Júpíter
drottning plánetanna
Júpíter er svo sannarlega drotting sólkerfisins.
Hún er afar litrík, með
fjölmargar þverrendur út um allt, auk fjölda alls
kyns bletta. Þar af sker sig einn úr, stór og
rauður, sem kallast jafnan rauði bletturinn. Hann er eiginlega
einkennistákn plánetunnar. En Júpíter
er ekki aðeins litskrúðug og lífleg, heldur er hún
langsamlega stærst allra reikistjarnanna. Þvermál
hennar er ellefu sinnum meira en þvermál
Jarðar, og massi Júpiters er svo mikill að ef við röðuðum
öllum plánetum sólkerfisins á heimsins stærstu
vogarskál og settum Júpíter hinum megin, þá
myndi Júpíter hlunkast niður. Hún er nefnilega
rúmlega tvisvar sinnum þyngri en allar hinar pláneturnar
til samans! Ekki nóg með það, heldur er umfang Júpíters
svo gríðarlegt að allar hinar pláneturnar kæmust
fyrir inni í honum!!
(hér sést rauði
bletturinn skýrt, neðarlega fyrir miðju)
Júpíter er líka afar "sjálfstæð"
pláneta, eiginlega hálfgerð sól,
því hún hefur mikið hitaútstreymi.
Hún losar sig við meiri hita en hún
fær að gjöf frá sólinni (þannig
eru Satúrnus og Neptúnus líka). Samt er yfirborð
hennar (sem er loftkennt, og gert úr vetni og helíum) ekki
mjög heitt. Talið er að við ystu skýjaborð
Júpíters sé um 135 stiga frost.
En það verður víst heitara eftir því
sem innar dregur.
Fylgitungl Júpíters
Júpíter er heillandi út af fyrir sig, en til að
krýna drottninguna enn frekar þá sveimar í kringum
hana fjöldinn allur af fylgitunglum,
yfir tuttugu talsins, sum hver heillandi og skrítin. Fjögur
þeirra eru áberandi stærst og hafa verið þekkt
öldum saman allar götur síðan Galileo
kom auga á þau í stjörnukíki sínum
árið 1609. Þau heita Callisto,
Io, Europa og Ganymede. Þau er ískaldir jöklaheimar,
enda óralangt frá sólinni. Við því
var að búast. En árið 1979 þegar könnunarfarið
Voyager fór fram hjá Júpíter kom í ljós
að eitt af tunglum Júpíters var allt annað en kalt.
Þar kraumaði yfirborðið í einu stóru eldgosabelti.
Io reyndist vera jarðfræðilega virkasti bletturinn í
sólkerfinu. Allt í allt fundust átta spúandi
eldfjöll samtímis. Þetta er ein af ráðgátum
sólkerfisins, því erfitt er að skilja hvernig svo
virkur hnöttur getur fyrirfundist svona óralangt frá
sólinni.
(eldfjallahnötturinn IO)
Hérna er hinn þekkti rauði blettur á Júpíter.
Talið er að hann sé fárviðrabelti. Hann
einn og sér er með stærra þvermál en Jörðin.
Þetta er mynd af tveimur fylgitunglanna og samanburðurinn
við Júpíter er ógurlegur.
Til
Upprifjunar
1. Hvert er einkennistákn
Júpíters?
2. Hvað heita
stærstu tungl Júpíters?
3. Hvað er
sérstakt við tunglið IO?
4. Hversu
þung er Júpíter, miðað við aðrar plánetur?
5. Hversu stór
er Júpíter, miðað við Jörðina?
6. Hvaðan
fær Júpíter mest allan sinn hita?
til baka á aðalsíðu