hún sinn árhring af "eigin rammleik" vegna þess að þeir kraftar sem um ræðir myndast að hluta til vegna þyngdareiginleika Jarðar? Allt er þetta spurning um það hvernig við skilgreinum hugtökin, og í raun hvort réttlætanlegt sé að yfirfæra hugtak eins veruleikasviðs yfir á annað. Ekki er nóg að telja upp skilgreinandi þætti lífvera, ef þeir verða merkingarlausir í nýju samhengi. Hreyfing, vöxtur, viðbrögð við áreiti, úrgangsskilun, næringarupptaka og æxlun öðlast öll nýtt gildi við gjörbreyttar efnisaðstæður, stærðir og tíma. Við slíka yfirfærslu er óhjákvæmilegt að kenning verði að myndlíkingu. Það er sama hversu nákvæmlega reynt er að þræða sig eftir öllum skilgreinandi þáttum, við endum alltaf með eins konar túlkun í stað "bókstafsþýðingar" . Gaiakenningin er því í eðli sínu myndlíking. Þar af leiðandi á spurningin hvort Jörðin sé í raun og veru lífvera ekki rétt á sér. Einungis er hægt að spyrja að hve miklu leyti Jörðin likist lífverum.
b) Myndlíkingar Myndlíkingar eru allar takmarkaðar. Þær skýra út vissa eiginleika fyrirbæris út frá eiginleikum einhvers annars fyrirbæris sem stendur mönnum nær. Því fer fjarri að sérhver eiginleiki sé hinn sami (Lakoff/Johnson, 1980, bls.13 & 59) , annars væri myndlíkingin óþörf. Fyrirbærið sem notað er til skýringar í myndhverfingunni er því óhjákvæmilega ólíkt að einhverju leyti, en nógu líkt að öðru leyti til að það megi nýtast til skýringar. Með myndlíkingu erum við því að tala um einn hlut í formi annars og erum þar með að líkja þeim saman að vissu leyti, en að öðru leyti ekki. Þetta þýðir einfaldlega að ef mér er líkt við stál (Steini stál) þá er styrkleiki stáls heimfærður yfir á mig. Það glampar ekki af mér, ég ryðga ekki. Það þarf svo sannarlega ekki að pússa mig (Sami, bls. 10). Við notum myndlíkingar stöðugt í okkar daglega tali, og einkanlega þegar um óljós hugtök eða tilfinningar er að ræða. Ást er til að mynda erfitt að færa í orð og tala um skipulega, en við reynum það stöðugt og notum til þess sífellt nýtt líkingamál eftir því sem við á. Eina stundina er hún ferðalag, og þá næstu er hún orðin sjúkdómur, og andartaki seinna er hún gjafaskipti (Sami, bls. 49 & 85). Ekkert þeirra nægir eitt og sér til að gera ástinni endanlega skil, sem undirstrikar það að hún er fyrirbæri út af fyrir sig og ekki eins og neitt annað, nema að takmörkuðu leyti. Eins er það með tímann, sem við hömrum á að jafngildi peningum. Við erum alltaf að tapa tíma, græða tíma, spara tíma. Þessi myndlíking er gegnumgangandi í allri hugsun okkar, en þrátt fyrir það eru ekki til tímabankar, né heldur getum við unnið okkur inn tíma sem áður tapaðist. Enginn lánar tíma (Sami, bls. 7-9). Öll okkar hversdagslega hugsun er í raun uppfull af myndlíkingum. Þær tilheyra ekki einungis kveðskap eða skáldlegu tali, heldur eru þær sjálfgefinn partur af daglegu tungutaki okkar (Sami, bls. 3-4). Þegar við styðjum kenningar okkar eða byggjum þær á traustum grunni erum við jafnan ómeðvituð um myndlíkinguna "hugmynd er eins og bygging" og teljum okkur vera að tala hreint út. Engu frekar tökum við eftir því hve okkur er gjarnt á að hlutgera orð sem ílát, og merkingu sem innihald þess. Tjáskiptin sjálf myndu jafnast á við vöruflutning. Við tölum um að koma merkingu til skila, gefa hugmynd um eitthvað, ná hugmynd, hafa hugmyndn. Í leiðinni notum við innantóm orð eða innihaldsrík (Sami, bls. 10-13). Skilin á milli myndlíkingar og "beinnar merkingar" eru því oft óljós, og sjaldnast erum við meðvituð um það hvenær um myndlíkingu ræðir og hvenær beina lýsingu, jafnvel í okkar eigin málfari (Sami, bls. 3-4).
c) Lífverumyndlíkingin í félagsvísindum Myndlíkingar hafa reynst notadrjúg á ýmsum fræðavettvangi löngu fyrir tíma Gaiakenningarinnar. Félagsfræðingar og mannfræðingar hafa sótt í lífveruhugtakið til samanburðar við viðfangsefni sitt, samfélagið. Herbert Spencer notaðist við lífveruhugtakið til að gera grein fyrir þróun samfélaga, á tímum vaxandi þróunarhyggju 19. aldar. Hann gerði sér grein fyrir því að það væri vandkvæðum bundið að sjá þjóðfélagið fyrir sér sem afmarkað fyrirbæri, því það væri ósýnilegt í sjálfu sér öðruvísi en sem huglægt (abstrakt) tengslanet milli einstaklinga samfélagsins. Ekki er hægt að "benda á" þjóðfélagið. Spencer tekur fyrirlestur sem dæmi um fyrirbæri sem á sér eigin tilvist (en er í sjálfu sér ósýnilegt) svo lengi sem efniviður hans (samsafn af einstaklingum) skipar sér niður með tilteknum hætti. Þessa niðurröðun, eða skipulag, þar sem hver sinnir sínu hlutverki sem fyrirlesari, kynnir, gagnrýnir eða hlustandi, kallar hann strúktúr fyrirlestrarins. Einstaklingarnir sjálfir eru hins vegar ekki eiginlegur hluti sjálfs fyrirlestrarins, sem sést á því að fyrirlesturinn leysist upp við það að þeir haldi hver í sína áttina að honum loknum. Strúktúinn leið undir lok, ekki einstaklingarnir (Bohannan, 1993, bls.6). Samfélag manna lítur Spencer á sem flóknara fyrirbæri af sama meiði. Það er varanlegra en fyrirlestur, því að við það að einn hverfi brott kemur annar í hans stað. Strúktúrnum er því viðhaldið þrátt fyrir að einstaklingar komi og fari, rétt eins og lífvera sem stöðugt endurnýjar frumur sínar og efnasambönd en viðhelst samt nánast óbreytt. Þróun fyrirbæra var megin áhugasvið Spencers, og hann sá fyrir sér að þróun samfélaga, rétt eins og bygging þeirra, ætti sér skýra samsvörun í lífríkinu. Lífverur, jafnt sem samfélög, verða umfangsmeiri með tímanum og samsetning innri þátta verður margslungnari og sérhæfðari, reyndar svo mjög með tímanum að hver einstök athöfn, eða virkni ("function"), innan heildarinnar verður innbyrðis háð. Handleggurinn sinnir, til að mynda, hlutverki í viðgangi líkamans sem að aðrir líkamshlutar geta ekki sinnt sé hann numinn brott. Á sama hátt sér bakarinn skóara sínum fyrir brauði. Strúktúrinn hélst við vegna þess að hver einasti þáttur hans studdi hver annan, menn þurftu hver á öðrum að halda og geta stólað á að hlutverk annars væri sinnt. Spencer bendir jafnframt á að sérhæfingin stuðli að auknum almennum afköstum, sem jyki virkni heildarinnar. Þróað samfélag var því í huga Spencers þróttmikið samfélag (Bohannan, 1993, bls. 26). Radcliffe-Brown skoðaði samfélagið einnig út frá lífverulíkingunni og athuganir hans voru fyllilega samrýmanlegar hugmyndum Spencers. Hann lagði þó aðrar áherslur og vildi sérstaklega skoða samvirkni innri þátta samfélagsins, óháð þróun þeirra yfir tíma. Virknishyggja hans gengur út á að sérhver athöfn ("activity") líffæra (eða félasglegra fyrirbæra) hafi að gegna hlutverki ("function") í samstarfi allra líffæranna við að halda líkamanum við, en heildarviðurværið er einmitt tilgangur ("functioning") allrar samvirkninnar (Radcliffe-Brown, 1979, bls. 179). Þessi lífverulíking virknishyggjunnar breytti umræðunni um samfélög manna, einkum hvað varðar samanburð milli samfélaga því að ekki var lengur hægt að réttlæta það að taka einhvern afmarkaðan þátt samfélagsins út úr og bera hann saman við samsvarandi fyrirbæri í öðru samfélagi. Það væri eins og að bera maga mannsins saman við maga kýrinnar án þess að taka tillit til samhengis líkamans. Athöfn og bygging fyrirbæris (líkamlegs eða félagslegs) geta verið ólík, eins og með magann í þessu dæmi, en engu að síður geta þau gegnt sama hlutverki hvort í sínum "líkama". Á sama hátt getur líffæri sem virkar á sama hátt í tveimur líkömum gegnt ólíku hlutverki (Radcliffe-Brown, 1979, bls. 184). Þessi ábending virknishyggjunnar varð til þess
að mýkja stífni þjóðhverfra rannsakenda,
er dæma allt út frá eigin samfélagi, og opna
þeim augun fyrir mikilvægi þess að dæma samfélög
á eigin forsendum. Virknishyggjan gaf því afstæðishyggjunni
aukið rými í orðræðu mannfræðinnar.
Lífverusamlíkingin gerði einnig umræðuna um
samfélög skýrari og markvissari en ella, eins og vant
er með myndlíkingum. Með myndina af lífveru í
kollinum gat Radcliffe-Brown gert sér skipulega grein fyrir því
hvernig takast skyldi á við að rannsaka samfélög.
Hann taldi athyglina geta beinst að þremur meginviðfangsefnum.
Í fyrsta lagi væri hægt að skoða strúktúr
eða byggingu ("morphology") samfélaga, og bera hann saman þessa
heildarbyggingu á milli samfélaga. Í öðru
lagi væri hægt að athuga hvernig samvirkni þessara
innri þátta strúktúrsins er háttað
("physiology"). Í þriðja lagi bæri að gefa því
gaum hvernig þessi bygging, og samvirkni innri þátta
hennar, breytist með tíð og tíma ("development")
(Radcliffe-Brown, 1979, bls. 180). Radcliffe-Brown beindi sjónum
sínum fyrst og fremst að fyrri þáttunum tveimur
á meðan Spencer velti sér upp úr þróun
samfélaga, eins og áður sagði.
d) Takmarkanir myndlíkingarinnar Myndræn framsetning lífverulíkingarinnar var vel til þess fallin að einfalda hugarstarfsemina. Illhöndlanleg og óhlutbundin fyrirbæri urðu auðveldari viðfangs. Spencer og Radcliffe-Brown gerðu sér hins vegar báðir fyllilega grein fyrir því að hér var um myndlíkingu ("analogy") að ræða en ekki kenningu ("identification"), og að baki myndrænni framsetningu lægi viss einföldun (Bohannan, 1993, bls.5). Þeir sáu í hendi sér að samlíkingin gengi ekki upp að öllu leyti. Þetta útlistaði Radcliffe-Brown sérstaklega og benti á að það væri ólíkt með lífveru og samfélagi að hægt væri að skoða byggingu lífveru nokkurn veginn óháð virkni líkamsparta, á meðan bygging samfélagsins (félagsleg tengsl) koma einungis í ljós við virkni hennar (Radcliffe-Brown, 1979, bls.181). Annað misræmi milli lífvera og samfélaga sá hann í gegnum hugtökin þroska og þróun. Munurinn á þessum tveimur hugtökum er skýr hjá lífverum (annað er bundið við einstaklinginn, en hitt við tegundina) á meðan þessi skil eru óglögg hjá samfélögum. Nær útilokað er að segja til um hvort breyting á samfélagi sé þroski eða hvort um nýtt samfélag hafi verið að ræða (og breytingin því þróun). Þetta felur í sér að "dauða" lífvera er erfitt að heimfæra upp á samfélagið (Radcliffe-Brown, 1979, bls. 182) . Ljóslega gengur samlíkingin líkami og samfélag
aðeins ákveðið langt, og takmarkast í raun við
innri þætti samfélagsins. Um leið og við erum
komin út fyrir einstaklinginn (bæði í tíma,
hvað varðar æxlun, og rúmi, hvað varðar næringarupptöku
og úrgangsskilun) erum við komin út á hálan
ís. Þessu er eins farið með Jörð Lovelocks
sem hægt er að lýsa upp að vissu marki sem lífveru
. Gaiakenningin fjallar ekki um fæðingu, dauða né
tímgun, né heldur samspil líkamans við umhverfi
sitt (næringarupptaka, úrgangsskilun, hreyfing). Svo lengi
sem menn gera sér grein fyrir þessum takmörkunum (og
að hugarmódelið er í raun hjálplegt sem lýsing
á "innri" starfsemi Jarðar) þá er hugarmódelið
réttlætanlegt.
|