Plútó
dimma tvístirnið
 
 
 
 
Plútó á sér fylgihnött sem við köllum Charon.  Þær eru mjög svipaðar að stærð (Plútó er líklega aðeins um 10 sinnum þyngri en Charon, samanborið við Jörðina sem er um 80 sinnum þyngri en Tunglið).  Þær eru einnig mjög nálægt hvorri annarri (eins og sést á myndunum), samstilltar eins og ein pláneta.  Charon snýst í kringum Plútó, en hún snýr allaf sömu hliðinni að Plútó (hún snýst eins og Tunglið kringum Jörðina).  En þyngdarmunurinn er svo lítill á þessum tveimur hnöttum að Plútó verður fyrir miklum áhrifum af Charon og fylgir henni eftir.  Plútó snýst í kringum sjálfa sig á nákvæmlega sama hraða og Charon fer í kringum Plútó.  Ef við værum stödd á Plútó og horfðum upp á himininn sæjum við Charon alltaf á nákvæmlega sama stað, dag og nótt. Charon myndi virka eins og hvert annað kennileiti á yfirborði Plútó. Áður fyrr var talið að Jörðin og Tunglið væru besta dæmið um tvístirni í sólkerfinu, enda er stærðarmunur þar mjög lítill, og Tunglið snýr alltaf sömu hliðinni að Jörðinni.   En hér kom hins vegar í ljós hið fullkomna tvístirni, tveir helmingar sem snúa alltaf sömu hliðinni hvor að öðrum, og snúast þannig.

Plútó er lang minnst allra reikstjarnar sólkerfisins.  Hún er minni en Tunglið okkar.   Hún er heldur ekki gashnöttur.  Fyrir vikið sést hún verulega illa, jafnvel með bestu mælitækjum.  Hún er of fjarlæg, lítil og skortir skýjahjúp til að endurvarpa ljósinu betur.  Það sem hins vegar sést er mis mikið birtustig hennar.  Hún tifar.  Það er vegna þess að Charon ferðast í kringum Plútó á tæplega sex og hálfum degi, og endurvarp sólarljóssins er mis mikið eftir því hvernig þær raðast upp saman.


(Þetta eru Plútó og Charon).


Plútó var ekki uppgötvuð fyrr en um miðja öldina, og Charon fannst ekki fyrr en árið 1978.  Skýringin er sú að Plútó er lítil, dimm og fer gríðarlega langa braut um sólu (248 ár). Á stjörnuhimninum er hún því eins og afar dauf stjarna, auk þess sem að hreyfing hennar sést varla með nokkru móti.   Að jafnaði er hún ysta plánetan í sólkerfinu, en braut hennar er undarleg.  Hún fer ekki hring í kringum plánetuna sem er fyrir innan (eins og allar hinar pláneturnar gera) heldur sker Plútó sporbraut Neptúnusar, þannig að á vissum hluta brautar sinnar er Plútó fyrir innan Neptúnus!  Við tölum samt um Plútó sem ystu reikistjörnuna vegna þess að hún er svo stuttan tíma fyrir innan Neptúnus (aðeins í tuttugu ár af þessum 248.  Hún er reyndar núna fyrir innan Neptúnus, svona rétt fyrir aldamótin, og svo ekki næst fyrr en í kringum 2200!!).   Menn velta því að sjálfsögðu fyrir sér hvort ekki sé hætta á árekstri milli Neptúnusar og Plútó þegar brautirnar skerast, en svo er víst ekki því þær liggja blessunarlega mis hátt.
 

Plútó er mikiið þrætuepli stjarnfræðinga.  Þeir eru ekki á eitt sáttir um hvort rétt sé að skilgreina Plútó sem plánetu yfirleitt vegna þess hvað hún er fáránlega lítil og hvað sporbrautin hennar er á skjön við allt annað í sólkerfinu.  Hún gæti allt eins verið fylgihnöttur sem losnað hefði burt frá einhverri af ytri plánetunum, eða úr öðru sólkerfi.  Hún er það ólík ytri plánetunum (hún er ekkert í líkingu við gasrisana).  Braut hennar er líka svo skökk, að það er eins og hún sé á einhverju öðru ferðalagi en "hinar" pláneturnar.   Plútó passar einfaldlega ekki inn í kerfið.  En hún er þarna samt, og hvort sem hún kallast pláneta, eða ekki, þá er hún svo sannarlega eina fullkomna tvístirnið sem við þekkjum í sólkerfinu.
 
 



 
1. Hversu stór er Plútó?
2. Hvaða hitastig er á Plútó?
3. Að hvaða leyti líkist Plútó Jörðinni?
4. Af hverju er erfitt að samþykkja Plútó sem reikistjörnu?
5. Að hvaða leyti er Plútó ólík hinum ytri reikistjörnum?
6. Hvernig og hvenær gátu menn útskýrt mismunandi ljósmagn Plútó?
7. Hversu lengi er Plútó næst ysta reikistjarnan, og hvað er árið langt á Plútó?
8. Hvað er sólarhringurinn langur á Plútó?
Til baka á aðalsíðu