JARÐARHUGTAKIÐSamkvæmt hefðbundnum skilningi jarðfræðinga fyrir tíma Gaiakenningar-innar eru Jörðin og lífverur hennar tvö aðskilin fyrirbæri. Líf þrífst á Jörðu vegna hinna heppilega lífvænlegu aðstæðna sem reynast vera til staðar hér. Samkvæmt þeim er það hending ein að Jörðin skuli rétt staðsett í sólkerfinu, hafi rétt súrefnismagn, sé passlega vernduð frá hættulegum geimgeislum og innihaldi þau næringarefni sem lífverur hennar þarfnast. Þessi tilviljun ræður þvi að líf getur þrifist með þeim hætti sem það gerir á Jörðu, ólíkt öðrum plánetum sólkerfisins. En sem þiggjendur hinna lífvænlegu aðstæðna heldur hljóta þær einnig að þurfa að þola háska í meðlæti. Þeim hefur oft verið líkt við farþega, þar sem Jörðin er eins konar farartæki á ógnarhraða umhverfis Sólu. Þær lífverur sem hafa fótað sig á Jörðinni hafa gert það gegnum tvísýnt ferli í baráttu sinni fyrir vist á yfirborði plánetunnar. Lífverur Jarðar eru í stuttu máli þolendur hennar, og aðeins þegar þær finna skjól undan ægilegu afli kvikunnar eða þrumugný himins eiga þær von að njóta lífs (Lovelock, 1991, bls. 11-12). Þessa máttvana tilfinningu okkar fyrir hönd lífríkisins (gagnvart plánetunni) má rekja til tilhneigingu okkar til að miða hlutina við okkur sjálf. Við hugsum í bullandi einstaklingshyggju og metum umhverfið ósjálfrátt út frá ógnun þess gagnvart okkur sjálfum sem einstaklingum. Í sjálfhverfum hugsunarhætti heimfærum við þessa hugsun upp á tilveru lífríkisins, þar sem við sjáum hverja skepnu máttvana gagnvart stærri öflum umhverfisins. Við gerum einfaldlega þá skyssu að meta lífríkið á öðrum forsendum en plánetuna, og miðum lítinn hluta þess við miklu stærri heildir umhverfisins. Ef við vörpum þessu hins vegar fyrir róða, og skoðum hlutina í nýju samhengi, kemur allt annað í ljós. Við sjáum fyrir okkur heilu hjarðirnar af dýrum, heilar dýrategundir, jafnvel fjöldann allan af dýrategundum kynslóð eftir kynslóð, æða um Jörðina, og skynjum skýrt að lífríkið hefur yfir ógnarafli að ráða rétt eins og Jörðin sem það byggir. Lífið heldur vissulega áfram að vera þolandi náttúruaflanna, en samtímis verkar það til baka á umhverfi sitt og tekur þátt í mótun plánetunnar. Hamfarir Jarðar verða lífverum hennar sannarlega að fjörtjóni, en þær taka samtímis "höndum saman" um að mylja berg (gegnum ljóstillífun grænu korna plantnanna myndast súrefni, er binst vetni til að kljúfa sundur stærstu fjöll, sverfa að landi og dynja á sléttum). Með því að skoða hlutina í stóru samhengi sjáum við að áhrif lífs og plánetu eru innbyrðis. Eftir að sjónarhóll okkar á Jörðina hefur færst út fyrir hana, með tilkomu sólmiðjukenningar Kópernikusar, hefur skilgreining Jarðarhugtaksins byggst á því að afmarka hana (vita hvar hún byrjar og endar). Vandalítið er að greina Jörðina frá hinum myrka geim allt í kring . Afmörkunin felur því í sér þann vanda helstan að skoða Jörðina í samhengi við lífríkið. Spurningin er hvort rétt sé að aðgreina þetta tvennt, eða líta á það sem eitt og sama fyrirbærið. Auðvelt væri að greina lífríki og plánetu sundur ef áhrifasambandið væri ekkert, eða í mesta lagi einstefna frá plánetu til lífríkis (þar sem afkoma lífríkis byggðist á því að leita skjóls undan afli Jarðar). Ofangreint innbyrðis áhrifasamband er hins vegar vísir að nánari tengslum á milli fyrirbæranna, og að þau séu ef til vill svo samofin að erfitt sé, eða jafnvel útilokað, að segja til um hvar annað byrjar og hitt endar. Efnasamsetning fyrirbæranna er annar mælikvarði sem hægt væri að freista þess að nota til að finna mörk lífs og plánetu, en eins og með áhrifasamband lífs og plánetu reynast þessi mörk óljós. Lífræn efnasambönd (sem innihalda kolefnissameindir) eru eitt helsta einkenni lífvera. Þau greina melónuna frá steininum, mjólkina frá vatninu og trjágreinar frá ískristöllum. Engu að síður getur aðgreining jarðfræðilegra fyrirbæra og líffræðilegra með þessum hætti reynst örðug. Hvernig eigum við, til dæmis, að fjalla um þann part af jarðveginum sem upprunalega er kominn af lífverum, rotnandi undir fótum okkar í formi olíu, kola eða gastegunda? Jarðvegurinn er víða lífrænar leifar löngu liðinna dýra og plantna. En þessu má einnig hæglega snúa við, því að lífverur eru að sama skapi miklu leyti ólífrænar. Aðeins lítill hluti hverrar lífveru er í raun myndaður af lífrænum efnasamböndum. Líkami mannsins er, til að mynda, um 70% vatn, svo að ekki sé minnst á önnur ólífræn efnasambönd. Erfitt er að segja til um hver þessara ólífrænu efnasambanda líkamans tilheyra lífverum og hver umhverfinu. Það er ekki nema stigsmunur á hornum hreindýrsins, kuðungi snigilsins og skeljum (sem á endanum þekja fjörur rétt eins og sandur og grjót) (Lovelock, 1988, bls. 19). Jarðarhugtakið hefur því, skv. ofantöldu,
breyst mikið í gegnum tíðina og þróun
þess hefur einkennst af stöðugri útvíkkun.
Fyrst vísaði orðið í jarðveginn undir fótum
vorum sem eitt af frumefnum heimsins. Síðar átti orðið
við um öll frumefnin til samans, jörð, eld, vatn og loft,
í formi hinnar nýju ásýndar heimsins: plánetu.
Plánetan hélt þó áfram að bera nafn
eins frumefnanna af gömlum vana. Síðasta þróunarskref
merkingar Jarðarhugtaksins er smám saman verið að stíga
um þessar mundir eftir því sem fleiri vísindamönnum
vex meðvitund um vistfræði Jarðar og gera sér
jafnframt grein fyrir hve vafasamur múrinn er milli hins lífræna
og hins ólífræna. Eftir þvi sem frasinn "hin
lifandi Jörð" verður mönnum tamari í munni á
kostnað "lífsins á Jörðinni" verður þessi
hlutdeild manns og annarra lífvera í Jarðarhugtakinu
því greinilegri.
|